141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[19:44]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í síðari ræðu minni við 3. umr. ætla ég að reyna að hlaupa á nokkrum aðalatriðum. Varðandi skilgreint hlutverk Ríkisútvarpsins, sem við þingmenn höfum aðeins fjallað um í dag, geri ég í sjálfu sér ekki stórar athugasemdir við það þó að ég deili þeim skoðunum að eðlilegt sé að menn hafi mismunandi sjónarmið á hvort efni þeirrar skilgreiningar sé nægilega skýrt eða afmarkað eða hvort það þýði að Ríkisútvarpið geti gert hvað sem er. Samkvæmt 3. gr. er þó reynt að tilgreina ákveðna þætti er varða ýmsa starfshætti, menningarlegt og lýðræðislegt hlutverk sem og hvernig það uppfyllir skyldur sínar í almannaþágu sem best.

Varðandi lýðræðishlutann er tillaga frá fulltrúa framsóknarmanna í allsherjar- og menntamálanefnd, hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, sem hv. þingmenn fjölluðu um áðan, þar sem fjallað er um að veita þann lýðræðislega jafna aðgang að öll gild framboð til Alþingis fái tíma til að kynna stefnumál sín endurgjaldslaust í ríkisfjölmiðlinum. Eins og ég hef skilið tillöguna er hún sett meðal annars fram til að koma til móts við sjónarmið sem menn hafa gert athugasemdir við í lýðræðiseftirliti með kosningum og framboðstíma.

Ég skil þetta jafnframt eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson að það útiloki ekki Ríkisútvarpið að fjalla um önnur framboð eða ákveðin framboð með einhverjum öðrum hætti en þetta, heldur sé þetta fyrst og fremst lágmarksaðgangur.

Einnig er svohljóðandi breytingartillaga frá hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, fulltrúum sjálfstæðismanna í allsherjar- og menntamálanefnd: „Minnst 20% af fjárveitingum til dagskrárgerðar Ríkisútvarpsins skal varið til kaupa á innlendu efni af sjálfstæðum framleiðendum.“

Ég skil hugmyndafræðina sem liggur á bak við hana. Mér finnst nú reyndar nokkuð vel í lagt að það sé minnst 20% af þeim fjárveitingum sem koma til dagskrárgerðar og bendi á — að vísu má kannski segja að þetta sé þá ekki til rekstrarins, þetta er hluti af því sem fer til dagskrárgerðarinnar, en talað er um það í nefndaráliti meiri hlutans að a.m.k. 10% fari til þessarar starfsemi. Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda hefur meðal annars lagt slíkt ákvæði fram. Ég held að það sé á margan hátt skynsamlegt þar sem stór hluti af því sem Ríkisútvarpinu er ætlað að gera er einmitt að kynna íslenska menningu og íslenskar afurðir þeirrar atvinnugreinar getum við sagt.

Ég sagði í upphafi fyrri ræðu minnar í 3. umr. að ég ætlaði að fjalla örlítið um þær breytingar sem eru á fjárhagsumhverfi Ríkisútvarpsins, þ.e. að útvarpsgjald eigi að renna óskert til félagsins. Það er niðurstaða meiri hlutans og ég er sammála þeirri niðurstöðu enda í samræmi við stefnu framsóknarmanna. Hins vegar er það umræðunnar virði að taka þá umræðu að í umsögn fjárlagaskrifstofunnar kemur fram og eins hefur fjárlaganefnd þingsins fjallað um það að menn eigi að forðast markaða tekjustofna eins og hægt er. Ég tel að það sem hér er verið að gera og rökin fyrir því, að Ríkisútvarpið eigi að fá útvarpsgjaldið óskert, sé tilraun til að skerpa á sjálfstæði Ríkisútvarpsins gagnvart löggjafarvaldinu, fjárveitingavaldinu og stjórnmálunum þannig að það geti starfað sem sjálfstæður ríkismiðill og sinnt því gríðarlega umfangsmikla verkefni sínu að vera fjölmiðill í almannaþágu, sem við framsóknarmenn höfum stutt og styðjum áfram.