141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[21:01]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er aldrei að vita hvað gerist við næstu kosningar.

Ég þakka kærlega fyrir svarið. Ég er að mörgu leyti sammála því sem hv. þingmaður er að tala um hér, að mjög miklar breytingar hafi þegar orðið og eru fram undan hvað varðar framboð á efni hjá fjölmiðlum.

Það sem ég hef miklar áhyggjur af snýr einmitt að fréttastöðvunum og hlutverki fjölmiðla eða því sem fjölmiðlar eru að gera. Menn hafa skilgreint grunnhlutverk fjölmiðla á þann veg að það sé að láta borgurunum í té upplýsingar og vandaða greiningu á samfélaginu, að veita stjórnvöldum og öðrum aðhald og síðan að vera vettvangur fyrir fjölþætta þjóðfélagsumræðu.

Ég tel til dæmis hvað varðar RÚV að það sinni hlutverki sínu þegar allir í öllum stjórnmálaflokkum kvarta undan því. Ég hef fyrst og fremst verulegar áhyggjur þegar einhver stjórnmálaflokkur er farinn að vera sáttur við viðkomandi fjölmiðil vegna þess að þá tel ég að hann sinni ekki því hlutverki að veita aðhald. Þegar ég hugsa til reynslu Bandaríkjamanna af þessu fyrirkomulagi hjá þeim, kannski byggi ég svolítið mikið á því hvað mig sjálfa varðar, þá hlusta ég yfirleitt á NPR, National Public Radio í Bandaríkjunum. Þeir keyra sig fyrst og fremst á styrkjum, ekki auglýsingum, og ná því út af stærð markaðarins. En við erum með svo lítinn markað. Kannski þurfum við að beita öðrum úrræðum en þeir geta gert því að þegar horft er á miðil eins og Fox News er það verulegt áhyggjuefni að hægt sé að keyra svo öflugan fjölmiðil með þvílíkt einhliða fréttaumfjöllun. (Forseti hringir.) Það er að mínu mati engan veginn hægt að bera saman þá umfjöllun sem er hjá RÚV við þvílíkan fjölmiðil.

(Forseti (RR): Forseti biður þingmenn afsökunar, en klukkan í borðinu er augljóslega biluð. Hún kemst kannski í lag fljótlega.)