141. löggjafarþing — 102. fundur,  13. mars 2013.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:24]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Fyrir seinustu kosningar vorið 2009 sagði ég aðspurð á stjórnmálafundi að afleiðingar hrunsins yrðu meðal annars þær að laun mundu lækka og skattar hækka. Talsvert var spurt um þetta óhefðbundna kosningaloforð, m.a. í þessum sal, en staðreyndin er sú að það er alltaf betra að fara í sérhvern leiðangur með raunhæft mat á erfiðri stöðu.

Meginverkefni þessa kjörtímabils hefur verið að verja grunnstoðirnar, heilbrigðiskerfið, menntakerfið og velferðarkerfið eftir fremsta megni á sama tíma og við höfum þurft að loka rúmlega 200 milljarða kr. fjárlagagati og bæta efnahag landsins. Þar hefur okkur margt tekist. Að vísu hefur verið skorið niður, en það sem hefur bjargað þessum málaflokkum, grunnstoðunum, frá frekari og skaðlegri niðurskurði eru þær breytingar sem hafa verið gerðar á skattkerfinu, skattkerfisbreytingar sem hafa aukið skattbyrði hinna tekjuhæstu en lækkað hana hjá þeim tekjulægstu og aflað þannig ríkissjóði aukinna tekna til þessara málaflokka.

Aðstæður núna eru öllu betri en fyrir fjórum árum enda hefur náðst árangur við efnahagsstjórn og ríkisfjármál sem ekki verður litið fram hjá. Um leið verðum við að hafa augun opin því að efnahagsástand hér á landi tekur mið af alþjóðlegum aðstæðum og enn eru blikur á lofti. En þessi árangur hjálpar til þegar kemur að því að renna traustum stoðum undir til dæmis öflugt velferðar-, heilbrigðis- og menntakerfi til framtíðar. Þessi árangur skapar forsendur fyrir frekari styrkingu þessara grunnstoða. Áfram verður mikilvægt að gæta aðhalds og missa ekki tökin sem hafa náðst á ríkisfjármálum.

Á sama tíma og þetta hefur gerst höfum við staðið fyrir fjölda umbóta og framfaramála á kjörtímabilinu eins og alkunna er. Sumum hefur raunar þótt þau of mörg, öðrum of fá. Það dugir að nefna til að mynda ein hjúskaparlög, bætta lagaumgjörð og vitundarvakningu um kynferðisofbeldi, rammaáætlun, ný lög um Ríkisútvarpið sem hér voru samþykkt í dag og ný lög um að táknmál verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra. En það má alltaf gera betur. Þannig eiga stjórnmálamenn og öflugar lýðræðislegar stjórnmálahreyfingar alltaf að hugsa.

Virðulegi forseti. Við höfum líka náð þeim árangri að það er raunhæft að fara í það verkefni að bæta lífskjör almennings. Vafalaust hafa öll stjórnmálaöfl góðar fyrirætlanir um að bæta lífskjör, en það skiptir máli hvernig þau eru bætt og á hvað menn leggja áherslu. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjum áherslu á að hér verði áfram byggt upp öflugt og fjölbreytt atvinnulíf sem byggist á hugviti og tekur mið af sjálfbærri þróun. Ég vil að við nýtum auðlindir, sem við viljum hiklaust fá að kalla sameign okkar í stjórnarskrá, á skynsamlegan hátt. Arðrænum ekki náttúruna þannig að afleiðingar stóriðjuframkvæmda birtist í dauðum stórfljótum. Einbeitum okkur að smáum lausnum en fjölbreyttum. Nýtum auðæfin sem felast í fiskimiðunum og landinu. Höldum áfram að auka verðmæti afurða okkar með nýsköpun og þróun á sviði matvælaframleiðslu. Nýtum hugvit til að hanna nýjar lausnir. Byggjum upp iðnað sem ekki gengur um of á náttúru landsins. Ræktum nýja atvinnuvegi, nokkuð sem fyrir ekki mjög mörgum árum var kallað „eitthvað annað“, eins og hinar skapandi greinar sem velta jafnmiklu og áliðnaður, líka tækni og vísindi og snjallar viðskiptahugmyndir.

Atvinnustefna sem skilar jöfnum og stöðugum vexti í anda sjálfbærrar þróunar er undirstaða þess að við getum bætt kjör fólks í landinu til lengri tíma. Það gerum við meðal annars með því að styrkja samfélagið þannig að grunnþjónustan verði áfram góð og öllum aðgengileg. Um leið skiptir máli að bæta kjör þeirra sem minnst hafa, áttu erfiðast með að þreyja kreppuna, auka ráðstöfunartekjur almennings og endurskoða húsnæðiskerfið.

Að mínu mati á að vera forgangsmál að nýta það svigrúm sem kann að skapast hjá ríkissjóði á næstu árum til að snúa vörn í sókn á sviði heilbrigðismála, menntamála og velferðarmála þar sem kerfið var víða aðþrengt löngu fyrir kreppu. Kannski er það ekki jafn vel til fallið til atkvæðaveiða og stór loforð um skattalækkanir að setja þessi mál í forgang, en það er nauðsynlegt og nokkuð sem allar ábyrgar stjórnmálahreyfingar hljóta að gera. Við skuldum líka öllu því ótrúlega og þrautseiga fólki sem hefur haldið heilbrigðis-, velferðar- og menntastofnunum okkar gangandi í gegnum þessa erfiðu tíma að setja þessi mál í forgang. Hvernig ætla þeir sem nú lofa að vinda ofan af öllum þeim skattkerfisbreytingum sem gerðar hafa verið í þágu þessara málaflokka að fara að því að efna það? Það er spurning sem er enn þá ósvarað.

Góðir landsmenn. Mér finnst það vera mikilvægt stefnumál að breyta orðræðu stjórnmálanna. Ég man að það var það fyrsta sem ég sagðist ætla að reyna að gera þegar ég var kosin varaformaður í minni stjórnmálahreyfingu og einhverjum fannst það mjög fyndið. Ég held að síðan hafi þeim fjölgað talsvert sem finnst það einmitt mjög mikilvægt. Hörkustjórnmál þar sem allt gengur út á að úthúða andstæðingnum eru formúlubók sem virðist hafa gengið vel upp á dögum Jónasar fá Hriflu allt fram á daga Davíðs Oddssonar, en ég held að þessi bók sé bara ekki lengur á metsölulista. Á Alþingi á undanförnum árum hefur því miður ekkert rými verið fyrir grá svæði. Þar segir sjaldnast nokkur maður að ríkisstjórnin hafi staðið sig ágætlega í sumum málum, jafnvel mjög vel í öðrum, sæmilega í öðrum, illa í enn öðrum. (Gripið fram í.) Auðvitað eru þeir hér í húsi, en oftar heyrir maður að ríkisstjórnin sé sú versta á lýðveldistímanum — ég hef alloft heyrt það í þessum sal — eða að hún hafi lyft grettistaki og bjargað öllu. Ég viðurkenni að ég hallast meira að seinna sjónarmiðinu. Það geri ég vegna þess að ég hef tekið þátt í störfum ríkisstjórnarinnar og veit hvað hún hefði getað gert og hefði getað haft mun verri afleiðingar en það sem gert var. En svo aftur sé vitnað til formúlubókmennta eru til mjög mörg litbrigði af gráu, en bara einn svartur og einn hvítur.

Oft er líka rætt hér á Alþingi um að mikilvægt sé að sátt náist um mál, sem er mjög gott, en slíkum orðum þarf líka að fylgja ásetningur og seigla við að ná sáttinni. Þá dugir ekki til að vera með upphrópanir um að skipta þurfi út fréttamönnum á fjölmiðlum eða prófessorum í háskólum ef orð þeirra samrýmast ekki heimsmynd þingmanna. Þá verður fólk að vera reiðubúið að taka gagnrýni á málefnalegan hátt og reiðubúið að læra af mistökum sem alltaf er erfitt, en gerir okkur öll að betri mönnum.

Þegar við ræðum um sátt getum við rætt aðeins um frumvarp að nýrri stjórnarskrá sem Vinstri grænir hafa lýst sig reiðubúin að samþykkja. Það byggir á þeim vilja sem var kallaður fram með þjóðaratkvæðagreiðslu þann 20. október síðastliðinn, en þar á undan hafði grundvöllur verið lagður með þjóðfundi og stjórnlagaráði. Frumvarpið var samið á óvenjulegan hátt í víðtæku samráði við samfélagið og einnig með mikilli umræðu á þingi. Eigi að síður hefur gengið brösuglega að ljúka umfjöllun um stjórnarskrármálið hér á þingi og það er mikilvægt að við veltum því fyrir okkur hvort sú sátt sem við ræðum hér á þingi um stjórnarskrána sé í raun sátt um óbreytt ástand. Nú hefur verið lögð fram ákveðin málamiðlun í málinu og þá reynir á hvort fólk sé reiðubúið að taka þátt í að leita sátta og sýna seiglu í að ná henni fram.

Virðulegi forseti. Það eru kosningar fram undan. Þá kemur stundum tími stórra loforða, loforða sem oft snúast jafnvel um að bjarga kjósendum frá aðsteðjandi hættu og yfirleitt eru það við stjórnmálamenn sem skilgreinum sjálf hættuna og leggjum fram lausnir sem aðeins við getum boðið fram. Á undanförnum fjórum árum hafa ýmsir fulltrúar stjórnarandstöðu á þingi skilgreint og byggt undir þá hættu sem kjósendur eiga nú að hræðast mjög, en hættan er auðvitað vinstri stjórnin sem hefur herjað á heimilin og lagt á skattálögur, sama vinstri stjórn og hefur leitt samfélagið úr hruni til árangursríkrar uppbyggingar og sömu skattarnir og sáu til þess að við gátum haldið úti sjúkrahúsunum okkar, skólunum og velferðarkerfinu. Það er stóra hættan sem er varað við fyrir þessar kosningar. Það er sú staðreynd að vinstri stjórnin sem hér hefur setið hefur unnið gott starf og kannski er hættan sú að við erum enn full af krafti og reiðubúin að halda áfram baráttu okkar fyrir réttlátara samfélagi.

Góðir landsmenn. Á undanförnum árum hef ég átt því láni að fagna að gegna embætti mennta- og menningarmálaráðherra. Ég hef fengið að kynnast öflugu starfi um land allt í skólum, mennta- og menningarstofnunum landsins. Ég hef fengið að kynnast börnum og ungmennum, kynnast ótrúlegri sköpun, gleði, hæfileikum, metnaði, frumkvæði og þær heimsóknir hafa fyllt mig bjartsýni á framtíðina hér í okkar auðuga landi. Þær hafa líka sannfært mig um það að öll pólitík snýst á endanum um allt það sem er hversdagslegt í lífi okkar.

Í öllu þessu smáa og hversdagslega felst líka mikill og stór kjarni. Kjarninn segir okkur að við eigum öll tækifæri til þess að byggja hér upp samfélag velsældar þar sem hagvöxturinn byggir á hugviti, atvinnulífið hvílir á fjölbreyttum stoðum og rannsóknir og nýsköpun eru nauðsynlegur þáttur í allri uppbyggingu, samfélag sem við vitum að nýting auðlindanna er ekki einkamál okkar sem erum hér í fullu fjöri heldur skiptir máli að skila höfuðstólnum okkar, auðlindunum, áfram til komandi kynslóða í ekki síðra ástandi en við tókum við þeim, samfélag þar sem ríkir jöfnuður sem má meðal annars tryggja með því að bjóða öllum menntun við hæfi, með því að tryggja öfluga heilbrigðisþjónustu, almannatryggingar sem mynda raunverulegt öryggisnet í samfélaginu, lýðræðislegt samfélag þar sem við eflum þátttöku almennings jafnt og þétt í öllum ákvörðunum, samfélag þar sem menning og listir eru ekki munaður heldur í senn öflugur atvinnuvegur og undirstaða sjálfsmyndar okkar. Allt sem við gerum hver sem við erum, smátt og hversdagslegt, í því getur falist þessi kjarni. Og árangurinn næst með því að taka lítil skref en markviss, vera ávallt með hugann við fólkið sem við eigum að vinna fyrir og hugsa um — ávallt.