141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:04]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp um Ríkisútvarpið sem er og á að vera fjölmiðill í almannaþágu. Það er mikilvægt að við vöndum okkur þegar við tölum um fjármuni ríkissjóðs eins og við gerum í tengslum við þetta mál, líkt og sést á ítarlegri umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Það er mikilvægt að við áttum okkur á því að þegar við tölum um rekstur á vegum Ríkisútvarpsins, sem er að einhverju leyti í samkeppni við einkaaðila, þurfum við að vanda okkur sérstaklega mikið og þetta mál er dæmi um slíkt. Við erum með ríkisútvarp sem rekur tvær útvarpsstöðvar og eina sjónvarpsstöð og er á sama markaði og einkareknir fjölmiðlar. Við þekkjum þá miklu gagnrýni sem hefur borist okkur í þingið og hefur verið fyrirferðarmikil í umræðunni í samfélaginu um hversu erfitt er fyrir einkarekna fjölmiðla að vera í samkeppni við það stóra batterí sem Ríkisútvarpið er. Okkur hefur jafnframt verið bent á af aðilum í Evrópu að það standist kannski ekki alveg skoðun að öllu leyti og þess vegna þurfum við að fara yfir löggjöfina og það er vel.

Ég er ekki á móti því að RÚV sé til. Ég skil að mikilvægt er að til sé fjölmiðill sem hefur það meðal annars að markmiði að sinna menningararfi okkar, gæta að því að sagðar séu fréttir og gegnir mikilvægu hlutverki er varðar almannavarnir. Við sem búum í Rangárvallasýslu og bæði þekkjum og höfum lent í náttúruhamförum af völdum eldgosa og flóða í kjölfar þeirra þekkjum hversu mikilvægt er að hafa slíkan fjölmiðil. Þess vegna veldur það manni vonbrigðum þegar maður les frumvarpið að ekki skuli vera gerð tilraun til að afmarka skýrt hvert hlutverkið er, þ.e. hvað það þýðir að vera fjölmiðill í almannaþágu. Miðað við II. kafla um hlutverk og skyldur RÚV og 3. gr. þar sem er fjallað um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu er skilgreiningin það víð að maður getur nánast ekki ímyndað sér neitt sem ekki rúmast innan þeirrar skilgreiningar. Þar er vísast að vísa í 3. tölulið 1. mgr. 3. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Fjölmiðlaefnið skal hið minnsta vera fréttir og fréttaskýringar, fræðsluþættir, íþróttaþættir, afþreying af ýmsum toga, lista- og menningarþættir og sérstakt efni fyrir börn og ungmenni.“

Frú forseti. Hvað rúmast ekki þarna? Ef það væri einhver hér sem gæti komið með dæmi um það yrði maður fljótur að hlaupa yfir í 4. gr. sem heitir Önnur starfsemi en þar er kveðið á um að Ríkisútvarpið skuli stofna og reka dótturfélög um aðra starfsemi en þá sem rúmast innan 3. gr. Þá er það komið. RÚV getur gert hvað sem er og ef það getur ekki gert það á grundvelli 3. gr. er það gert á grundvelli 4. gr. í dótturfélagi. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því að endurskoðun laganna hafi ekki skilað okkur lengra en við sjáum í frumvarpinu. Ég skil ekki alveg af hverju menn vilja ekki ganga lengra. Kannski er það svo að vinstri menn sem stjórna landinu deila ekki þeim skoðunum mínum og finnst eðlilegt að á samkeppnismarkaði, sem fjölmiðlamarkaðurinn er vissulega, sé ríkisútvarp allsráðandi sem er erfitt, ef ekki ómögulegt, fyrir einkaaðilana að keppa við og ég er ósammála því.

Fjármögnunin sem er lögð til að gengið verði út frá verði frumvarpið að lögum á Alþingi er heill kapítuli út af fyrir sig og efni í heila ræðu. Ég veit að félagar mínir, sjálfstæðismennirnir, sem sitja í fjárlaganefnd hafa farið ítarlega yfir það en auðvitað er óeðlilegt að við ætlum okkur ekki að fara með það í gegn að afmarka Ríkisútvarpinu fjárlög frá Alþingi heldur hafa nefskatt þannig að framlögin til stofnunarinnar sveiflast í rauninni eftir því hversu margir greiðendurnir eru.

Ef þetta er fjölmiðill í almannaþágu, sem á þá væntanlega að hafa skilgreint hlutverk og sinna því sem við teljum mikilvægt að ríkið standi fyrir, hlýtur að vera hægt að afmarka verkefni hans eitthvert fé. Segjum að allt fari að ganga mun betur og gjaldendum fjölgi til muna, hvað þá? Eykst almannahlutverk Ríkisútvarpsins? Hvernig fer það saman? Á að auka útsendingarklukkutímana eða hvað á að gera? Ég átta mig engan veginn á því samhengi og ég sé ekki alveg að það sé nægilega rökstutt af hálfu þeirra sem leggja það fram. Ég sé að minnsta kosti að fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins gerir miklar og ítarlegar athugasemdir við það sem er vert að lesa fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér málin.

Ég held að það sé stærsta athugasemdin sem fjárlagaskrifstofan gerir en vert er að benda á að í umsögn hennar segir jafnframt að ekki sé afmarkað nægilega vel hvert almannaþjónustuhlutverk RÚV sé og það hlutverk ætti auðvitað að vera forsenda fyrir því hversu hár ríkisstyrkurinn er.

Frú forseti. Ég tel að áður en lengra er haldið með málið verði að taka betri umræðu um akkúrat þann lið vegna þess að hann er mikilvægur. Af því að 3. umr. verður væntanlega senn lokið erum við að fara að samþykkja sem lög frá Alþingi nýja framkvæmd gagnvart fjármögnuninni og ég hef miklar áhyggjur af því.

Frú forseti. Ég fór yfir í fyrri ræðu minni hvernig menn ætla sér að skipa í stjórn og blanda allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis inn í þann verknað. Ég átta mig ekki alveg á því sem er verið að segja hér af því að við lifum ekki í tómarúmi og þetta frumvarp er væntanlega ekki eina frumvarpið sem við munum ræða í framtíðinni varðandi ríkisstofnanir þar sem ætlunin er að skipa í stjórnir. Er það stefna þeirrar ríkisstjórnar sem leggur málið fram að blanda þingnefndum að jafnaði inn í slíkar skipanir? Eða á það að vera einhver sérregla fyrir RÚV? Ég hef mikinn áhuga á stjórnsýslunni og mikinn áhuga á því að ákveðið samhengi og skýrleiki sé í framkvæmd ríkisvaldsins. Þegar maður horfir til stjórnsýslunnar er gott að meginstefnu til að viðhafa sömu leikreglur alls staðar. Verið er að koma fram með nýjan hlut þar sem er gert ráð fyrir því að allsherjar- og menntamálanefnd tilnefni þrjá fulltrúa og jafnmarga til vara í valnefnd sem á svo að koma með nöfn og tilnefna fulltrúa í stjórn. Miðað við þetta hlýtur það að vera ný skoðun vinstri flokkanna að svona eigi almennt að gera varðandi stjórnir. Það sem ég hef meiri áhyggjur af í því samhengi er hvort þetta sé líka nýja fjármögnunarleiðin sem við munum sjá verði raunin sú að núverandi ríkisstjórn fær áframhaldandi umboð, sem ég tel nú reyndar frekar ólíklegt. Er það nýja normið í öllum framtíðarpælingum um ríkisstofnanir? Ég hef ákveðnar áhyggjur af því.

Frú forseti. Ég ætlaði í ræðu minni að ná að fjalla aðeins um þær breytingartillögur sem hafa verið lagðar fram við umræðuna. Önnur er frá hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur og Guðlaugi Þór Þórðarsyni um að nýr málsliður komi inn á eftir 2. málslið 4. töluliðar 3. mgr. 3. gr. en þar segir, með leyfi forseta:

„Minnst 20% af fjárveitingum til dagskrárgerðar Ríkisútvarpsins skal varið til kaupa á innlendu efni af sjálfstæðum framleiðendum.“

Eins og ég skil tillöguna er verið að gera tilraun til að afmarka og skylda þennan fjölmiðlarisa ríkisins til að eyða að minnsta kosti ákveðnu hlutfalli af þeim fjárveitingum sem varið er til dagskrárgerðar til kaupa á innlendu efni. Ég verð að segja að breytingartillagan er virðingarverð af því að hún reynir alla vega að teygja sig í þá átt að maður skilji í hvað allir peningarnir eiga að fara, hún reynir að afmarka það á einhvern hátt þannig að við skattgreiðendur áttum okkur á því til hvers ríkið setur alla þessa fjármuni í RÚV með því sérstaka gjaldi sem verður innheimt. Ég verð að segja að ég hefði óskað þess að meiri umræða hefði verið um breytingartillöguna af hálfu þeirra sem bera málið uppi, af hálfu meiri hlutans. Það hefði verið ágætt ef tekin hefði verið mikil rispa í nefndinni á tillögum sem þessum og reynt að bjarga því sem bjargað verður með frumvarpið, reynt að skilgreina það sem okkur finnst eðlilegt að ríkið geri og hvert almannahlutverk RÚV eigi í raun að vera.

Hin breytingartillagan var lögð fram af hv. þm. Siv Friðleifsdóttur og ég er ekki alveg sammála henni. Samkvæmt þeirri breytingartillögu á að koma nýr málsliður á eftir 2. málslið 7. töluliðar 2. mgr. 3. gr. þar sem á að segja, með leyfi forseta:

„Einnig skal Ríkisútvarpið veita öllum gildum framboðum til Alþingis jafnan útsendingartíma til að kynna stefnumál sín án endurgjalds.“

Frú forseti. Mér finnst þetta afskaplega sérkennilegt og sé ekki alveg hvernig það á að virka. Ég reyndi að fá einn ágætan framsóknarmann til að útskýra það aðeins betur fyrir mér og mér skilst að ekki sé átt við að ekki megi fjalla um framboðin á neinn annan hátt á RÚV, framboðin mættu að sjálfsögðu kaupa sér auglýsingatíma og RÚV væri í samkeppni við einkaaðila á þeim markaði eins og á öllum öðrum sviðum auglýsingamarkaðarins. Allt í lagi, tillagan er alla vega skárri en eins og ég skildi hana en mér finnst þetta ekki vera eitthvað sem á að fara í frumvarpið. Ég hefði kannski kosið að fá að hlýða á ræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur þar sem hún hefur væntanlega farið ítarlega yfir tillöguna en mér finnst hún alla vega sérkennileg samkvæmt orðanna hljóðan og get ekki fellt mig við hana.

Frú forseti. Það hafa ýmsir gagnrýnt frumvarpið og hvernig er reynt að gera tilraun til að takmarka hlutverk RÚV og þar á meðal hlutdeild þess á auglýsingamarkaði. Sumir umsagnaraðilar hafa gefið til kynna með umsögnum sínum að þeir telji að þær skerðingar eða sá rammi sem er verið að reyna að setja utan um hlutverkið muni ekki skila neinum árangri. Þeir gagnrýna að þær áætlanir sem menntamálaráðuneytið byggði sínar áætlanir á segi í rauninni ekkert annað en það sem RÚV heldur að muni gerast. Það hefur ekki farið fram neitt hlutlaust mat á því.

Reyndar var fjallað um það í nefndinni og að því er mig minnir gerðar ákveðnar breytingar á milli umræðna. Það er svo sem ágætt en það er samt þannig að þegar maður undirbýr viðamikið frumvarp eins og þetta er auðvitað óeðlilegt af hálfu ráðuneytisins, og þar af leiðandi af hálfu ráðherra sem á náttúrlega að gæta að því að allt saman sé gert vel, að ekki sé farið í betri undirbúningsvinnu varðandi athugunina á því hvaða áhrif fyrirferðarmikil viðvera RÚV hefur á einkaaðila á markaðnum og reynt að koma með tillögur sem ganga í rauninni lengra og skila meiru til að efla frjálsa samkeppni hér á landi.