141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Pétur Georg Markan (Sf):

Frú forseti. Þetta er víst jómfrúrræða mín í þinginu. Ég vona að hv. þingmenn taki mér vel, taki að minnsta kosti ekki illa á mér.

Mitt mál varðar samgöngur, samgöngumál í Norðvesturkjördæmi þar sem ég hef þann heiður að fá að dvelja um stund. Ég hef reynt á eigin skinni að bæði um Súðavíkurhlíð og Kirkjubólshlíð eru vegir sem eru einfaldlega ekki boðlegir í dag. Þar er mikil hætta af snjóflóðum yfir vetrartímann og þar sem þetta er aðalsamgönguæð Vestfirðinga til og frá þurfum við að gera eitthvað í málinu.

Þegar ég var að lesa mér til rakst ég á þingsályktunartillögu sem er samin af öllum þingmönnum Norðvesturkjördæmis. 1. flutningsmaður er hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sem er líka fyrrverandi skólameistarinn minn, gaman að segja frá því, og þar koma fram hugmyndir um aðgerðir til að bregðast nákvæmlega við þessu. Raunveruleikinn er sá að íbúar Súðavíkurhrepps þurfa að nota þessa vegi. Skólarúta fer til dæmis á milli tvisvar í viku hálfan veturinn og bílar keyra allt of oft fram á flóð. Það er stórhættulegt og í raun og veru tímasprengja. Ég held að samfélag eins og Súðavík (Forseti hringir.) sé búið að ganga í gegnum of mikið til að þurfa að lenda í meiri hremmingum.

Ég beini fyrirspurn (Forseti hringir.) til hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur um hvar málið sé statt í þinginu, hvort það séu einhverjar líkur á að það verði tekið upp fyrir þinglok (Forseti hringir.) og ef ekki, hvernig hún sjái fyrir sér framhaldið.