141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

502. mál
[21:58]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara svo allur vafi sé tekinn af því þá er ég stuðningsmaður þessa máls og ég sagði það í ræðu minni að ég teldi að þetta væri af hinu góða. Ég var bara að benda á að þetta eitt og sér dugar ekki. Við þurfum áfram að hafa þennan sveigjanleika. Það er mikill misskilningur hjá hv. þingmanni ef hann telur að ég hafi verið að hnýta í Alcoa með ummælum mínum. Ég var miklu frekar að gagnrýna stjórnvöld sem á sínum tíma neituðu að undirrita viljayfirlýsingu við það fyrirtæki sem síðan hætti mjög fljótlega við þessi áform. Ég tel að það hafi verið slys.

Ég er algjörlega sammála hv. þm. Birni Val Gíslasyni, virðulegi forseti, að það er sjálfsagt að reyna að leita fjölbreyttra fjárfestinga í íslensku atvinnulífi. Við eigum að reyna að auka fjölbreytnina eftir því sem best gerist. Það eru svo sem ákveðin teikn á lofti um það. Það má segja að með uppbyggingu kísilmálmverksmiðju, þeirrar fyrstu sinnar tegundar sem núna verður byggð fyrir norðan, er verið að feta ákveðna braut í þá átt. Ég er bara að benda á að það er stóriðja. Þessi ríkisstjórn hefur í sjálfu sér ekkert lagt á borðið af nýfjárfestingarverkefnum annað en stóriðju. Af hverju er það? Hvernig getum við leitað leiða til að auka fjölbreytnina?

Ég held að ef við horfum á uppbyggingu í íslensku atvinnulífi sé auðvitað stóra myndin sú að nýsköpun og uppbygging í öðrum atvinnugreinum tengist mjög mikið grunnatvinnugreinum okkar í gegnum tíðina, sjávarútvegi og stóriðju. Það eru og verða áfram okkar tækifæri til að efla nýsköpun og fjölbreyttari framleiðslu í landinu. Við sjáum mjög víða í þeim geira (Forseti hringir.) hversu öflug fyrirtæki starfa og hafa sprottið upp (Forseti hringir.) einmitt í þjónustu við þær atvinnugreinar.