141. löggjafarþing — 102. fundur,  13. mars 2013.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:21]
Horfa

Jón Bjarnason (U):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna fékk í hendur mjög erfitt bú en líka einstök tækifæri. Það var mikil ólga í íslensku samfélagi veturinn 2008–2009 þegar þúsundir höfðu tapað eignum sínum og jafnvel atvinnu. En það var líka að finna með þjóðinni mikla samstöðu og mikinn vilja til að standa saman í þeim brotsjó sem þá gekk yfir þjóðina. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fékk tækifæri til að virkja þá samstöðu og skapa samhug hjá þjóðinni. Til að svo mætti verða var höfuðatriði að forgangsraða í þágu almennings og vinna af einurð á skuldavanda heimilanna og atvinnuleysinu sem var okkur nýtt og mikið böl. Við gengum til kosninga árið 2009 með þá von að svo mætti verða en strax eftir kosningarnar komu fram í dagsljósið launmál, þau sem hluti af mínum fyrrverandi þingflokki og samstarfsflokkurinn, Samfylkingin, stóðu að.

Ég segi launmál því að frammámenn sem höfðu staðið fastir fyrir gegn Evrópusambandsaðild Íslands sneru við blaðinu eftir kosningar og gengust inn á það að gera þetta vandasama deilumál að höfuðmáli komandi kjörtímabils. Einsmálsmennirnir voru ekki við sem börðumst þar í móti heldur hinir sem settu allan þunga yfirstandandi ríkisstjórnarsamstarfs í það að þóknast Evrópusambandinu og vinna að aðlögun stjórnkerfisins að þeirra kröfum. Vandi þúsunda heimila, atvinnuleysi og skuldavandi ríkissjóðs urðu að víkja.

Vissulega náðist árangur. Ég leyfi mér að minna á strandveiðina, síld fyrir smábáta, byggðatengingar aflaheimilda, skötuselsmálið fræga sem opnaði í raun fyrir að leysa upp þetta gróna kvótakerfi.

Frú forseti. „Svík þú aldrei ættland þitt í tryggðum“ var lagt í munn Þórðar kakala þegar Noregskonungur beitti öllum brögðum til að leggja landið undir sig.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð var stofnuð meðal annars til að berjast gegn umsókn og aðild að Evrópusambandinu. Flokkurinn vann mikinn kosningasigur vorið 2009 á grundvelli heiðarlegra og einfaldra gilda sem fólk skildi. Trúnaður og traust voru af minni hálfu ekki innantóm slagorð. Fyrstu setningarnar í stofnskrá Vinstri grænna lúta að fullveldi og sjálfstæði Íslendinga.

Ég lofaði kjósendum mínum því að standa við stefnuskrá flokksins og grunngildi. Ég mundi berjast gegn umsókn og aðild að Evrópusambandinu. Þegar Alþingi hafði samþykkt að senda umsóknina af stað gætti ég að því sem ráðherra að staðið væri fast á rétti Íslendinga og lagðist gegn fyrir fram aðlögun og undirgefni við Evrópusambandið í þeim viðræðum. Það er ekkert til sem heitir að kíkja í pakkann þegar sjálfstæði þjóðarinnar er annars vegar.

Sumir flokkar vilja ganga í Evrópusambandið og segja það opinskátt. Hitt er öllu verra hjá þeim sem segjast vera á móti en gera svo allt annað. Samþykkt landsfundar VG um að halda áfram aðildarviðræðum út í næsta kjörtímabil gengur þvert á stofnskrá Vinstri grænna og grunngildi þess flokks.

Þarna skilja leiðir. Maður leikur sér ekki að sjálfstæði Íslands og fullveldi þjóðarinnar, fullveldi sem þjóðin barðist fyrir í aldir að endurheimta.

Góðir Íslendingar. Þið vitið hvar þið hafið mig í þessum efnum, baráttunni um að verja sjálfstæði Íslands og fullveldi heldur áfram.