141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

framgangur þingsályktunar um bætta heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungs fólks.

602. mál
[11:49]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur beint til mín munnlegri fyrirspurn um hver hafi verið framgangur mjög merkrar þingsályktunartillögu sem samþykkt var, um bætta heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungs fólks, tillaga sem samþykkt var í maí 2012. Því er til að svara að farið hefur fram mikil vinna í ráðuneytinu í tengslum við velferðarstefnu og heilbrigðisáætlun til ársins 2020. Þótti ljóst í þeirri vinnu að þingsályktunartillagan félli vel að þeirri velferðarstefnu sem fyrirhugað er að setja þar til næstu ára og mörg af þeim ákvæðum sem fram komu í vinnu þess starfshóps sem hv. þingmaður og fyrrverandi ráðherra gerði grein fyrir hafa verið tekin upp í þeirri þingsályktun.

Ályktuninni er að því leyti fylgt eftir, það á sem sagt að setja hana inn í velferðarstefnuna og heilbrigðisáætlunina til 2020, en sú áætlun er, eins og vitað er, til afgreiðslu á Alþingi og í umræðu hjá hv. velferðarnefnd.

Í kafla C2 í aðgerð 7 í heilbrigðisáætlun þessari kemur meðal annars fram að setja eigi á fót unglingamóttöku fyrir fólk á aldrinum 14–23 ára þar sem heilbrigðisþjónusta verði sniðin að þörfum þess og með áherslu á ráðgjöf á geðheilbrigði, kynlíf og kynheilbrigði. Þegar niðurstaða Alþingis um velferðarstefnuna liggur fyrir er ætlunin að stofna svo starfshóp til að vinna að framgangi þeirra tillagna og aðgerða sem þar koma fram og fellur því vinna væntanlegs starfshóps, sem hér er meðal annars spurt um, inn í þá vinnu. Það má kannski gagnrýna að menn hafi ekki vandað sig nógu vel við að tryggja samfelluna sem fram kemur í þingsályktunartillögunni því að þarna var mjög merkur og góður starfshópur sem vann gott verk og skilaði mikilli vinnu. Þegar ég les tillöguna aftur kemur þar skýrt fram að óskað er eftir því að sá hópur eða þá nýr hópur á grundvelli þess fyrri vinni áfram að málinu til þess að skapa samfellu.

Það má gagnrýna að það hafi ekki verið gert, en okkur til afsökunar hefur velferðar- og heilbrigðisáætlunin tekið lengri tíma í vinnslu og hefði náttúrlega átt að vera komin til framkvæmda nú þegar ef allt hefði gengið eins og best verður á kosið. Þar var valið að hafa mjög víðtækt samráð við breiðan hóp fagfólks, fleiri hundruð manns komu að þeirri vinnu og nú er þingið með þá tillögu í meðferð þannig að vonandi kemur jákvæð og góð niðurstaða út úr þeirri vinnu. Við þurfum þá að fylgja þeirri áætlun eftir og einnig þeir sem á eftir koma.

Það eru þó nokkuð mörg atriði sem tilgreind eru í þessari þingsályktunartillögu sem hv. þingmaður nefndi. Sumt af því er búið að taka upp í annarri vinnu. Til dæmis hefur verið að störfum sérstakur starfshópur sem skoða á stöðu ungs fólks í samfélaginu, hópur sem á að gera aðgerðaáætlun í þágu ungs fólks af því að talað er um í þingsályktunartillögunni að leita samráðs við ungt fólk. Það hefur verið gert með þessum hópi sem er þverpólitískur og þverfaglegur með mjög breiða skírskotun. Vinnu hópsins er því miður ekki lokið en vonandi kemur að því fljótlega. Þar er meðal annars fjallað um stöðuna í heilbrigðiskerfinu og annað slíkt. Mikið hefur verið rætt um aðgengi að heilbrigðisþjónustu í gegnum þjónustustýringu í sérstökum starfshópum og þarf þar að gera betur.

Ég veit að hv. þingmaður ber hag skólahjúkrunar fyrir brjósti sem tengist líka þessu máli. Þar hafa verið til skoðunar hugmyndir um að taka upp skólahjúkrun á framhaldsskólastiginu því að einn mikilvægasti aðilinn til að þjónusta þann unga aldurshóp frá 14 upp í 23 ára er auðvitað skólahjúkrunin. Þar er snertingin við heilsugæsluna því að þar vinna fulltrúar hennar.

Hv. þingmaður sagði að þjónustan við barnafjölskyldur eða verðandi mæður og eins mæðraverndin og öll sú þjónusta væri í mjög góðu lagi. Hún benti þó á að það eru ákveðnir hópar í samfélaginu eins og barnafjölskyldur sem stæðu höllum fæti. Þar hefur verið unnið að því að bæta hag þeirra, bæði með því að endurbæta barnabótakerfið og með því að skila fæðingarorlofsniðurskurðinum, sem snertir auðvitað allan þann aðbúnað að börnum og ungu fólki í samfélaginu, sem við höfum rætt hér.

Hv. þingmaður nefndi tannheilsuna í inngangi sínum. Þar er líka unnið mjög skipulega að því að koma á ókeypis tannlæknisþjónustu fyrir börn, í fyrstu lotu upp að 18 ára aldri.

Ég vona að þetta hafi svarað að hluta til hver staðan er þó að hlutirnir hafi ekki verið gerðir nákvæmlega með þeim hætti sem þingsályktunartillagan gerði ráð fyrir og ekki með því að framlengja vinnu starfshópsins eða (Forseti hringir.) endurvekja hann eins tillagan gerði ráð fyrir.