141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

kennaranám.

[10:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Á sínum tíma var farið út í mjög víðtækt samstarf við heimilin, skólana og ekki síst kennarasamfélagið við það að móta heildstæða menntastefnu sem leiddi m.a. til heildarendurskoðunar á löggjöf um öll skólastigin. Það var mjög markviss vinna og menn voru samhentir í því að endurskoða kennaranámið. Við mátum það svo á sínum tíma að auka þyrfti bæði veg og virðingu kennarastarfsins en ekki síður að setja aukinn metnað og slagkraft í sjálft námið. Sérstaklega var litið til Finnlands í þeim efnum. Við sammæltumst um að lengja kennaranámið í fimm ár en stór hluti af því, eins og það var hugsað, var að auka starfsnám kennara. Í Finnlandi er mikil áhersla lögð á starfsnámið sem slíkt innan fimm ára námsins.

Hér hefur þróunin hins vegar orðið sú að þessi lenging hefur í rauninni eingöngu falið í sér aukningu á fræðilegum hluta kennaranáms. Ég vil því spyrja hæstv. menntamálaráðherra, sem ég veit að hefur verið mjög umhugað um að efla og styrkja kennaranámið, hvaða áform eru uppi um kennaranámið og hvað hefur verið gert til að eiga samtal við sveitarfélögin sem hafa mjög ákveðnar skoðanir á þessu máli og vilja helst stytta kennaranámið á ný. Ég vil lýsa því yfir að ég held að það væri rangur vegur að fara, við eigum miklu frekar að ræða um innihald kennaranámsins á þessum fimm árum og hvernig við getum laðað að fólk í námið. Það er viðfangsefnið. Of fáir sækja um kennaranám í dag. Þá verðum við að hugsa um það hvernig við byggjum upp námið, m.a. í gegnum starfsnámið, í samvinnu við sveitarfélögin en ekki síður háskólana sem sjá um kennaranámið.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað hefur verið gert til að efla og styrkja umgjörðina í kringum kennaranámið? Við höfum rætt það áður, bæði innan þingsins við hæstv. menntamálaráðherra en líka innan allsherjar- og menntamálanefndar, að taka þurfi kennaranámið fastari tökum en nú er (Forseti hringir.) til að efla kennarastarfið sem slíkt, efla gæði námsins þannig að við förum með enn betri kennara út í samfélagið og í skólana okkar.