141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

boðuð gjaldskrárhækkun Íslandspósts.

612. mál
[11:18]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Það er mjög mikið áhyggjuefni sem hér er um að ræða. Boðuð gjaldskrárhækkun Íslandspósts sem mun sérstaklega bitna á héraðsfréttablöðunum er mjög alvarlegt mál. Við vitum að héraðsfréttablöðin gegna mjög mikilvægu hlutverki og hækkun á þessum kostnaðarlið getur þess vegna haft mikil áhrif á rekstrarmöguleika þeirra. Það er hins vegar ljóst mál að á síðustu árum hefur dregið mjög mikið úr magni pósts hjá Íslandspósti. Samdrátturinn nemur á fáeinum árum tugum prósenta. Á sama tíma og tekjur fyrirtækisins dragast saman heldur ríkisstjórnin áfram þeirri stefnu sinni að innheimta arð alveg fram undir það síðasta, að minnsta kosti af þessu fyrirtæki, sem gerir því nánast útilokað að bregðast við með séraðgerðum til að mynda gagnvart héraðsfréttablöðunum. Þess vegna verðum við í fyrsta lagi að gera þá kröfu til hæstv. ríkisstjórnar að hún láti af þessu athæfi sínu og í öðru lagi verður ríkisstjórnin með einhverjum hætti að bregðast við. (Forseti hringir.) Hér er um að ræða sértækt vandamál sem við verðum að taka á, því að eins og sakir standa (Forseti hringir.) skipta héraðsfréttablöðin mjög miklu máli til að miðla upplýsingum frá landsbyggðinni (Forseti hringir.) og til landsbyggðarinnar.