141. löggjafarþing — 101. fundur,  13. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[13:46]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að meiri hlutinn lagði fram tillögu þess efnis að Ríkisútvarpið skyldi bjóða öllum gildum framboðum í kosningum jafnt tækifæri til að kynna sín stefnumál. Með þessari tillögu er lagt til að fyrir utan þann glugga, ef svo má segja, í dagskrá Ríkisútvarpsins verði Ríkisútvarpið að auki skyldað með lögum til að afhenda stjórnmálaflokkum í kosningum ókeypis auglýsingatíma. Ég tel að það kalli á miklu betri yfirlegu og rýni með tilliti til spurninga um hagsmunaárekstra, um aðstöðumun stórra og lítilla framboða varðandi framleiðslu á slíku efni o.s.frv., ef á að fara í slíkt. Ég segi því nei við þessari tillögu en hvet jafnframt þingheim til að taka þetta mál til frekari skoðunar eftir kosningar og gefa sér þá góðan tíma til að rýna mismunandi leiðir í þessum efnum.