141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:20]
Horfa

Sigfús Karlsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir framsögu hennar. Ég hjó eftir því að hún var ekki alveg með á breytingartillögu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um að Ríkisútvarpið veiti öllum gildum framboðum til Alþingis jafnan útsendingartíma til að kynna stefnumál sín án endurgjalds. Mér finnst þetta liggja nokkuð í augum uppi ef menn lesa 2. málslið 7. töluliðar 2. mgr. 3. gr. en þar segir að Ríkisútvarpið skuli sinna lýðræðislegu hlutverki sínu m.a. með því að, með leyfi forseta:

„Kynna framboð til almennra kosninga, helstu stefnumál framboða, frambjóðenda og fylkinga eftir atvikum og greina ítarlega frá niðurstöðum kosninga. Þá skal það veita öllum gildum framboðum til Alþingis og forsetakosninga, sem og fylkingum í þjóðaratkvæðagreiðslum, jafnt tækifæri til að kynna stefnumál sín á hefðbundnum dagskrártíma í sjónvarpi.“

Þetta er í sjálfu sér ekki flókið frá mínum bæjardyrum séð. Þarna leggur hv. þm. Siv Friðleifsdóttir til að það verði ákveðinn tími, útsendingartími, án endurgjalds fyrir öll gild framboð. Þannig að ég hygg að þetta sé nú kannski ekki eins flókið og þingmaðurinn talaði um hér áðan. Þannig að ég spyr kannski frekar þingmanninn um hvaða skilning hún hafi á breytingartillögu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur.