141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

boðuð gjaldskrárhækkun Íslandspósts.

612. mál
[11:20]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa þörfu umræðu sem ég held að skipti mjög miklu máli. Við þurfum að láta þær raddir heyrast sem minna á minnkaða þjónustu Íslandspósts: Pósthúsum hefur verið lokað. Þá hefur starfsemi svæðisútvarpsstöðva verið minnkuð og nú er ákveðin hætta á því að héraðsfréttablöðin verði það dýr að útgáfa þeirra sé í hættu. Það skiptir mjög miklu máli að bregðast við því.

Mig langar til þess að koma með nýjan vinkil inn í umræðuna. Víða í hinum dreifðu byggjum þar sem þessir miðlar eru afar mikilvægir er netsamband mjög lélegt. Oft hefur verið bent á það. Nú höfum við þetta allt saman á netinu, en staðan er þannig að mjög víða þar sem þessi fréttablöð eru að netsamband er annaðhvort ekki fyrir hendi eða mjög lélegt þannig að það er ekki hægt að nota það.

Mig langar að nota tækifærið og minna á að hvergi er eins mikilvægt að hafa öflugt og gott netsamband og í (Forseti hringir.) dreifðustu byggðum landsins.