141. löggjafarþing — 101. fundur,  13. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[13:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Nú sem fyrr hefur verið ansi gaman að fjalla um Ríkisútvarpið og það hvernig við getum sett ákveðinn ramma utan um það. Ég tel að það sé margt ágætt í frumvarpinu og ég vil einmitt draga það fram, eins og hv. þm. Skúli Helgason gerði, að nefndarvinnan hefur verið mjög skemmtileg og gefandi. Við höfum ekki alltaf verið sammála, aldeilis ekki, en ég tel engu að síður að nefndin hafi breytt frumvarpinu. Þó að skrefin séu lítil þá eru þau mikilvæg og ég vil fagna því sérstaklega.

Ég vil þó draga fram að um leið og það er mikilvægt að menn haldi áfram undir rekstrarformi ohf., sem ég tel mikilvægt fyrir Ríkisútvarpið, þá er hlutverk Ríkisútvarpsins mjög óljóst, afar óljóst enn. Ég tel mikilvægt að Ríkisútvarpið og ágætir starfsmenn þess átti sig á því að við viljum öll standa vörð og stuðla að öflugri almannaþjónustu. Við viljum að Ríkisútvarpið forgangsraði í þágu öflugrar fréttaþjónustu, innlendrar dagskrár og menningar- og fræðslumiðlunar. Það er það sem Ríkisútvarpið á að snúast um en ekki eitthvað annað.