141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:24]
Horfa

Sigfús Karlsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að það sé ekki eins langt á milli okkar í þessu máli eins og kannski lítur út fyrir að vera. Að mínu mati er það rétt skilið hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að með breytingartillögunni er átt við að öll gild framboð fái „extra“, ég biðst forláts, aukatíma, hvort sem það eru tíu, fimmtán eða 30 mínútur, sem hægt er að ráðstafa fyrir hverjar kosningar án endurgjalds og þau geti svo keypt sérstaklega inni í auglýsingatíma Ríkisútvarpsins. Þannig að ég lít á þetta frekar sem inni í auglýsingatíma en í umfjöllun því að það er mjög erfitt að ætla að það sé sérstök umfjöllun um framboðin. Þó getur það alveg verið en þá verður sú umfjöllun að vera á jafnréttisgrundvelli fyrir öll þau framboð sem gild eru til kosninga.

Ég þakka þingmanninum fyrir þessi svör en það sem mér finnst vanta kannski er svarið við þeirri spurningu sem ég leyfði mér að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson um fyrr í dag í umræðunni um hvort þetta væri raunverulega skoðun Sjálfstæðisflokksins, að flokkurinn skildi þessa breytingartillögu ekki og hvort Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki reiðubúinn að taka undir hana með okkur framsóknarmönnum.