141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Markan fyrir fyrirspurn hans og orð hans hér í upphafi. Ég býð hann hjartanlega velkominn til þings og það gleður mig sérstaklega að hafa hér fyrrverandi nemanda minn sem samþingmann á þessum síðustu dögum kjörtímabilsins.

Þingmaðurinn vakti athygli á þingsályktunartillögu sem ég er 1. flutningsmaður að og við erum samflutningsmenn að flestir þingmenn Norðvesturkjördæmis. Hún varðar samgöngubætur og bráðnauðsynlegar snjóflóðavarnir á Súðavíkur- og Kirkjubólshlíð þar sem féllu hvorki meira né minna en 22 snjóflóð á fáeinum dögum í illviðri sem gekk yfir Vestfirði um síðustu áramót. Þarna falla að vetrinum snjóflóð í hverri einustu viku og eins og þingmaðurinn benti á ekur skólabíll þarna, þetta er meginsamgönguæðin milli Ísafjarðar og þjóðvegakerfisins sem er fær yfir veturinn. Þarna er því uppi mjög bráður vandi.

Þess vegna flytjum við nokkrir þingmenn þingsályktunartillögu sem við fáum vonandi að mæla fyrir áður en þingi lýkur og helst að fá afgreidda úr umhverfis- og samgöngunefnd. Hún gengur út á að flýta þessum snjóflóðavörnum og sjá til þess að áætlanir um Súðavíkurgöng komist inn á samgönguáætlun þannig að þau göng geti orðið næsta jarðgangaframkvæmd á Vestfjörðum þegar Dýrafjarðargöngum lýkur, en samkvæmt núgildandi samgönguáætlun á þeim að ljúka 2018. Þetta er mjög mikilvægt og brýnt mál og ég þakka þingmanninum fyrir að vekja athygli á því.

Fari svo að okkur takist ekki að ljúka málinu á þessum dögum vænti ég þess, í ljósi þeirrar þverpólitísku samstöðu sem hefur náðst með þingmönnum kjördæmisins, að málið verði flutt á næsta þingi og afgreitt þar, en auðvitað væri (Forseti hringir.) æskilegast ef við gætum lokið því núna á þeim dögum sem eftir eru því að hér er (Forseti hringir.) ekki spurt um háar fjárhæðir heldur fyrst og fremst vilja og áætlanir.