141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:22]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég skil þetta samkvæmt orðanna hljóðan þannig að á dagskrá ríkissjónvarpsins eða Ríkisútvarpsins, hvort sem maður vill viðhafa, og væntanlega ræður RÚV því eða eitthvert dótturfélag, skuli framboð hafa, hvað eigum við að segja, korter eða svo á útsendingartíma til að kynna stefnumál sín án endurgjalds. Þannig að það verði korter fyrir Framsóknarflokk, korter fyrir Sjálfstæðisflokk og svo framvegis án þess að nokkrir aðrir aðilar komi að þeirri dagskrárgerð og án samhengis við aðra hluti sem bornir eru á borð.

Við sjáum hvað stendur í tillögunni í 2. málslið 7. töluliðar, 2. mgr. 3. gr. þar sem segir að RÚV eigi að fjalla um kosningar og þar kemur þessi upptalning, með leyfi forseta:

„Þá skal það veita öllum gildum framboðum til Alþingis og forsetakosninga, sem og fylkingum í þjóðaratkvæðagreiðslum, jafnt tækifæri til að kynna stefnumál sín á hefðbundnum dagskrártíma í sjónvarpi. “

Það er því þegar komið inn í ákvæðið að gild framboð fái dagskrártíma. Ef texti breytingartillögunnar um jafnan útsendingartíma á að bætast þarna við, á eftir þessu, þá átta ég mig ekki alveg á hver munurinn er eða hvað þetta þýðir. Breytingartillagan hlýtur að eiga að skiljast í samhengi við það sem þegar segir í frumvarpinu af því að ekki er gert ráð fyrir að neinn texti detti út.

Þegar ég las breytingartillöguna eina og sér skildi ég hana þannig að ákvæðið væri takmarkandi á það sem RÚV gerir sjálft í þessum kosningum. Er þetta eini tíminn sem á að gefa? Fyrir utan að framboðin geta, eins og upplýst var af hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, keypt sér auglýsingatíma. Að öðru leyti afmarkist kynningin við þetta sjálfstæða korter, eða fimm eða tíu mínútur sem hér er átt við.