141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Framsóknarmenn hafa lagt fram á þessu þingi nokkur mál sem varða heimilin í landinu og atvinnulífið og uppbyggingu þess. Þar á meðal höfum við lagt fram frumvarp til laga um þak á hækkun verðtryggingar og lækkun vaxta. Við höfum lagt fram þingsályktunartillögu um frádrátt frá tekjuskatti vegna afborgunar af fasteignalánum heimilanna. Við höfum talað fyrir og komið með hugmyndir um hvernig leiðrétta megi lán heimilanna og við höfum núna lagt til á flokksþingi okkar að verðtrygging á nýjum neytendalánum skuli afnumin.

Það er alveg furðulegt að horfa á það hvernig fjölmiðlar bregðast við, fjölmiðill líkt og Fréttablaðið sem hefur verið málsvari og talsmaður Samfylkingar og útrásarinnar í gegnum árin, sem varði hér fjármagnseigendur með kjafti og klóm, ræðst nú á Framsóknarflokkinn og titlar hann óvin nr. eitt fyrir að vilja laga stöðu heimilanna. Ef það er niðurstaða þessa fjölmiðils — ég ætla ekki að segja ágæta fjölmiðils því mér finnst ekkert ágætt við hann — að við séum óvinir nr. eitt vegna þess að við viljum aðstoða heimilin þá er ég mjög stoltur af þeim titli. Eg skal svo sannarlega horfast í augu við Fréttablaðið og berjast við Fréttablaðið þegar það ræðst á þá sem eru að laga stöðu heimilanna. Og gleymið því ekki að á þeim bænum töldu menn að Íslendingar ættu að axla ábyrgðina á Icesave. Við ættum að borga skuldirnar af Icesave. Þar stillti Fréttablaðið sér enn og aftur upp (Gripið fram í.) með ríkisstjórnarflokkunum. Það er með ólíkindum að miðill sem telur sig vera og gefur sig út fyrir að vera frjáls og óháður skuli koma fram með svona grímulausum hætti. Talsmaður ríkisstjórnarflokkanna og talsmaður fjármagnsins, talsmaður útrásarinnar, þetta er alveg einstakt. En við munum áfram, þrátt fyrir þessar árásir, halda áfram að vera óvinur nr. eitt að mati Fréttablaðsins, berjast fyrir heimilin, leggja fram tillögur og leggja fram lausnir. Verði þeim bara að góðu.