141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

boðuð gjaldskrárhækkun Íslandspósts.

612. mál
[11:15]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að taka þetta mál upp. Það er gríðarlega mikilvægt. Strax þegar fregnir bárust af málinu bað ég um fund í umhverfis- og samgöngunefnd um það þar sem m.a. fulltrúi innanríkisráðuneytisins, fulltrúi Íslandspósts og fulltrúi héraðsfréttablaða mættu. Það er hárrétt að dreifikostnaðurinn hefur hækkað um 230% á 10 árum.

Á fundinum var m.a. rætt um starfsemi Íslandspósts og fór fulltrúi Íslandspósts yfir reiknilíkön hvað varðar þann raunkostnað sem hæstv. ráðherra bendir á hér. Það hlýtur að vera full ástæða til þess að fara ofan í starfsemi Íslandspósts, hvað er að gerast þar, þegar forsvarsmenn einstakra héraðsfréttamiðla eru farnir að velta því fyrir sér að gera út sérstakan bíl sem keyrir á eftir póstbílnum um sveitir landsins eingöngu til þess að dreifa héraðsmiðlunum með engan annan póst. Þeir telja að það sé hagkvæmara en að dreifa þeim með Íslandspósti. Ráðherra á auðvitað að setja gjaldskrárhækkunina í bið og kafa ofan í (Forseti hringir.) starfsemi Íslandspósts og raunverðið. Ef það (Forseti hringir.) reynist svo ekki vera niðurstaðan að það sé hagkvæmara þá eigum við að spá í niðurgreiðslur til héraðsfréttamiðla, ekki fyrr. Ég hvet (Forseti hringir.) ráðherrann til þess að beita sér í þá veru.

(Forseti (ÞBack): Stutt athugasemd er ein mínúta.)