141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[19:49]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Nú líður að lokum þessarar umræðu en enn þá vantar svör við nokkrum grundvallarspurningum sem hafa komið fram í umræðunni. Í fyrsta lagi vantar svör af hálfu stjórnarliða við því hvort raunverulega sé verið að skýra almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins betur en gert er. Við erum sammála um að orðunum fjölgar, töluliðunum fjölgar miðað við frumvarpið eins og það lítur út. En ef 3. gr. frumvarpsins er lesin verður ekki annað séð en þar undir megi færa svo til allt sem telja má til fjölmiðlastarfsemi. Ef hugmyndin er sú að greina að annars vegar fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og hins vegar aðra fjölmiðlaþjónustu verður ekki séð að sú grein hjálpi miklu í því sambandi.

Í annan stað er enn ástæða til að velta fyrir sér stöðu dótturfélaga RÚV nái frumvarpið fram að ganga. Segja má að þegar lesnar eru saman annars vegar 4. gr. og hins vegar 16. gr. megi fá ákveðna vísbendingu um í hvaða átt frumvarpshöfundar stefna með þessu. En hins vegar verður að segja að í frumvarpinu sem slíku, þrátt fyrir ákvæði 16 gr., eru litlar tryggingar fyrir því að ekki sé farið út í starfsemi sem í raun og veru ætti miklu frekar heima hjá einkaaðilum en ekki hjá ríkisstofnun eða opinberu hlutafélagi eins og RÚV.

Í þriðja lagi hefur litlu verið svarað í sambandi við stjórnarfyrirkomulagið eins og það er sett upp. Ég spyr enn hvernig og í rauninni hvaðan sú hugmynd er fengin að láta allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis velja þrjá menn í valnefnd á tveggja ára fresti sem eiga síðan að tilnefna menn í stjórn árlega. Mér finnst þarna vera farin, eins og ég sagði fyrr í umræðunni, afskaplega flókin leið að einföldu markmiði. Það væri út af fyrir sig hreinlegra miðað við þessar aðstæður, ef á annað borð þykir ástæða til að þingið komi að vali þeirrar stjórnar, að láta þingið einfaldlega kjósa stjórnarmenn og byggja þá á þeim reglum sem venjulega gilda um slíkar kosningar í þinginu. Ég held að það væri hreinlegra en að fara krókaleiðir eins og gert er í frumvarpinu.

Mér var hugsað til þess, hæstv. forseti, þegar ég sá þessa tillögu þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var í vandræðum með málefni Magma og Hitaveitu Suðurnesja fyrir nokkrum árum, árið 2010 hygg ég að það hafi verið, í sambandi við nefnd sem átti að fjalla um umsóknir um fjárfestingar erlendra aðila. Þá átti að skipa menn í nefnd. Einhver vandræði voru í kringum það þannig að sett var á fót valnefnd og svo þurfti að setja á fót hæfisnefnd til að skipa menn í valnefndina og allt varð þetta einn hrærigrautur og auðvitað kom ekkert út úr því. Þetta var náttúrlega stjórnsýslulegt klúður. Ég verð að játa að ég hef nokkrar áhyggjur af því að það stjórnarfyrirkomulag sem verið er að setja upp gagnvart Ríkisútvarpinu verði einhvers konar stjórnsýslulegt klúður. Spurningin er sú þegar ábyrgðarröðin er sett upp með þeim hætti hver geti kallað þá sem með völdin fara í Ríkisútvarpinu til ábyrgðar. Hvernig á þingið til dæmis að fullnægja eftirlitshlutverki sínu o.s.frv.? Þetta er svolítið sérkennilega uppsett kerfi svo að ekki sé meira sagt.

Síðan má reyndar geta þess í framhjáhlaupi að engar reglur gilda um hvernig eigi að skipa í stjórnir dótturfélaga. Þar virðist það vera alfarið einhvers konar innanhússmál hjá RÚV hvernig á að skipa í stjórnir dótturfélaga sem getur hugsanlega, hvað eigum við að segja, falið í sér mikil völd ef út í það er farið, sérstaklega ef dótturfélögin verða umsvifamikil eins og gæti alveg gerst. Frumvarpið hindrar það ekki með nokkrum hætti. En það þykir sem sagt nauðsynlegt að setja mjög stífa stjórn og miklar kröfur í kringum það hvernig valið er í stjórn Ríkisútvarpsins en hins vegar eru engar kröfur settar um hvernig á að velja í stjórnir dótturfélaganna.

Ég verð að ljúka máli mínu, hæstv. forseti, ég get ekki tekið aftur til máls í þessari umræðu en ég vara við því að frumvarpið verði afgreitt í því formi sem það enn er.