141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

framgangur þingsályktunar um bætta heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungs fólks.

602. mál
[11:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að segja frá því að við höfum náð gríðarlega miklum árangri á Íslandi hvað varðar heilbrigði og heilbrigðisþjónustu við mæður, verðandi mæður, ungabörn, nýbura og börn fram undir kynþroskaskeiðið. Við höfum náð miklum árangri, lífslíkur eru miklar og þjónusta við þennan hóp er mikil en við verðum á sama hátt að viðurkenna að þegar kemur að kynþroskaaldrinum, kannski svona 12, 13, 14 ára og upp undir og jafnvel fram yfir tvítugsaldurinn þá snýst þetta svolítið við. Þjónustan er ekki góð, hún er dreifð, þessi hópur sækir síður heilbrigðisþjónustu og hann verður eins og týndur í kerfinu. Og það sem meira er, við töpum þessum börnum bæði í vímuefnaneyslu og í slysum.

Sú sem hér stendur skipaði starfshóp á sínum tíma til þess að fjalla um heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungs fólks og koma með tillögur til úrbóta þar um. Fjöldi góðra fagmanna kom að þeirri vinnu og safnaði saman niðurstöðum rannsókna á mörgum sviðum sem snerta heilbrigði, bæði andlega og líkamlega heilsu ungs fólks og þjónustu við þennan hóp og lagði fram tillögur til úrbóta. Hv. velferðarnefnd fjallaði um niðurstöður nefndarinnar, hélt þrjá fundi með fulltrúum úr hópnum og fór vandlega yfir það sem fyrir lá því að ansi mikið var tekið fyrir. Það var almennt lífsstíll og heilbrigði ungmenna, ofþyngd og offita hjá ungu fólki, tannheilsa, geðheilbrigði, sjálfsvíg og sjálfsvígshugleiðingar, vímu-, fíkniefna- og áfengisneysla, slys og meiðsli, ofbeldi, þar á meðal kynferðislegt ofbeldi, kynheilbrigði, kynhegðun og ekki síst ungt fólk með langvinnan heilsuvanda.

Velferðarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að mjög mikilvægt væri að halda áfram með þessa vinnu og að frumkvæði nefndarinnar var samþykkt hér 15. maí 2012 þingsályktunartillaga þar sem Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp til að vinna að bættri heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungs fólks á þessum aldri, 14–23 ára, en jafnframt að undirbúa stofnun unglingamóttöku fyrir þennan aldurshóp sem eins konar tilraunaverkefni, og líta til reynslu nágrannaþjóðanna, einkum til Svíþjóðar, varðandi það. Markmiðið sem fyrr er að heilbrigðisþjónusta verði sniðin að þörfum þessa hóps í því skyni að bæta heilbrigði unga fólksins.

Frú forseti. Hér er komin á dagskrá fyrirspurn um hvað hæstv. ráðherra hefur gert til þess að framfylgja ályktun Alþingis frá 15. maí 2012.