141. löggjafarþing — 101. fundur,  13. mars 2013.

sveitarstjórnarlög.

449. mál
[14:01]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í umræðunni um þetta mál hér í gær vakti ég máls á því sem kemur meðal annars fram í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar, að sum sveitarfélög hafa í umsögnum sínum lagt til að fá aukinn sveigjanleika í íbúakosningum af þessu tagi til þess að miða kjörskrár við stærri hóp en hinar almennu kjörskrár í hefðbundnum sveitarstjórnarkosningum. Til dæmis gæti verið tilefni til að þau prófuðu sig áfram með 16 ára kosningaaldur í tilteknum íbúakosningum, það gæti átt við þegar verið er að kjósa um mál sem varða sérstaklega ungt fólk.

Ég hef sjálfur flutt hér frumvarp um að lækka kosningaaldur í 16 ár. Mér finnst að þetta atriði mætti vel skoða fyrir lokaafgreiðslu þessa máls. Ég mun alla vega gera það fyrir mitt leyti og hef hvatt nefndina til þess að gera það. Ég tel að það gæti að minnsta kosti átt við í tilrauna- og þróunarverkefni eins og þessu, gildistíma þess ákvæðis sem hér er um að ræða.