141. löggjafarþing — 101. fundur,  13. mars 2013.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

502. mál
[13:54]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að framkvæma viðhald á íbúðarhúsnæði í því skattumhverfi sem nú er við lýði, ekki heldur stunda kvikmyndagerð né standa fyrir nýsköpun eða reisa stóriðju á Bakka á grundvelli gildandi skattalaga. Þetta frumvarp er viðurkenning á öllu þessu.

Frumvarpið er til breytinga á lögum sem hafa sólarlagsákvæði, þau falla úr gildi um næstu áramót. Nú stendur yfir heildarendurskoðun á þeirri lagaumgjörð. Á sama tíma er Alþingi með til vinnslu frumvarp sem felur í sér miklu rýmri ívilnanir en þetta frumvarp felur í sér. Í ljósi þessa eru því miður engar eða sáralitlar líkur á því að nokkur fyrirtæki muni nýta sér þá skattalegu hvata sem í frumvarpinu felast.

Ég vil þó ekki leggjast gegn því að frumvarp sem felur í sér frávik frá skattpíningarstefnu ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga. (Forseti hringir.) Ég treysti mér hins vegar ekki til að styðja það í ljósi þess sem ég hef þegar rakið og hyggst því sitja hjá.