141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

502. mál
[22:00]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni, það þarf að vera sveigjanleiki í samningum af þessu tagi enda hefur það verið um langa hríð, þ.e. það hafa verið gerðir fjölmargir samningar í fortíðinni við hin ýmsu fyrirtæki um ólíkustu verkefni hér á landi. Sumir hafa ekki verið neitt sérstaklega góðir, en hvað um það, reynt hefur verið að leita leiða til að laða hingað að fyrirtæki með einum eða öðrum hætti. Þannig að fjöldi slíkra samninga liggur fyrir og einn af þeim erum við með í umfjöllun í þingnefnd og þinginu þessa dagana eins og fram hefur komið.

Það var sjálfstæð ákvörðun á sínum tíma eins og fram kom hjá forstjóra Alcoa á Ísland fyrir þingnefnd að hætta við fyrirhuguð áform um byggingu álvers á Bakka við Húsavík. Það var gert vegna þess að ekki var til næg orka að mati forstjórans til að knýja álverið og fyrirtækið var langt í frá að ná orkusamningum við Landsvirkjun um þá orku sem þó var þar til sem hefði hvergi dugað fyrirtækinu. Stjórnvöld höfðu þar enga aðkomu, ekki nokkra. Það hefur engin uppbygging orðið á því svæði í áratugi, ekki nokkur. Það verkefni sem við erum með núna í höndunum í þinginu er það fyrsta sem er komið á alvöruskrið og komið á þann stað að taka ákvörðun um. Ég veit að hv. þm. Jón Gunnarsson mun leggja okkur lið við það eins og fleiri góð mál.

Það hafa verið sett ívilnanalög varðandi nýsköpunarfyrirtæki, sprotafyrirtæki, í tengslum við markaðs- og þróunarstarf þeirra þannig að það er frádráttarbært frá skatti og ýmsar ívilnanir veittar. Þeim lögum var fagnað sérstaklega. Ég las fyrir nokkrum dögum upp ályktun frá Samtökum sprotafyrirtækja um gagnsemi þeirra laga. Það hefur verið gert ýmislegt sem ég hef ekki tíma til að nefna hér varðandi þann geira og það þarf að huga að honum enn frekar. Ég vek hins vegar athygli á því að þetta var mjög umdeilt í fjárlagaumræðunni (Forseti hringir.) í haust, framkvæmdir og fjárfestingar í nýsköpun á Íslandi. Það var ekki nema meiri hluti þingsins, stjórnarflokkarnir, sem samþykkti þann hluta (Forseti hringir.) fjárlaganna.