141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Á flokksþingi framsóknarmanna sem fram fór helgina 8.–9. febrúar var samþykkt eftirfarandi:

„Framsóknarflokkurinn vill að stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán verði leiðrétt.“

Nú vil ég spyrja hv. þm. Eygló Harðardóttur, þingmann Framsóknarflokksins:

1. Vill hún banna verðtryggingu alfarið? Í framhaldi af því, kannast hún við kenningar um að stéttir með lágar tekjur geti ekki keypt og eignast eigið húsnæði án þess að dreifa byrðinni á alla starfsævina með til dæmis verðtryggðu láni?

2. Mundi hv. þingmaður ráðleggja fólki að taka eingöngu óverðtryggð lán hjá bönkunum eins og bjóðast í dag með 7,5% nafnvöxtum sem gætu hækkað?

3. Getur hv. þingmaður sagt okkur hvað það þýðir að leiðrétta stökkbreytt lán? Verðtryggð lán heimilanna hafa hækkað um 40% frá því fyrir hrun. Það er talið að 1.000 milljarðar hafi hækkað um 400 milljarða. Vill hv. þingmaður lækka þessi lán um 400 milljarða? Gerir hún sér grein fyrir því að helmingur heimila, um það bil 65 þús. heimili, fengi þá lækkun sem er að meðaltali um 6 millj. kr. lækkun skulda hjá hverju heimili, en öll heimili þyrftu að borga 3 milljarða í aukna skatta? Þessi lán lenda aðallega á Íbúðalánasjóði sem er með ríkisábyrgð og þannig þyrftu heimilin að borga 3 millj. kr. í skatta, þar á meðal 25% heimila sem eru á leigumarkaði. Er það það sem Framsóknarflokkurinn vill, skattleggja leigjendur til að þeir sem eiga og skulda vegna húsnæðis fái lækkun?

Telur hv. þingmaður að verðbætur séu raunveruleg aukning á skuld og þá líka á eign þeirra sem eiga kröfuna? Ef bensínið í tanknum mínum hækkar yfir nótt, er ég þá ríkari? Það er spurning mín.

Sumir hv. þingmenn Framsóknar vilja setja þetta í nefnd. (Forseti hringir.) Var ekki hv. þingmaður formaður nefndar um þetta mál?