141. löggjafarþing — 102. fundur,  13. mars 2013.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:43]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Það þekkja allir þá góðu tilfinningu sem gott dagsverk færir manni, að geta gengið til hvílu sáttur við guð og menn. Á morgun kemur nýr dagur með nýjum verkefnum að glíma við og því er gott að geta litið sáttur um öxl. Nákvæmlega þannig upplifi ég þau fjögur erfiðu ár sem eru að baki við stjórn landsins. Alþingismenn hafa lagt sig alla fram við að gera sitt besta við fordæmalausar aðstæður og ótrúlegur árangur hefur náðst með tilstyrk allrar þjóðarinnar. Það er ekki þjóðareðli Íslendinga að gefast upp, hvorki fyrir náttúruhamförum né hamförum af mannavöldum eins og hrunið og afleiðingar þess voru. Núverandi stjórnvöld geta með góðri samvisku lagt verk sín í dóm þjóðarinnar því að allir lögðu sig fram við að gera sitt besta og náðst hefur að klára fjölmörg þjóðþrifamál meðfram endurreisninni. Munum að baráttunni fyrir góðu samfélagi lýkur aldrei.

Vinstri græn eru full tilhlökkunar og orku til að takast á við það verkefni að byggja ofan á þann trausta grunn sem þjóðinni tókst með samhentu átaki að reisa eftir hrunið. Við erum þjóð í landi tækifæranna, auðug af náttúruauðlindum með hreina orku og innviðir samfélagsins eru sterkir. Mikill mannauður er til staðar og ekkert getur komið í veg fyrir lífsgæði og gott samfélag nema þá helst við sjálf í verkum okkar og gjörðum, eins og hrunið sýndi okkur svo óþyrmilega.

Ég vil sérstaklega líta til landsbyggðarinnar og þeirra miklu tækifæra sem eru þar. Mörg svæði á landsbyggðinni hafa verið í varnarbaráttu lengi en önnur svæði hafa staðið af sér tímabundna erfiðleika. Það sem ræður búsetu fólks byggist á samspili fjölmargra þátta. Undirstaðan er þó alltaf tryggt afkomuöryggi og góð grunnþjónusta.

Á síðustu fjórum árum hafa þrátt fyrir erfiða tíma verið lagðir miklir fjármunir í verkefni á landsbyggðinni sem auka þarf fjárfestingar og styðja við nýsköpun í atvinnulífinu. Í fjárlögum fyrir þetta ár var miklum fjármunum varið í uppbyggingu ferðamannastaða vítt og breitt um landið sem mun efla möguleika okkar á að taka vel á móti þeim fjölda ferðamanna sem kemur til landsins og að þeir dreifist sem best um land allt.

Í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar er stórauknum fjármunum varið í flýtingu jarðgangaframkvæmda ásamt ýmsum öðrum brýnum vegabótum.

Í sóknaráætlun landshlutanna, sem unnið er að um allt land í samvinnu við heimamenn, verður varið um 400 millj. kr. Jöfnun flutningskostnaðar er hafin og stigin hafa verið fyrstu skref í aukinni niðurgreiðslu til húshitunar á köldum svæðum. Betur má ef duga skal og jöfnun búsetuskilyrða í landinu er mikil sanngirnis- og réttlætiskrafa. Það þarf að speglast í kröfunni um jafnan atkvæðisrétt allra landsmanna.

Við hjá Vinstri grænum höfum alltaf talað fyrir jöfnum búsetuskilyrðum. Vissulega þarf að huga sérstaklega að þeim svæðum sem hafa farið halloka af ýmsum ástæðum á liðnum árum en þar hefur orsakavaldurinn oftar en ekki verið hið illræmda kvótakerfi. Landshlutarnir eiga að fá að njóta þeirra auðlinda sem eru við bæjardyrnar til eflingar atvinnutækifæra heima í héraði og byggja þannig upp fjölbreytt atvinnulíf sem byggist á styrkleika hvers staðar. Framtíð margra byggða stendur og fellur með því hvort ungt fólk kjósi sér búsetu þar í framtíðinni.

Frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem er nú til umræðu í þinginu opnar möguleika á að breyta námslánum í styrki. Þeir námsmenn sem nýta menntun sína á landsbyggðinni að námi loknu eiga að mínu mati líka að falla undir þá skilgreiningu. Það yrði hvati fyrir ungt fólk til að setjast að úti á landi og hefði jákvæð áhrif á byggðaþróun og menntunarstig á landsbyggðinni.

Ég vil að lokum koma inn á mál málanna, nýtt auðlindaákvæði í stjórnarskrá og nýtt kvótakerfi þar sem er rofin eignarréttarleg krafa núverandi handhafa veiðiheimilda. Þau grundvallarmál hefur okkur ekki auðnast að afgreiða en í þeim kristallast stóra spurningin um hverjir eigi Ísland. Þjóðin spyr hvers vegna en hún hefur í kosningum árið 2009 og í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október síðastliðinn lýst eindregnum stuðningi við ævarandi eign þjóðarinnar á auðlindum landsins og við að ríkið ráðstafi auðlindunum á jafnræðisgrundvelli gegn endurgjaldi. Þjóðinni ætti að vera orðið ljóst hverjir berjast hvað harðast gegn þeim breytingum. Það eru valdablokkirnar í landinu, peningaöflin og þeir flokkar sem styðja ekki nýtt auðlindaákvæði og breytt kvótakerfi.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa opinberað mjög vel í umræðunni á síðustu dögum fyrir hvað þeir standa. Máttur peninga, valdablokka og pólitískra flokka er eitruð blanda sem réð ríkjum hér allt of lengi, í hátt í 20 ár. Við sem höfum barist allt þetta kjörtímabil fyrir breyttu kvótakerfi og því að auðlindirnar séu í þjóðareign ætlum ekki að gefast upp þótt ekki hafi allt náðst í þeim áfanga.

Landsmenn vita fyrir hvað gömlu valdaflokkarnir standa, fyrir skjaldborg um einkaeignarréttinn á kostnað þjóðareignar. Við Vinstri græn munum halda áfram að brjóta niður múra sérhagsmunagæslu og munum ekki ganga fram með óábyrg yfirboð og gylliboð eins og heyrast nú hljóma. Þess í stað munum við halda okkar striki, leggja stefnu okkar fram og vinna áfram af ábyrgð og heilindum fyrir land og þjóð. — Góðar stundir.