141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruminjasýning í Perlunni.

[10:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Á fjárlögum fyrir þetta ár eru 400 millj. kr. til að setja upp náttúruminjasýningu á vegum Náttúruminjasafns Íslands. Í hvað héldu menn að verið væri að setja það fé? Héldu menn að þetta yrði bara hálftímasýning sem yrði svo tekin niður í lok árs? Auðvitað er það ekki þannig. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður spyr hvar heimildin sé. Það eru skýr skilaboð frá Alþingi um að þessi sýning eigi að fara upp. Ég er sannfærð um að hún muni skila okkur töluverðum tekjum og það örugglega innan skamms tíma. Af hverju segi ég það? Vegna þess að í dag heimsækja um 300 þús. manns Perluna árlega, ef ég man rétt. Ef hver þeirra skilaði þúsundkalli yrðu það 300 millj. kr. Það hefur vantað aðdráttarafl á höfuðborgarsvæðinu fyrir ferðaþjónustuna. Það vantar náttúruminjasafn á Íslandi og þetta á eftir að skila okkur miklum tekjum. Ég held að það sé algerlega klárt að á móti þeim 185 millj. kr. sem rekstrarkostnaðurinn mun vera samkvæmt áætlunum komi töluverðar tekjur þar á móti og ég vona að innan skamms muni sýningin geta skilað hagnaði. Þetta mun hafa gríðarlega mikið að segja fyrir ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu.

Hvað varðar heimildina þá er þetta svona: Við erum með 400 millj. kr. á fjárlögum fyrir þetta ár til að setja sýninguna upp. Hugmyndin var ekki sú að hún stæði bara í ár og væri svo tekin niður heldur er þetta sýning sem á að standa. Vinnan hefur því staðið um að gera samning um varanlegt heimili fyrir sýninguna. Nú er komin niðurstaða í það og að sjálfsögðu var þetta undirritað með fyrirvara um samþykki Alþingis. Það eru mörg fordæmi fyrir því, hv. þingmaður, að slíkt sé gert og það verður Alþingis að taka endanlegan ákvörðun um þennan samning í haust á fjárlögum.