141. löggjafarþing — 101. fundur,  13. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[13:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við höfum á undanförnum dögum orðið vitni að miklum sviptingum hjá stærsta fjölmiðlafyrirtæki á einkamarkaði þar sem lykilmenn og stjórnendur á ritstjórnum hafa sagt upp störfum vegna meintra afskipta eigenda af ritstjórnarefni. Þetta dregur fram hve viðkvæm staða fréttamiðla í landinu er gagnvart eigendum sínum og hve mikilvægt er að löggjafinn standi vörð um ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla gagnvart eigendum og þá ekki síst sjálfstæði þess fjölmiðils sem er í eigu ríkisins. Þetta frumvarp til laga um Ríkisútvarpið gerir einmitt það. Það eykur bæði faglegt og fjárhagslegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins og bætir möguleika þess á að sinna lýðræðis- og menningarlegum skyldum sínum. En það styrkir líka stöðu einkaaðila á fjölmiðlamarkaði vegna þeirra takmarkana sem settar eru á auglýsingar í RÚV.

Ég fagna því mjög að þetta frumvarp er komið hingað til afgreiðslu, en það hefur verið til meðferðar í tvo vetur. Ég þakka þá góðu samstöðu sem náðist í allsherjar- og menntamálanefnd um málið og það á líka við um fulltrúa þess flokks sem ekki stendur að áliti meiri hlutans en lagði gott til málanna varðandi einstök atriði þess.