141. löggjafarþing — 101. fundur,  13. mars 2013.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

502. mál
[13:55]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er enn einu sinni verið að leggja til plástra á atvinnulífið. Skattumhverfi atvinnulífsins einkennist af endalausum plástrum og niðurgreiðslum, oftar en ekki til gæluverkefna ráðherra eða stjórnmálaflokka einhverra hluta vegna. Þetta er ekki boðlegt hvað atvinnulíf og umhverfi efnahagslífsins varðar. Það þarf að laga skattumhverfi fyrirtækja almennt og einfalda það. Það þarf að athuga rækilega að afnema einfaldlega tekjuskatt fyrirtækja til þess að hann skekki ekki rekstur þeirra og vera í stað þess með lágt aðstöðugjald sem leggst á veltu fyrirtækja og skattleggja arðgreiðslur úr þeim í staðinn til að gera þeim kleift að leggja arðinn frekar inn í rekstur fyrirtækisins án þess að missa hann í skatta.

Það er hægt að gera allt mögulegt til að gera rekstrarumhverfi fyrirtækja hagfelldara en það er í dag. Þetta frumvarp er ekki þannig, það gerir það bara verra.