141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:01]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég studdi á sínum tíma þau lög sem nú gilda um starfsemi Ríkisútvarpsins þegar hv. þingmaður, þáverandi hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, kom í gegn þeim breytingum sem byggt er á við núgildandi lagaumhverfi. Ég reifaði reyndar í þeirri umræðu enn róttækari hugmyndir um breytingar á fyrirkomulagi Ríkisútvarpsins og studdi á sínum tíma hugmyndir sem hv. þm. Pétur Blöndal var með um enn meiri uppstokkun á því sviði. Mér er hins vegar ljóst að mikil andstaða er við að ganga svo langt og ég sætti mig mjög vel við það að Ríkisútvarpið sé rekið sem fjölmiðill í almannaþágu.

Það sem ég hef talað fyrir í þessari umræðu hvað eftir annað er að ég tel að skilgreina þyrfti betur hvað nákvæmlega fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu er. Hvað fellur þar innan garðs og hvað fellur utan garðs. Eins og ég benti áðan á í ræðu minni tel ég að frumvarpshöfundum hafi ekki tekist að gera þann greinarmun eins og frumvarpið er nú fram sett og ég álít að það sé galli.

Ég álít að það sé líka galli á frumvarpinu að Ríkisútvarpinu er gert kleift að stofna dótturfélög um nánast hvað sem er. Það eru að því er virðist engar hömlur á því hvað Ríkisútvarpið getur gert og hvað það getur ekki gert. Það getur farið út í nánast hvaða starfsemi sem er undir formerkjum dótturfélaga. Ég hef nokkrar áhyggjur af því jafnvel þó að gert sé ráð fyrir að þau dótturfélög séu rekin á markaðslegum forsendum vegna þess að það er hætt við að þau njóti skjóls Ríkisútvarpsins sem er má segja yfirgnæfandi aðili á tilteknum hluta fjölmiðlamarkaðarins. Ég hef því áhyggjur af samkeppnisstöðu í því sambandi auk þess sem mér finnst, eins og við hv. þingmaður höfum rætt um, nokkur lausung í kringum umgjörð þessara dótturfélaga eins og það er fram sett miðað við frumvarpið.