141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

boðuð gjaldskrárhækkun Íslandspósts.

612. mál
[11:10]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að taka þetta mál upp. Það hafa aðrir þingmenn einnig gert, ég nefni þar hv. þm. Ásmund Einar Daðason.

Hv. þingmaður beinir tveimur spurningum til mín. Í fyrsta lagi: Hvaða afleiðingar telur ráðherra að boðuð gjaldskrárhækkun Íslandspósts frá og með 1. apríl næstkomandi, sem bitnar einkum á útgáfu og dreifingu héraðsfréttablaða og tímarita í áskrift, kunni að hafa á prentfrelsi og almennan fréttaflutning á landsbyggðinni?

Í öðru lagi: Kemur til greina af hálfu ráðherra að grípa inn í atburðarásina svo gjaldskrárbreytingin nái ekki fram að ganga?

Hvað fyrsta atriðið varðar ítreka ég að ég tel mjög gott að taka upp þetta umræðuefni hér á vettvangi löggjafans og fjárveitingavaldsins og ég legg áherslu á það.

Umræðan hefur verið talsvert fyrirferðarmikil í fjölmiðlum að undanförnu, ekki síst í fjölmiðlum á landsbyggðinni. Ég hygg að flestir séu sammála um hvert mikilvægi héraðsfréttablaða er við að miðla fréttum og frásögnum af landsbyggðinni og á landsbyggðinni. Það er erfitt að meta hvort fyrirhuguð hækkun hafi bein áhrif á prentfrelsi og almennan fréttaflutning, eins og spurt er um.

Málið er ekki nýtt af nálinni. Rétt upp úr aldamótum, árið 2002, var gerð skýrsla um hvernig mætti bregðast við. Þar voru ýmsir valkostir reifaðir, m.a. þeir að greiða beint til Íslandspósts, en sú leið hefur verið farin í Danmörku. Kostirnir við það eru þeir að það er einfalt í framkvæmd. Greiða þyrfti til eins aðila og umsýsla og stjórnsýslukostnaður væri í lágmarki. Gallarnir eru hins vegar þeir að það gæti skapað veruleg höft á samkeppnismarkaði og gæfi Íslandspósti einokunarstöðu á dreifingu blaða og tímarita, nokkuð sem ég harmaði í sjálfu sér ekki en ýmsir á samkeppnismarkaði mundu eflaust horfa til.

Annar kostur er að gefa öðrum dreifingaraðilum kost á niðurgreiðslum. Það mundi örva þá og starfsemi þeirra. Þriðji kosturinn er sá að greiða beint til þeirra héraðsfréttablaða sem gætu átt rétt á niðurgreiddum burðargjöldum. Það er einfalt í framkvæmd. Dagblöðin og tímaritin mundu ráða því sjálf hvernig þau höguðu dreifingunni. Niðurgreiðslan væri ákveðin á fjárlögum og reglur settar um þau skilyrði sem uppfylla þyrfti til að eiga rétt á greiðslum.

Hér er þó vert að benda á að stjórnvöld væru með þessu hugsanlega komin í þá aðstöðu að meta efni blaða og tímarita út frá efnisinnihaldi varðandi réttinn á niðurgreiðslu. Það geta hins vegar verið menningarlegar og svæðisbundnar ástæður fyrir því að styrkja héraðsfréttablöð með beinum hætti, en það verður alltaf sérstök sjálfstæð ákvörðun stjórnvalda.

Það eru þeir kostir sem reifaðir hafa verið og er að finna m.a. í skýrslu sem var gefin út árið 2002.

Þá er hin stóra spurningin, sem er síðari spurning hv. þingmanns: Kemur til greina af hálfu ráðherra að grípa inn í atburðarásina svo gjaldskrárbreytingin nái ekki fram að ganga? Hér vísa ég í lög, en samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 19/2002, um póstþjónustu, skulu gjaldskrár fyrir alþjónustu, þar með talið póstþjónusta vegna bréfa, dagblaða, vikublaða og tímarita og fleira, taka mikið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. Það felur í sér að Íslandspósti er skylt að tryggja að verðskrá endurspegli raunkostnað við þjónustuna. Aukinheldur ber að líta til þess að Íslandspósti er óheimilt að nota aðra starfsemi sína til að niðurgreiða ákveðna þjónustu. Samkvæmt því er fyrirtækinu ekki heimilt að lækka dreifingargjöld á blöð og tímarit sem lúta samkeppnisreglum á póstdreifingu á markaði.

Á það skal einnig bent að afkoma Íslandspósts hefur farið versnandi á undanförnum missirum, en hingað til hefur einkaréttur fyrirtækisins á bréfum undir 50 gr staðið undir þeim kostnaði sem Íslandspóstur ber vegna alþjónustu á sviði póstþjónustu. Vegna minnkandi póstmagns getur það þó breyst og lítur út fyrir að Íslandspóstur muni skila tapi á árinu vegna alþjónustunnar.

Þar vísa ég í lög sem Alþingi hefur sett. Við getum haft okkar skoðanir á þeim lögum en þannig eru þau. (Forseti hringir.)

Ég hygg að ef við ætlum að grípa inn í atburðarásina þurfi það að gerast (Forseti hringir.) eftir einhverjum þeim ferlum sem ég reifaði í upphafi máls míns sem svar við fyrri spurningunni.