141. löggjafarþing — 102. fundur,  13. mars 2013.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Stjórnmál snúast um stefnu. Undanfarin ár höfum við fylgst með vinstri og hægri flokkunum keppast um hvor stefnan hefur öll svörin á reiðum höndum, frjálshyggjan eða sósíalisminn. Nú þegar kosningar nálgast keyrir þetta um þverbak. Jafnvel er gengið svo langt að lýsa yfir fullkomnu stríði Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokks. Í slíkum herópum vinstri og hægri manna gleymist að fólkið í landinu glímir við raunveruleg vandamál sem eru þess eðlis að engin ein fyrir fram ákveðin hugmyndafræði hefur lausnir á þeim öllum. Á meðan lausnir stjórnmálamanna til vinstri og hægri snúast um að reyna af öllum mætti að troða raunveruleikanum inn í fyrir fram ákveðna kassa sósíalismans eða frjálshyggjunnar blæðir heimilunum út.

Til að ná raunverulegum árangri verðum við að leita skynsamlegustu lausnarinnar á hverjum vanda, laga úrræðin að raunveruleikanum og hafa jafnframt óbilandi trú á framtíðinni. Ef við vinnum saman að slíkum lausnum eru Íslandi allir vegir færir. Hvorki sósíalismi né frjálshyggja hefur lausn á öllum vanda. Því fyrr sem stjórnmálamenn átta sig á þessari staðreynd þeim mun fyrr getum við byrjað að leysa vandamálin á grundvelli rökhyggju og skynsemi.

Eitt mikilvægasta verkefni næstu ríkisstjórnar er að koma til móts við skuldsett heimili og skapa jákvæða hvata fyrir fólk til að vinna sig út úr vandanum. Þar má ekki bara horfa á hvað kostar að taka á skuldavandanum því að það verður enn dýrara fyrir samfélagið að gera ekkert og skilja íslensk heimili eftir föst í heljargreipum skulda og atvinnuleysis.

Eftir rúm fjögur ár hefur mikill fjöldi íslenskra heimila með verðtryggð lán enn enga lausn fengið á vanda sínum á meðan aðrir geta þakkað Hæstarétti fyrir leiðréttingu gengistryggðra lána. Næstum heil kynslóð er orðin eignalaus, á minna en ekki neitt. Eigið fé ungra barnafjölskyldna er horfið í hít húsnæðislánanna. Séreignarsparnaður millistéttarinnar er horfinn í lánahítina eða brenndur upp til að fjármagna lífsbaráttuna frá degi til dags. Þennan vítahring verður að rjúfa.

Ef ekkert verður að gert mun samfélagið staðna og fjölskyldurnar sundrast. Í slíku ástandi er það skylda okkar að finna lausnir sem virka.

Það hefur verið undarlegt að fylgjast með sumum talsmönnum hægri og vinstri flokkanna hafna því fyrir fram að komið verði til móts við skuldsett heimili og kalla það töfralausnir þegar talað er um leiðir til að koma í veg fyrir að heimilin beri ein byrðarnar í yfirstandandi efnahagsþrengingum. Margir þessara sömu stjórnmálamanna og álitsgjafa áttu ekki í vandræðum með að lofa hundruðum milljarða til að greiða vexti af ólögvörðum Icesave-kröfum. Margir þeirra hafa ekki átt í vandræðum með að réttlæta það að tugum milljarða var ausið í gjaldþrota fjármálastofnanir eftir hrun. En þegar kemur að því að reyna að bjarga heimilunum úr verðbólgubálinu kemur allt í einu annað hljóð í strokkinn; það er ekki hægt, það er allt of dýrt. Þetta er ekki boðleg afstaða.

Staðreyndin er sú að verkefnið blasir við okkur. Sama hverjir skipa ríkisstjórn á næsta kjörtímabili, verkefnin verða þau sömu. Og verkefnið sem verður að taka á með öllum tiltækum ráðum er að koma til móts við skuldsett heimili.

Það heldur því enginn fram að það verði auðvelt. Í íslenskum efnahagsmálum í dag eru engar auðveldar lausnir. En að halda því fram að það sé ómögulegt er uppgjafartal. Og stjórnmálamenn sem gefast upp á verkefnunum fyrir fram ættu að finna sér aðra vinnu.

Fyrir fjórum árum mistókst ríkisstjórninni að nýta upplagt tækifæri til að létta á skuldavanda heimilanna. Það er beinlínis óskiljanlegt hvers vegna leiðréttingarleiðin var ekki farin, leið sem flestir viðurkenna nú að var bæði raunhæf og framkvæmanleg. Við þessi afglöp varð til mikið ranglæti í samfélaginu.

Það býður okkar enn að taka á því ranglæti. Það þarf að takast á við vanda heimilanna á þrennum vígstöðvum. Í fyrsta lagi er það uppsafnaði skuldavandinn, sá sem ekki var leiðréttur eftir efnahagshrunið. Í öðru lagi þarf að koma í veg fyrir að sams konar stökkbreyting eigi sér stað aftur með því að taka á verðtryggingunni. Loks þarf að trygga fólki betri lífskjör, fleiri og betur launuð störf. Það verður aðeins gert með aukinni verðmætasköpun. Þar þarf að tryggja að allir fái notið ágóðans því að samfélag er samvinnuverkefni. Hin ólíku störf eru nauðsynleg til að halda samfélaginu gangandi. Þess vegna eiga allir að njóta ávinningsins þegar vel gengur.

Hlutverk stjórnvalda er að skapa aðstæður fyrir atvinnusköpun, skapa jákvætt umhverfi og hvata til að atvinnurekstur geti dafnað og vaxið. Þannig verða störfin til. Aðeins þannig getur hagkerfið vaxið og skapað grundvöll fyrir það velferðarsamfélag sem við erum öll sammála um að við viljum skapa á Íslandi. Það er einmitt grundvallaratriðið. Við erum öll sammála um markmiðið, öll í þessum sal og nánast allir í samfélaginu, stjórnmálamenn, embættismenn, atvinnurekendur, launþegar, kennarar, hjúkrunarfræðingar, læknar, námsmenn, verkafólk, lögreglumenn — allir. Við erum öll sammála um að við viljum byggja upp réttlátt samfélag þar sem allir geta lifað mannsæmandi lífi og enginn fellur í gegnum öryggisnetið. Þess vegna eigum við að geta orðið sammála um að leysa verkefnin sem liggja fyrir svo að land og þjóð fái dafnað, til að samfélagið rísi aftur upp úr doðanum, til að allir hafi vinnu, allir hafi aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu og allir geti fylgt eftir draumum sínum, hvort sem er í menntun, atvinnu eða öruggu fjölskyldulífi. Verkefnin eru vissulega flókin, en markmiðin eru skýr. Þau getum við öll sameinast um.

Ef einhvern tímann var nauðsynlegt að leggja til hliðar deilur um fyrir fram ákveðna hugmyndafræði og byggja lausnir á skynsemi og rökum þá er það nú. Verkefnin blasa við og bíða lausnar. Velferð alls samfélagsins er undir því komin að við tökumst óhrædd á við þau og finnum lausnir sem virka. Það er ekki lengur hægt að fresta vandanum. Það er ekki lengur hægt að segja: Það er ekki hægt. Allt samfélagið verður að leggjast á árarnar í átt að sameiginlegum markmiðum. Við þurfum þjóðarsátt um að leysa verkefnin hversu erfið sem þau kunna að reynast. Þá dugir ekki að segja: Það er ekki hægt — því að það er hægt.

Þó að fjögur ár séu liðin frá efnahagshruninu steðjar enn að Íslandi mikil efnahagsleg ógn. Lífskjörum og velferð þjóðarinnar er ógnað. Framtíð barnanna okkar er ógnað. Íslenska þjóðin þarf að taka á þeirri ógn jafnsamhent og fumlaus og þegar ógn steðjar að okkur vegna náttúruhamfara. Til að Íslendingar eignist von um farsæla framtíð í heimalandi sínu þurfum við að tryggja að fólk hafi atvinnu, að það geti lifað af þeim launum sem það fær greidd fyrir vinnu sína og að fólk fái þá þjónustu sem það þarf á að halda. Við verðum að þora að taka nauðsynleg skref saman til að fjárfesta í framtíðinni. Það er einmitt lykilatriðið; við verðum að þora. Við þurfum að þora að taka ákvarðanir sem leysa raunveruleg vandamál fólksins í landinu. Raunveruleg vandamál fólksins í landinu. Getum við það? Já, við getum það saman. Það verður ekki án kostnaðar og það verður ekki auðvelt, en það er hægt. Leiðirnar eru til og það þarf kjark, þor og samstöðu til að nýta þær.

Hlutverk stjórnvalda er að stuðla að samkennd, framtakssemi, heilbrigði og öllu því sem gerir líf okkar og samfélag betra. Það getur orðið miklu betra. Stjórnmál snúast um stefnu. Saga Íslands sýnir að mestar framfarir verða þegar skynsemisstefna og rökhyggja ráða för. Þegar við leitum saman skynsamlegra lausna á hverjum vanda á grundvelli þess sem er rökrétt. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir á komandi mánuðum er einföld: Erum við tilbúin að takast á við vandamálin af staðfestu og hætta ekki fyrr en þau eru leyst, hætta ekki fyrr en íslensk heimili fá aftur von, hætta ekki fyrr en allir geta fengið vinnu? Já, við erum tilbúin. Við getum gert þetta ef við vinnum að því saman.

Tækifæri Íslands eru gríðarleg. Ef við göngum óhrædd og samhent inn í framtíðina mun okkur takast að leysa verkefnin og nýta tækifærin þjóðinni til heilla. Þá munum við byggja hér upp það samfélag velferðar og atvinnu sem við viljum öll búa í. Tökum á hverjum vanda með kjark og þor að vopni og óbilandi trú á að Íslandi séu allir vegir færir. Þá mun íslensku þjóðinni farnast vel á öllum stundum framtíðar.