141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

kennaranám.

[11:01]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Já, það sem við höfum rætt við háskólana er að skipuleggja námið út frá Bologna-ferlinu þannig að það sé eðlileg útgönguleið að þremur árum liðnum og það er það sem þegar er gert. Það sem þarf að gera til að fullnusta það er að velta því upp hvað það þýðir þegar maður er búinn með þrjú ár í kennaranámi, hvort það skilar einhverjum titli sem er þá ekki kennaratitill heldur einhver annar titill, sú vinna stendur líka yfir á þeim vettvangi.

Talsvert hefur verið deilt um lengingu kennaranáms í ljósi þess að umsóknum hefur farið fækkandi, ekki síst í leikskólakennaranámi, en við verðum líka að horfa á það út frá heildarsamhenginu. Ef við skoðum sögu menntapólitíkur á Íslandi sjáum við að ákveðinn skortur hefur verið á menntarannsóknum til að undirbyggja stefnumótun stjórnvalda og vinna úr þeim gögnum sem við höfum. Ég hef þá bjargföstu trú að með því að efla kennaranámið á þennan hátt og standa að meistaranámi þá eigum við eftir að efla þessar rannsóknir og það eigi eftir að gera stjórnvöldum framtíðarinnar auðveldara með að taka skynsamlegar ákvarðanir byggðar á rökum. Ég hef því trú á því að þessi ákvörðun (Forseti hringir.) eigi eftir að skila sér til frambúðar með betri ákvörðunum á sviði menntamála.