141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns segja þetta: Hér fyrir þinginu liggja fyrir margar tillögur frá stjórnarandstöðunni, hvort heldur sem er frá hv. þingmönnum Hreyfingarinnar, Sjálfstæðisflokksins eða Framsóknarflokksins sem ekki hafa verið teknar til umræðu. Við sjáum auðvitað metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar í því að fella þurfti niður fjárheimild upp á 13,5 millj. kr. sem átti að fara í að greina skuldavanda heimilanna.

En ég vil líka árétta við hv. þingmenn hversu mikilvægt það er að koma heimilum landsins í skjól. Ef þau hættumerki sem greinast núna í hagkerfinu og í hagstjórninni ganga eftir er aldrei mikilvægara en nú að koma heimilunum í skjól, aldrei mikilvægara því að það er vítahringur fram undan sem menn eru mjög hræddir við. Hvað sem við kjöftum hér hver upp í annan í þessum þingsal blasa staðreyndirnar við. Hagvöxturinn á síðasta ári verður um það bil 1,6% en í forsendum fjárlaga var gert ráð fyrir um helmingi meiri hagvexti. Það er meira að segja þannig að einn ákveðinn sérfræðingur hefur áhyggjur af því að hagvöxturinn hafi jafnvel orðið neikvæður. Setjum þetta í ákveðið samhengi, hv. þingmenn.

Það sem mun gerast hjá heimilunum í landinu ef það gengur eftir sem menn eru að vara við, ef hagvöxturinn fer ekki af stað, mun skuldastaða heimilanna versna enn þá meira og aðstaða fólksins í landinu. Það er mikilvægt að við komumst upp úr dægurþrasinu í stjórnmálunum og horfum á þessa alvarlegu stöðu. Það kemur líka fram í þessari greiningu hjá einum sérfræðingnum að hluti af vandanum er skuldastaða ríkissjóðs. Förum nú að taka mál á dagskrá sem skipta máli og hættum að tuða og þusa um einhver mál sem skipta akkúrat engu.