141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[21:26]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson er hér að tala um hvort þetta fyrirkomulag geti tryggt það að RÚV geti sinnt því hlutverki að vera fjölmiðill í almannaþágu, tryggt það að við séum öll jafnóánægð, við sem störfum til dæmis í stjórnmálum. Ég skal alveg viðurkenna að þegar ég les í gegnum frumvarpið um hlutverk og skyldur fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu sé ég ekki að það verði auðvelt, hvort sem RÚV fær 4 milljarða eða meira, að sinna þessu. Við setjum standardinn mjög hátt, að kynna margbreytileika mannlífs, lífsviðhorfa og lífsskilyrða í landinu, miðla upplýsingum og veita landsmönnum innsýn í alþjóðamál mismunandi menningarheima og ólík sjónarmið og veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringarþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar. Þetta er stórt verkefni sem við erum að fela fjölmiðlum. Þeir hafa að mörgu leyti staðið sig mjög vel þrátt fyrir allt of mikil pólitísk afskipt oft og tíðum. Ég held að við verðum að halda þeirri umræðu áfram og leggja áherslu á að þeir veiti okkur aðhald og tala um þá sem fjórða valdið. Þeir sem starfa í þessum geira verða áfram að hafa kjark og þor til þess að koma fram eins og Magnús Halldórsson gerði nýlega, (Forseti hringir.) hvort sem þeir starfa hjá RÚV eða öðrum fjölmiðlum, vegna þess að hlutverk þeirra skiptir svo miklu (Forseti hringir.) máli fyrir samfélag okkar.