141. löggjafarþing — 101. fundur,  13. mars 2013.

sveitarstjórnarlög.

449. mál
[14:00]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þó að þetta sé einhvers konar framfaraskref er þetta örlítið hænuskref. Þetta er mjög sérkennilegt frumvarp. Það er fimm ára þróunarverkefni um heimild til rafrænna íbúakosninga. Það er eins og innanríkisráðuneytið viti ekki af því að fyrir tveimur árum fór hér fram rafræn talning vegna kosninga til stjórnlagaþings þar sem yfir 500 manns voru í framboði. Það er eins og innanríkisráðuneytið sé að reyna að finna upp hjólið. (Gripið fram í.) Ég átta mig ekki alveg á hvers vegna þeir vilja gera þetta svona hægt.

Það er hægt að taka upp rafræna talningu í alþingiskosningum nánast strax ef menn vilja. Það er hægt að taka upp rafrænar kosningar til Alþingis og sveitarstjórna mjög fljótlega ef menn vilja. En hér á að skríða áfram í fimm ár með einhverja tilraun til rafrænna íbúakosninga í sveitarfélögunum.

Ég held að innanríkisráðuneytið ætti að drífa í því að setja upp skrifstofu lýðræðismála í ráðuneytinu og taka þessi mál einhverjum alvörutökum frekar en að vera með svona smáræði í gangi sem gerir ekkert annað (Forseti hringir.) en að tefja fyrir og drepa tímann.