141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur orðið um yfirlýsingar sem gefnar voru í kjölfar fundar í viðskipta- og efnahagsnefnd varðandi skattamál vil ég benda á að í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar kom fram að á þeim fundi sem vísað er til hafi margir af helstu skattasérfræðingum þjóðarinnar komið og upplýst um að skattsvik og skattundanskot hefðu stóraukist og að skattkerfið væri orðið svo flókið að það væri orðið sérstakt vandamál í sjálfu sér. Ég tel að þetta sé óumdeilt og þetta er staðan.

Þetta er líka partur af því vandamáli sem við horfum á núna að hagvöxturinn sem við héldum að yrði 3,1% á næsta ári reyndist einungis vera 1,6% á árinu 2012 og verður jafnvel minni. Ein ástæðan er einmitt sú að við höfum flækt skattkerfið, við höfum gert erfiðara fyrir fyrirtækin að fjárfesta og við erum núna að lenda í erfiðri stöðu í efnahagsmálum þjóðarinnar, því miður, mun erfiðari en við hefðum þurft að lenda í.

Í ágætri ræðu hér áðan sagði hv. þm. Pétur Markan að það væru veruleg vandamál m.a. á veginum um Súðavíkurhlíð vegna snjóflóðahættu og það þyrfti aðgerðir. Það dregur auðvitað hugann að því að mjög víða um land hefur ekki verið sinnt viðhaldi á vegakerfi þjóðarinnar vegna þess að skort hefur til þess fjármagn. Ef hagvöxturinn heldur áfram að vera svona lítill, ef verðbólgan heldur áfram að ýtast upp mun vandi okkar mjög aukast í þessum málum, vandi ríkissjóðs mun aukast og geta okkar til að sinna lágmarksviðhaldi mun minnka. Það er einmitt þessi þáttur málsins, efnahagsstefnan, skattkerfið, umhverfi fyrirtækjanna til fjárfestinga sem skiptir öllu máli og þar hefur ríkisstjórnin gersamlega brugðist. Við sjáum nú afleiðingar þessa hvert sem litið er. Vaxandi verðbólga og þar með rýrnandi kaupmáttur, hækkandi lán (Forseti hringir.) heimilanna og erfiðari staða ríkissjóðs og minni geta til að sinna m.a. lágmarksviðhaldi á vegakerfi landsins.