141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir þessar spurningar. Hv. þingmaður sat í verðtryggingarnefndinni sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins ásamt mér og gat þar ekki tekið undir að við ættum að afnema verðtrygginguna. Samfylkingin stóð líka gegn því, þessir tveir flokkar talsmanna fjármagnsins stóðu gegn því að innan nefndarinnar næðist samstaða um aðgerðir til að draga varanlega úr og afnema verðtryggingu fyrir neytendur. Hins vegar komst meiri hluti nefndarmanna að sameiginlegri niðurstöðu og ég vona að hv. þingmaður hafi kynnt sér hana þó að það sé greinilegt að formaður hans hefur ekki gert það.

Í framhaldi af vinnu nefndarinnar samþykkti Alþingi að heimila Íbúðalánasjóði að heimila óverðtryggð lán og breytilega vexti. Sjóðurinn hefur unnið að því að bjóða þess háttar lán síðan þá. Meiri hluti nefndarinnar lagði til afnám verðtryggingar með nokkrum aðgerðum. Vegna núverandi lána yrði sett þak á hækkun verðtryggingar á ársgrundvelli, að hámarki 4%, og unnið að lækkun raunvaxta. Hv. þingmaður hefur sjálfur sagt að vextir á verðtryggðum lánum séu of háir á Íslandi.

Síðan var unnið að því að innleiða óverðtryggt húsnæðislánakerfi og fjölga búsetuformum og er það í samræmi við þær tillögur sem ASÍ hefur kynnt undanfarið. Hins vegar taldi fulltrúi Samfylkingarinnar að eina leiðin til að gera eitthvað væri að ganga í Evrópusambandið, svo sem vænta mátti þaðan, en hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði að það væri ekki hægt að styðja afnám verðtryggingar á þessari stundu þó að hann væri eitthvað ósáttur við fyrirkomulagið í sjálfu sér.

Varðandi síðan — (Forseti hringir.) þetta eru stórar spurningar sem hv. þingmaður bar upp.

(Forseti (ÞBack): Tvær mínútur eru liðnar, hv. þingmaður.)

Ég verð þá bara að nota tækifærið til að svara fyrir leiðréttingu lána. Ég hvet þingmanninn, og kannski þingmenn Sjálfstæðisflokksins, til að lesa þær tillögur sem ég hef lagt fram bæði um (Forseti hringir.) leiðréttingu lána og hvernig við afnemum verðtrygginguna.