141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:28]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég velti fyrir mér í framhaldi af ræðu hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur er að fá kannski nánari útskýringar á sýn hennar á fjölmiðlamarkaðinn almennt. Þegar ég hef verið að hlusta á ræður þingmanna Sjálfstæðisflokksins um þetta frumvarp hefur komið fram mjög mikil gagnrýni á að hér sé verið að auka fjárframlagið til Ríkisútvarpsins og þar með sé verið að skaða að einhverju leyti stöðu annarra fjölmiðla. Ég hef saknað þess að fá ekki nánari útfærslu frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um sýn þeirra á það hvernig megi bæta stöðu annarra fjölmiðla.

Hér hefur verið rætt um þá hugmynd að gera það með því að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði. Það væru þá einkareknu fjölmiðlarnir sem hefðu fyrst og fremst aðgang að auglýsingatekjum. En í tilmælum frá Evrópuþinginu og raunar Evrópuráðinu sjálfu hafa menn hvatt til þess að líta svo á að það hljóti að vera markmið stjórnvalda hverju sinni að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlun, fjölbreytnina sjálfa, að hún skipti máli. Þar er átt við mismunandi menningarlegar áherslur og upplýsingar sem komast til almennings í viðkomandi löndum. Hvernig er hægt að tryggja það ef við mundum reyna að draga úr hlutverki RÚV á fjölmiðlamarkaði? Nýlega birtist til dæmis grein sem ég tek mjög alvarlega frá blaðamanni þar sem hann benti á að einn eigandi eins af stærstu fjölmiðlafyrirtækjum landsins sem er einkarekið virðist vera að skipta sér beint af ritstjórn þess fjölmiðils. (Forseti hringir.) Eru þetta starfshættir sem hv. þingmaður telur (Forseti hringir.) að geti tryggt þá fjölbreytni sem er verið að kalla eftir á fjölmiðlamarkaði?