141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau orð sem komu fram í máli hv. þm. Björns Vals Gíslasonar þar sem hann fjallaði um ummæli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar undir liðnum um störf þingsins í gær. Þar talaði þingmaðurinn um fund í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem fjallað var um skattamál og sérstaklega skattundanskot og lét þau orð falla að það hefði komið fram í máli gesta á fundi nefndarinnar að skattar á Íslandi væru orðnir svo háir að það væri orðið réttlætanlegt að borga þá ekki.

Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Björns Vals Gíslasonar. Ég sat þennan fund og hér er farið með staðlausa stafi. Enginn af þeim gestum sem komu fyrir nefndina hélt þessu fram. Það er í sjálfu sér grafalvarlegur hlutur að gestum á nefndafundum séu lögð orð í munn sem engir þeirra sagði, ég tala nú ekki um með þeim skilaboðum að það sé með einhverjum hætti réttlætanlegt í þessu landi að svíkja undan skatti. Það eru svakaleg skilaboð sem koma frá Alþingi Íslendinga þegar slíku er haldið fram.

Skattsvik eru lögbrot sem grafa undan heiðarlegum atvinnurekstri í landinu, skekkja samkeppni og velta óþarflega miklum byrðum yfir á herðar heiðarlegs fólks sem er að reyna að reka heimili og fyrirtæki í landinu. Ég hef sjálfur lagt fram þingsályktunartillögu um bætt skattskil þar sem kveðið er á um heildstæðar aðgerðir til að vinna gegn þessum vágesti. Það er rétt að hafa í huga að skatteftirlitið hefur á undanförnum tveimur árum skilað 13,4 milljörðum kr. í ríkissjóð. Ég hvet okkur hér í þinginu til að standa saman um að koma í kring kröftugum úrræðum til að berjast gegn skattsvikum en ekki leggja gestum á nefndafundum orð í munn sem þeir hafa aldrei sagt. (Gripið fram í.)