141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

sveitarstjórnarlög.

449. mál
[22:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni brýninguna og tek hana algjörlega til mín. Ég er sammála þingmanninum um að verði slíkar heimildir veittar þurfi að meta í hvert skipti hvers eðlis kosningin er eða um hvað hún snýst. Ég get að því leyti til verið sammála þingmanninum að þegar verið væri að greiða atkvæði um áfengisútsölur væri kannski ekki eðlilegt að yngstu íbúarnir tækju þátt. Á sama hátt gæti verið ástæða til að þeir tækju þátt þegar verið væri að greiða atkvæði til að mynda um félagsmiðstöðvar eða uppbyggingu í ungmennastarfi eða eitthvað þess háttar.

Ég er fyrir mitt leyti alveg tilbúinn til að skoða það. Varðandi íbúa af erlendu bergi brotna er það mitt mat að þar sé í rauninni um að ræða stærri og mikilvægari mannréttindavinkill, þ.e. að íbúar sem jafnvel eiga lögheimili í sveitarfélögum í nokkur ár og greiða skatta og skyldur til þeirra hafa ekki atkvæðisrétt. Mitt mat er að ef við veljum að stíga slík skref í áföngum kæmi það fyrr.