141. löggjafarþing — 101. fundur,  13. mars 2013.

gjaldeyrismál.

669. mál
[14:41]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði einmitt að spyrja hæstv. ráðherra um þetta atriði sem hún kom inn á í svari sínu, þ.e. að þess hefur orðið vart á markaði í morgun að ákvæði frumvarpsins sem hún vitnaði til hefði valdið nokkrum titringi og hræringum. Vonandi skýrast þau mál betur.

Ég vildi leggja áherslu á að ég er þeirrar skoðunar að frumvarpið sem hér um ræðir sé þess eðlis að vert og eðlilegt sé að því sé gefinn nokkur gaumur í störfum þingsins hér á síðustu dögum þess. Ég tel að málsmeðferð frumvarpsins geti verið mikilvægari en ýmis önnur mál sem hér eru sett á dagskrá, einfaldlega vegna þess að þarna er um allmikla hagsmuni að ræða. Ég vildi þó leggja áherslu á að ég tel að málið krefjist nokkurrar yfirlegu af hálfu hv. efnahags- og viðskiptanefndar vegna þess að hér er, eðli málsins samkvæmt, um að ræða mjög flóknar reglur sem bæði geta horft til rýmkunar en fela líka í sér auknar heimildir Seðlabanka til inngripa og auknar eftirlitsheimildir sem geta haft veruleg áhrif þegar farið er að beita þeim. Þarna er um að ræða svo viðkvæmt svið að ég tel að hv. efnahags- og viðskiptanefnd verði að fara gaumgæfilega yfir málið.

Varðandi þann titring sem varð á skuldabréfamörkuðum í morgun virtist skilningur manna vera nokkuð misjafn á því hver áhrif ákvæðisins (Forseti hringir.) sem frumvarpið felur í sér hafa. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort hann teldi að viðbrögð markaðar í morgun væru að einhverju leyti byggð á misskilningi á áhrifum þess frumvarps sem hér um ræðir.