141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

kennaranám.

[10:57]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Því er til að svara að heilmikil umræða eins og hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir nefndi réttilega hefur farið fram um inntak kennaranámsins eftir að Alþingi samþykkti með lögum að lengja það í fimm ár fyrir öll skólastig. Í framhaldi af þeirri umræðu hefur menntamálaráðuneytið átt í óformlegu samtali við þær háskólastofnanir sem sinna kennaranámi, þ.e. Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Listaháskólann. Þá fundi hef ég reynt að sitja.

Eitt af því sem hefur verið þar til umræðu er til að mynda sú krafa sem hefur komið upp að allir kennaranemar fái ákveðinn grunn í grunnfögum. Þar hafa verið nefnd íslenska, stærðfræði og hugsanlega einhver þáttur raungreina.

Annað sem hefur verið til umræðu er hvernig unnt er að innleiða nýja menntastefnu og allt sem henni fylgir; skóla án aðgreiningar, grunnþætti í aðalnámskrám og annað, inn í kennaranámið. Þriðja hugmyndin er um sjálfa uppbygginguna á kennaranáminu, þ.e. hvernig við getum látið hugmyndina um sveigjanleg mörk skólastiga endurspeglast í kennaranáminu. Einnig hefur verið rætt um það sem hv. þm. nefndi líka, aukinn þátt vettvangsnáms eða starfsnáms í náminu.

Eitt af því sem hefur komið fram í þessum umræðum er að sú reglugerð sem hefur verið sett um kennaramenntun er umdeild á vettvangi þeirra sem annast kennaranámið. Þeir telja jafnvel að hún sé of bindandi fyrir háskólana. Niðurstaða okkar hefur hins vegar verið sú að breyta þeirri reglugerð ekki að sinni heldur hefur verið ákveðið að stofna formlegan samráðsvettvang háskólanna og menntamálaráðuneytisins því við teljum mjög mikilvægt að við eigum í þessu virka samtali. Það hefur þegar skilað ákveðnum árangri inn í námið við að styrkja umgjörðina og vega og meta hvort reglugerðarformið sé hið rétta til að áherslurnar sem koma fram í nýrri menntastefnu skili sér yfir í kennaranámið. Þar tel ég eðlilegt að sveitarfélögin komi að, af því að hv. þingmaður nefnir þau.

Ég vil líka nota tækifærið og segja að ég er sammála henni um að ekki eigi að stytta kennaranámið. Hins vegar er ég hlynnt því að við horfum til þess að hafa útgönguleiðir úr kennaranáminu, eins og eðlilegt er ef við horfum almennt á háskólanám, að það sé útgönguleið úr kennaranámi eftir þriggja ára nám. (Forseti hringir.) Síðan sé hægt að ljúka því til fullnustu eftir tvö til viðbótar. Þar er eðlilegt að sveitarfélögin komi aftur til samræðu af því að hv. þingmaður nefndi þau sérstaklega.