141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[11:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns er kannski rétt að fara aðeins yfir það hverjir hafa lagt hér gjörvasta hönd á plóg. Ég held að af þingmönnum sé ekki kastað rýrð á neinn þótt nefnt sé nafn hv. þm. Marðar Árnasonar sem hefur verið talsmaður málsins og framsögumaður fram undir þetta en er nú við störf erlendis. Hann hefur lagt í þetta gríðarlega mikla vinnu og full ástæða er til þess að þakka honum sérstaklega fyrir hans mikla framlag til umhverfisverndar og náttúruverndar, ekki bara í þessu máli heldur mörgum öðrum.

Frú forseti. Ég held að óhætt sé að segja að fá mál hafi í seinni tíð, a.m.k. þau sem snúa að náttúruvernd, fengið meiri og ítarlegri umfjöllun úti í samfélaginu og það eru fá mál sem samfélagið virðist hafa meiri skoðun á en þetta. Það er vel. Það er afar mikilvægt fyrir okkur öll sem búum í þessu landi að þjóðin sem hérna býr trúi því að náttúruvernd skipti hana einhverju máli og að þjóðin trúi því að þessi samkoma hér, hv. Alþingi, ætli að vera henni bandamaður í að vernda landið, bandamaður þjóðarinnar í að vernda landið og náttúruna og tryggja að við skilum náttúrunni og umhverfinu öllu til komandi kynslóða í sama ástandi og helst betra en við tókum við því. Þetta er grundvallaratriði og skiptir alveg gríðarlega miklu máli.

Í starfi nefndarinnar höfum við tekið á móti miklum fjölda gesta og er rétt að taka fram að gestir sem hafa komið fyrir nefndina hafa verið boðaðir að frumkvæði allra nefndarmanna, held ég að mér sé óhætt að segja. Ég vil þar sérstaklega nefna þátt eins hv. þingmanns úr minni hlutanum, Ásmundar Einars Daðasonar, sem kom með mjög gagnlegar ábendingar um gestakomur sem urðu í vinnslu frumvarpsins til þess að við gerðum afar mikilvægar breytingar að ég tel. Það er rétt að þakka það. Þrátt fyrir að ekki sé það sem einhvers staðar mundi vera sagt 100% samstaða um málið í nefndinni hafa allir nefndarmenn sýnt því áhuga, a.m.k. langflestir, og lagt sitt af mörkum til að málið mætti hafa sem bestan framgang og búa það þannig úr garði að þinginu væri sómi að. Ég geri ráð fyrir að sú ákvörðun hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins að fara fram á það að við gæfum okkur rúman tíma í að ræða þetta mál hér sé lögð fram af góðum hug og í því skyni að þeir geti, eins og aðrir hv. þingmenn, lagt gott af mörkum til að tryggja að þessi lagasetning verði góð og þjóðinni til heilla.

Það er líka mikilvægt, frú forseti, að við höfum það sífellt í huga að náttúruvernd er ekki eitthvert stundarfyrirbæri. Hún er ekki eitthvað sem við dustum rykið af á hátíðisdögum, hún er ekki eitthvað sem við tölum bara um þegar okkur langar til að sýna á okkur mjúku hliðina, heldur er hún eitthvað sem skiptir okkur öll og lífskjör í þessu landi alveg gríðarlega miklu máli.

Við skulum heldur ekki gleyma því, frú forseti, að nú í seinni tíð erum við í æ ríkari mæli farin að framfleyta okkur sem þjóð á náttúrunni. Auðvitað höfum við gert það áður, til að mynda í sambýli við landið í búskap, en nú erum við í æ ríkari mæli farin að selja náttúruna, ef svo má segja, útlendingum til skoðunar. Fólk flykkist til Íslands til að skoða óspjallaða náttúru, til að skoða þær náttúruperlur sem við erum svo heppin að eiga. Það er í sjálfu sér frábært og í rauninni getum við öll sem þjóð verið afar stolt af því. Þá kemur líka á móti að löggjöfin sem snýr að því að vernda þessa sömu náttúru, vernda þessa auðlind, þarf að vera sterk og geta dugað okkur til framtíðar.

Í umræðunni í samfélaginu allra síðustu daga hefur mjög verið rætt um mikilvægi náttúruverndar. Það kom meðal annars fram í ræðum hv. þingmanna við eldhúsdagsumræður í gærkvöldi. Seinast í morgun komu á fundi hv. umhverfis- og samgöngunefndar fram upplýsingar um eina stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, þ.e. Kárahnjúkavirkjun, og þau áhrif sem sú virkjun hafði, hefur haft og mun hafa á náttúru þess svæðis sem sú virkjun er á. Það kom fram hjá þeim sem komu fyrir nefndina að þau umhverfisspjöll sem óhjákvæmilega urðu við framkvæmdina séu óafturkræf að langmestu leyti. Ég hvet hv. þingmenn til að staldra við þá staðreynd. Þetta skiptir máli vegna þess að þau skilaboð sem í því felast hljóta að vera þau að þegar við tökum ákvarðanir sem munu varanlega breyta náttúrunni, eins og í þessu tilfelli skaða náttúruna að einhverju leyti, þurfum við að stíga afar varlega til jarðar og við þurfum að tryggja að sú löggjöf sem þar er að baki hjálpi náttúrunni og komandi kynslóðum til að geta notað og notið landsins, náttúrunnar og gæða hennar. Þetta skiptir gríðarlegu máli, frú forseti.

Það kom einnig fram í máli gesta á fundi umhverfis- og samgöngunefndar í morgun að með því að virða varúðarregluna í 9. gr. frumvarps til náttúruverndarlaga hefði í tilfelli Kárahnjúkavirkjunar og þessara stórframkvæmda fyrir austan verið hægt að afstýra að minnsta kosti einhverjum hluta þess umhverfisskaða sem af þeirri virkjun hlaust. Auðvitað hefði það að einhverju leyti leitt til þess að framkvæmdirnar hefðu orðið öðruvísi en þær urðu, vafalítið ekki eins stórbrotnar, en ég er ekki með þessu að segja að endilega hefði verið horfið frá öllum framkvæmdunum, síður en svo. Við hefðum þó stigið varlegar til jarðar.

Varúðarreglan hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar tekin er ákvörðun, t.d. um skipulag, framkvæmd eða starfsleyfi, án þess að fyrir liggi með nægilegri vissu hvaða áhrif hún hefur á náttúruna skal leitast við að koma í veg fyrir mögulegt og verulegt tjón á náttúruverðmætum. Ef hætta er á alvarlegum eða óafturkræfum náttúruspjöllum skal skorti á vísindalegri þekkingu ekki beitt sem rökum til að fresta eða láta hjá líða að grípa til aðgerða sem geta komið í veg fyrir spjöllin eða dregið úr þeim.“

Þetta er grundvallaratriði í þessari nýju lagasetningu. Á sama hátt eru 6. gr., um almenna aðgæsluskyldu, og ábyrgðarreglan sem kemur fram í 11. gr. afar mikilvægar.

Á fundi hv. umhverfis- og samgöngunefndar komu 56 gestir frá yfir 30 aðilum, nánast alls staðar að af landinu held ég að mér sé óhætt að segja, úr langflestum þeim geirum sem hafa látið sig náttúruvernd og náttúruna einhverju varða. Nefndin fékk yfir 70 umsagnir frá umsagnaraðilum eins og talið er upp í nefndarálitinu. Þar er hlutur náttúruverndar- og umhverfisverndarsamtaka býsna mikill, þáttur útivistarsamtaka og ferðahópa einnig, og enn fremur er ánægjulegt að sjá að í mörgum tilfellum gáfu einstaklingar úti í samfélaginu sig að málinu og notuðu tækifærið til þess að koma að því.

Það er líka mikilvægt, frú forseti, að gleyma ekki að í aðdraganda framlagningar frumvarpsins hafði farið fram mjög mikil vinna og samráð við aðila úti í samfélaginu, m.a. með nefnd sem hæstv. umhverfisráðherra skipaði í nóvember 2009 sem lauk starfi sínu með viðamikilli skýrslu sem hefur verið nefnd hvítbók og kom út í ágúst 2011. Fjölmargir komu að umsögnum vegna þessarar hvítbókar og mjög margt í henni hefur ratað inn í frumvarpið. Það er mikilvægt að það komi fram hér.

Þá er einnig vert að geta þess að í aðdraganda framlagningar þessa frumvarps fór fram í þinginu ítarleg umræða, á síðasta þingi held ég að ég muni rétt, um akstur utan vega sérstaklega. Athugasemdir vegna þess frumvarps og athugasemdir vegna hvítbókarinnar lágu einnig fyrir við afgreiðslu nefndarinnar og umfjöllun. Því er ekki hægt að halda því fram, frú forseti, að hér hafi verið kastað til höndunum á nokkurn hátt, miklu fremur má segja að hér hafi farið fram ítarleg og mikil vinna. Eins og ég kom inn á í upphafi máls míns vil ég þakka nefndarmönnum sérstaklega fyrir það.

Það er kannski rétt að taka það fram áður en ég hef lesturinn, eins og einhvers staðar er sagt, að ég mun ekki lesa nefndarálitið frá orði til orðs. Það er ítarlegt og hv. þingmenn hafa haft þó nokkurn tíma til að kynna sér það. Ég hvet hv. þingmenn til að gera það vegna þess að ákvörðun um breytingu á náttúruverndarlögum þarf að taka að vel ígrunduðu máli.

Helstu breytingar sem settar eru fram í frumvarpinu fjalla um meginreglur umhverfisréttar. Markmiðsákvæði eru núna sett í lagabúning. Það er með skýrari hætti kveðið á um hlutverk stjórnvalda og ábyrgð og verkaskiptingu á milli einstakra stofnana. Ef frumvarpið verður að lögum mun það styrkja stjórnsýslu náttúruverndar, ekki hvað síst á landsbyggðinni.

Staða almannaréttar hefur mjög mikið verið til umræðu og það er kannski eitt af þeim meginmálum sem tími nefndarinnar fór í að ræða og fara yfir. Þar erum við að tala um mjög forn ákvæði í íslenskum rétti en þrátt fyrir að þau séu forn og megi rekja aftur til einnar fyrstu lagasetningarinnar á þjóðveldisöld er þar engu að síður um að ræða réttindi sem okkur Íslendingum hafa þótt afar dýrmæt og þótt vænt um. Rétturinn í kringum þau er styrktur í þessum lögum.

Á móti kemur að með því að styrkja almannaréttinn hefur það sjálfkrafa með einhverju móti áhrif á rétt þann landeigenda og eignarrétt á landi sem undir er. Það er nokkuð ljóst að þegar við tölum um að almenningi eigi að vera frjáls för um land, og einhver á það land, er í almannaréttinum og umgengnisréttinum falin ákveðin skerðing á forræði yfir landi. Til að hv. þingmenn átti sig er rétt að nefna að við erum hér að tala um mjög forn ákvæði í íslenskum rétti.

Í nefndinni var mikið rætt um þetta mál, almannaréttinn. Þetta eru ákvæði í IV. kafla frumvarpsins, þ.e. 18.–30. gr. Þetta eru eiginlegar lykilgreinar í málinu og í 18. gr. segir, með leyfi forseta:

„Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi.“

Þetta er afar mikilvægt. Það sem kom meðal annars fram á fundum nefndarinnar var að þau fornu ákvæði, sem ég leyfi mér að kalla svo, sneru á þeim tíma þegar þau voru sett kannski að stærstum hluta um för gangandi manna og ríðandi. Hin forna hugsun um almannaréttinn, umgengni og för um land kemur ekkert inn á þær breytingar sem hafa orðið að stærstum hluta til á 20. öldinni og svo núna á 21. öldinni, þ.e. að almenningur fer um landið að stórum hluta til á einhvers konar ökutækjum, hvort sem þau eru vélknúin, fótknúin eða með öðrum hætti. Mat nefndarinnar var að taka þyrfti tillit til þess arna og þess vegna er gerð mjög veigamikil breyting á 18. gr. sem hv. þingmenn geta séð í sérstöku skjali, þ.e. að komið er inn á það að taka vélknúna umferð inn í grundvallargreinina í almannaréttinum. Hún er tekin inn í grundvallargreinina, þ.e. inn í 18. gr. frumvarpsins, en skilyrt með þeim hætti eins og þar kemur fram, þ.e. að akandi umferð heyri til almannaréttar á vegum og vegslóðum, frú forseti. Það er grundvallaratriði.

Hv. þingmenn ættu að kannast við þessa hugsun, þ.e. að þarna er í raun verið að tryggja annars vegar þá nútímalegu hugsun að menn fara um landið að stórum hluta til á vélknúnum ökutækjum, það er grundvallaratriði, en akstur slíkra tækja utan vega þarf að vera háður afar skýrum skilyrðum og undanþágur þar frá þurfa að vera skýrar. Það kemur síðan fram í breytingum sem þingnefndin gerir á 32. gr. frumvarpsins sem ég kem inn á hér á eftir.

Það var nokkuð rætt um það, og hv. þingmenn hafa vafalaust heyrt það í umræðunni, að reglur um tjöldun, útivist, umferð og annað slíkt væru að breytast mikið og að í mörgum þeirra reglna væri gengið á rétt landeigenda. Nefndin tekur að mörgu leyti undir athugasemdir þar að lútandi og skýrir lagatextann hvað þetta varðar, til að mynda í 22. og 23. gr., og svo aftur til að mynda í 24. gr., um skipulegar hópferðir. Það var mikið um það rætt í nefndinni að ekki ferðist allir hópar um landið í skipulegum hópferðum, það eru ekkert allir hópar sem fara um landið á vegum ferðaskrifstofa eða rekstraraðila, en það er engu að síður mikilvægt að löggjöfin nái einnig til þessara aðila, að löggjöfin verndi rétt þeirra sem eiga land eða hafa forsjá yfir því á sama hátt og þegar stór hópur einkaaðila, skulum við segja, fer um eða yfir land viðkomandi á sama hátt og þegar um er að ræða einhvers konar atvinnustarfsemi. Þetta er afar mikilvægt.

Í 29. gr. frumvarpsins kemur aftur að mjög mikilvægu atriði, þar er komið inn á það að þeir sem á einhverjum tímapunkti eru beittir hindrunum eða takmörkunum á þessum umferðar- og almannarétti á eignarlandi hafa nú, verði frumvarpið að lögum, leiðir til þess að fá úrlausn sinna mála ef þeir telja á sér brotið. Á sama hátt getur þetta ákvæði styrkt rétt landeigenda í sama tilgangi.

Hv. þingmönnum er vafalítið vel kunnugt um alla þá umræðu sem hefur farið fram í samfélaginu um akstur utan vega og það góða samkomulag sem er í samfélaginu um að akstur utan vega sé nokkuð sem við eigum ekki að líða. Að mínu viti hefur ekki verið mikill ágreiningur um það. Þarna hafa samtök eins og 4x4 og aðrir ferðaklúbbar haft forgöngu um að beita sér fyrir því að til að mynda félagsmenn þeirra virði þær reglur að akstur utan vega sé ekki leyfður nema þá í sérstökum undantekningum eins og kemur fram í frumvarpinu.

Nefndin gerir hins vegar umtalsverðar breytingar á þeim greinum sem snúa að akstri utan vega, m.a. í ljósi þeirra breytinga sem við gerum á 18. gr. Þetta er, hv. þingmenn, afar mikilvægt og ég vísa þar til þeirrar umskriftar sem nefndin leggur til á 31. gr. Hún kemur fram á sérstöku breytingaskjali. Ég ætla ekki að lesa hana upp enda er það langur og ítarlegur texti, en hv. þingmenn sjá að þarna verða allverulegar breytingar á lagatextanum. Það á einnig við um 32. gr.

Eitt af því sem ég vil nefna í þessu er að inn í lagatextann er tekið sérstakt ákvæði um akstur til að mynda bænda og búaliðs á fjórhjólum utan vega. Það skiptir mjög miklu máli. Það er sérstaklega komið inn á þær undanþágur sem lúta að akstri á snjó, ís og jöklum. Svo skiptir ekki hvað minnstu máli að í 31. gr. er komið sérstaklega inn á að undanþáguákvæði vegna aksturs utan vega geti meðal annars átt við um akstur fatlaðra einstaklinga til þess að gera þeim eins og öðrum Íslendingum kleift að njóta náttúrunnar. Slíkt er gríðarlega mikilvægt réttlætis- og mannréttindamál, en þrátt fyrir að við tökum þetta ákvæði inn er áfram mikilvægt að halda því til haga að akstur þessara einstaklinga, þ.e. þegar hann er utan vega, má ekki frekar en akstur annarra valda skemmdum eða óafturkræfum náttúruspjöllum. Þetta skiptir mjög miklu máli, frú forseti.

Gerð kortagrunns sem talað er um í 32. gr. hefur valdið mikilli umræðu í samfélaginu sem er mjög gott vegna þess að eins og ég kom inn á í upphafi skiptir þetta miklu máli og við eigum að láta okkur þetta varða.

Það kom fram í máli gesta að það að útbúa slíkan kortagrunn er, ég ætla ekki að segja tæknilega einfalt en það er að minnsta kosti tæknilega hægt og það er sérstaklega hægt með allri þeirri góðu aðstoð og þeirri góðu vinnu sem útivistarhópar hafa þegar lagt til þess verks. Því mun sá tímarammi sem gefinn er í frumvarpinu til þess að klára kortagrunninn duga ágætlega.

Engu að síður eru lagðar til breytingar á greinunum um kortagrunninn. Til að mynda er tekið fram að slóða með takmarkaða umferð og slóða sem eru beinlínis lokaðir verði líka getið í þessum grunni. Kortagrunnurinn hefur mikið verið ræddur í sambandi við almannaréttinn. Það má í rauninni segja, frú forseti, að mikilsverðustu rökin þar séu þau sem koma fram í breytingartillögu nefndarinnar við 18. gr., þ.e. að gera kortagrunninn að ákveðinni forsendu þess að hægt sé að taka akstur á vélknúnum ökutækjum inn í almannaréttinn. Öðruvísi er að mínu mati ekki með góðu móti hægt að gera þetta. Öll akandi umferð í landinu þarf að vita hvar má keyra og hvar ekki.

Ég nefndi í upphafi ræðu minnar mikilvægi ferðaþjónustunnar á Íslandi og vaxandi mikilvægi hennar sem atvinnugreinar. Það er ekki hvað síst mikilvægt fyrir alla þá fjölmörgu gesti sem við ætlum að fá áfram til Íslands á næstu árum og áratugum til að sýna landið okkar að fyrir liggi mjög nákvæmar upplýsingar um það með hvaða hætti þeim er heimilt að fara um landið. Á sama hátt komu mjög góðar athugasemdir frá kortagerðarfólki um það með hvaða hætti væri hægt að tryggja að til dæmis útgefin kort hefðu tiltekna stöðu, skulum við segja, gagnvart kortagrunninum til að fyrirbyggja það að kort sem væru gefin út stönguðust beinlínis á við kortagrunninn og þær heimildir sem væru til aksturs og umferðar í landinu. Þetta skiptir miklu máli. Því er meðal annars lagt til að við förum þá leið að útgefin kort séu sérstaklega merkt með vísan í kortagrunninn, séu með tiltekna útgáfudagsetningu sem vísar þá í kortagrunninn eins og hann var á þeim tíma þegar kortið var gefið út.

Þetta skiptir miklu máli vegna þess að með þessari leið er hægt að tryggja það, frú forseti, að til að mynda útgefendur korta lendi ekki í því að teljast ábyrgir vegna einhverra tiltekinna brota sem ökumaður eða vegfarandi kann að ráðast í, skulum við segja, á grundvelli einhverra upplýsinga sem lágu ekki fyrir þegar kortið var gefið út. Að þessu sögðu átta hv. þingmenn sig á því að með þessu er jafnframt átt við að kortagrunnurinn verði lifandi fyrirbæri, þ.e. ekki gefinn út í eitt skipti fyrir öll og síðan aldrei meir. Náttúran breytist, landið breytist og það kann að vera að vegir og slóðar sem eru á einhverjum fyrri útgáfum kortagrunnsins kunni að hafa fallið algjörlega úr notkun, árfarvegir breyst o.s.frv. sem gerir það að verkum að þeir verða annaðhvort lokaðir eða með takmarkaða notkun á seinni stigum. Þetta skiptir allt máli og þess vegna þarf kortagrunnurinn að vera lifandi plagg.

Sem slíkur getur hann orðið afar mikilvægt stuðningstæki, ekki bara við staka ferðamenn heldur einnig ferðaþjónustuna í landinu, ég tala nú ekki um fyrir bílaleigur og þá sem leigja ferðamönnum farartæki. Það getur skipt mjög miklu máli.

Frú forseti. Ég hef í fyrri hluta máls míns einbeitt mér aðallega að fyrstu köflum frumvarpsins en mig langar núna að koma aðeins aftur til baka, aftur í skilgreiningarnar þar sem við leggjum til nokkrar breytingar. Þar er til að mynda tekin inn breyting á skilgreiningunni á ræktuðu landi. Breytingarnar þarna eru meðal annars að frumkvæði gesta nefndarinnar og raunar einnig nefndarmanna, þ.e. að 18. töluliður 5. gr. orðist svo:

„Ræktað land: Land sem nýtt er til framleiðslu nytjajurta með íhlutun, svo sem sléttun, þurrkun, áburðargjöf, jarðvinnslu, sáningu eða öðrum ræktunaraðgerðum. Land telst óræktað eftir langvarandi notkunarleysi.“ — Þarna er breytingin. — „Skóglendi telst ræktað land þangað til trén hafa náð þeim þroska að venjuleg umferð sakar ekki.“ — Síðan er önnur breyting. — „Lóð undir frístundahús í notkun telst ræktað land í skilningi laga þessara, samanber lög nr. 75/2008.“

Þetta er mjög mikilvægt og einmitt ábending um þetta kom frá gestum á fundi nefndarinnar. Þetta er meðal annars gert til að tryggja að ekki verði óhóflegur ágangur um sumarbústaðalönd frekar en önnur eignarlönd.

Nefndin gerir einnig tillögu um breytingu á 14. gr. frumvarpsins, grein sem snýr að náttúruverndarumdæmum. Við teljum ekki að það að bæta náttúrverndarumdæmunum inn styrki stjórnsýslu náttúruverndar með þeim hætti sem hefði kannski mátt ætla af tillögugreininni og leggjum því til að hún falli brott. Það var einnig tekið fram í breytingartillögu við 15. gr. að þar er tekið inn að nokkru leyti, og raunar víðar í frumvarpinu, hlutverk náttúrustofa sem eru víða um landið, á átta plús einum stað. Þær athugasemdir sem komu frá forsvarsmönnum þeirra eru að nokkru leyti teknar til greina enda er starfsemi slíkra stofa afar mikilvæg. Þær skipta mjög miklu máli í héraði.

Áfram með nefndarálitið. Það urðu nokkrar umræður um náttúruminjaskrá, friðlýst svæði og sérstaka vernd, þ.e. þau ákvæði sem koma fram í VI.–IX. kafla frumvarpsins. Um þetta varð töluverð umræða í nefndinni og ég held að mér sé óhætt að segja að utan úr samfélaginu hafi komið allnokkrar athugasemdir og orðið umræður um þennan kafla. Eins og sést á breytingaskjalinu gerir nefndin þá mikilvægu breytingartillögu, sem skiptir hv. þingmenn væntanlega mjög miklu máli, að það verði þingið sem tekur ákvarðanir, að Alþingi taki ákvarðanir um náttúruverndaráætlun, hún verði til umræðu í þinginu sem þingsályktunartillaga. Þetta skiptir mjög miklu máli. Að þessu leyti til er þetta kannski veigamesta breytingin sem nefndin gerir á þessum köflum.

Það er einnig lögð til breyting á ákvæðum sem koma fram í 37. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um réttaráhrif skráningar minja á náttúruminjaskrá. Breytingar nefndarinnar eru kannski fyrst og fremst til skýringar, eru ekki grundvallarbreytingar á lagatextanum en skipta engu að síður máli.

Það er mikilvægt að það komi fram í sambandi við þá umræðu sem hefur farið fram um friðlýsingarkaflana og ákvæði hans að langstærsti hluti þessara ákvæða er þegar í eldri útgáfum náttúruverndarlaga með einhverjum hætti og að þessu leyti til er ekki um grundvallarbreytingar að ræða. Engu að síður fór fram afar mikil umræða um þetta í nefndinni og hjá umsagnaraðilum og eins og raunar kemur fram í breytingartillögunum eru þær breytingar sem nefndin leggur til á þessum greinum frekar tiltekt en að þær séu einhverjar meiri háttar breytingar.

Þá erum við komin að framandi tegundum. Menn hafa mikið rætt þær, bæði í þinginu og úti í samfélaginu. Það hefur verið rætt um hvort til að mynda kartaflan eigi að teljast framandi tegund vegna þess að hún hafi ekki komið inn í íslenskt lífríki fyrr en á 19. öld. Auðvitað er það ekki svo vegna þess að kartöflur, nytjajurtir, garðávextir og þess háttar njóta annarrar skilgreiningar og eru þar af leiðandi ekki í skilningi laganna framandi tegundir. Það stóð aldrei til. Ástæðuna fyrir því ártali sem hefur nokkuð verið til umræðu og var sett inn í lagatextann, þ.e. 1750, telur nefndin fyrst og fremst koma til af því að við vorum ekki með mjög ítarlegar upplýsingar um náttúrufar og náttúruvernd í landinu fyrir þann tíma. En til þess að menn fari ekki að hengja sig í eitthvert tiltekið ártal gerir nefndin þá breytingartillögu að talað sé um miðja 18. öld í lögunum fremur en að tiltaka eitthvert sérstakt ártal.

Í sambandi við sérstakar greinar sem að þessu lúta er í 63. gr. bætt við túnræktarplöntum sem snúa að undantekningarákvæði um framandi tegundir enda hljóta þær að hafa fallið út af vangá.

Í 67. gr. er fjallað um aðgerðir vegna ágengra framandi lífvera og þar leggur meiri hlutinn til að Umhverfisstofnun verði veitt skýr lagaheimild til að semja um slíkar aðgerðir við sveitarfélög og félagasamtök. Ég held að þetta sé líka afar mikilvægt.

Varðandi skipulag og stjórnsýslu eru ekki grundvallarbreytingar á textanum en hins vegar er í frumvarpinu, ekki síst í þessum kafla, leitast við að styrkja það samband sem er á milli annars vegar skipulagsvalds sveitarfélaga og hins vegar náttúruverndarlaga. Það skiptir náttúrlega máli og þarna er einnig komið inn á tengsl við orkunýtingaráætlun og rammaáætlun.

Ég var búinn að nefna náttúruverndarumdæmin en hvað varðar náttúruverndarnefndirnar sérstaklega er í rauninni hlutverk þeirra þegar til í sveitarstjórnarlögum og sú breyting sem við leggjum til á þessum ákvæðum er fyrst og fremst til að skýra þetta. Auðvitað er sveitarfélagi áfram í sjálfsvald sett að fela hvaða nefnd sem er innan þess að sinna náttúruvernd og umhverfismálum en hins vegar er þarna ítrekað að þessi verkefni þurfa að vera hjá sveitarfélögunum og þau þurfi að sinna þeim en þeim er vissulega í sjálfsvald sett hvaða nefnd innan viðkomandi sveitarfélags er falið verkið.

Nokkuð hefur verið rætt um reglugerðir og reglugerðarákvæði og segja má að þessi lög séu þannig úr garði gerð að það sé alveg nóg af reglugerðarheimildum í þeim. Eðli málsins samkvæmt er það að mínu viti ekkert skrýtið þar sem við erum að tala um náttúruna, mjög fljótandi eða „plastískt“ fyrirbæri, þ.e. mjög breytilegt, og þess vegna er ekkert óeðlilegt að það þurfi að vera einhvers konar heimildir og möguleiki á viðbrögðum frá ráðherra til að bregðast við. Nefndin telur hins vegar enga ástæðu til að hafa eitt opið reglugerðarákvæði, algjörlega óútfylltan tékka eins og var í 95. gr. frumvarpsins. Við leggjum því til að hún falli út, því sé bara lokað, það sé ekki einhver opin reglugerðarheimild í þessari grein.

Varðandi refsiákvæði er það í mörgum greinum frumvarpsins og eins og kemur fram í breytingaskjali er það skýrt. Það kom fram eftir ágætar ábendingar frá embætti ríkissaksóknara og nefndin leggur til breytingar í samræmi við þær ábendingar.

Varðandi kostnaðinn sem talað er um til að mynda í seinustu greinum frumvarpsins, sérstaklega 93. gr., veljum við hreinlega að taka þau ekki til sérstakrar umfjöllunar annarrar en þeirrar sem fór fram á nefndarfundunum. Það kunna vel að vera og eru algjörlega gild sjónarmið sem koma fram í því máli varðandi til að mynda það með hvaða hætti megi taka gjald af þeim sem njóta náttúrunnar, með hvaða hætti þeir sem hafa forræði yfir náttúruperlum megi taka gjald fyrir að sýna þær eða nota. Þessi ákvæði eru hins vegar að grunninum til komin úr lögunum frá 1999 og nefndin valdi þess vegna að taka ekki þá umræðu aftur núna sérstaklega en auðvitað er þess getið í nefndarálitinu.

Varðandi þau atriði sem koma fram í kaflanum Einstök önnur atriði í nefndarálitinu ætla ég ekki að tíunda þau nema hv. þingmenn fari sérstaklega fram á það í andsvörum. Ræða mín er þegar orðin alllöng og vafalítið á köflum fullítarleg. En eins og ég gat um í upphafi máls míns erum við hér að tala um alveg gríðarlega mikilvægt mál. Við erum að tala um mál sem snýr að framtíð okkar allra í þessu landi og þess vegna skiptir það máli.

Ég á einn ágætan vin í stjórn einnar hreppsnefndar hér suður frá sem talar stundum um að klukka mál, sem kallað er, og á þá við að nefna sérstaklega einhverja tiltekna þætti og sérstök tiltekin atriði. Ég ætla í lok máls míns að nefna örfá svoleiðis mál sem við getum kallað smámál en þau eru samt mjög stór.

Það er í fyrsta lagi það að nefndin telur að hjólhestar og reiðhestar eigi ekki heima í sömu greininni., þ.e. að þetta sé eiginlega ekki að neinu leyti skyld umferð og að þess vegna sé rétt að búa um þessa tvo ferðamáta, skulum við segja, hvorn í sinni lagagreininni. Við leggjum til breytingu í þá veru.

Það er líka rétt að koma inn á atriði eins og berjatínslu, tínslu kræklinga eða skeldýra og annars sem nefndin kemur aðeins inn á og við tölum lítillega um. Í núverandi lögum er, og verður áfram í þessum lögum, almenn heimild um að menn geti tínt ber og nytjajurtir sér til skemmtunar eða matar á vettvangi en hins vegar höldum við áfram í þau ákvæði sem hafa verið mjög lengi í lögum, að ætli menn að tína ber eða sveppi á eignarlandi í byggð til sérstakra nota, ég tala nú ekki um að hafa af því atvinnustarfsemi eða eitthvað þess háttar, þurfi náttúrlega að leita leyfa og heimilda til slíks. Þetta er afar mikilvægt.

Frú forseti. Ég læt máli mínu lokið. Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi, hér er um gríðarlega mikilvægt mál að ræða. Ég fagna því að þingmenn sýni málinu svo mikinn áhuga að þeir telji fulla ástæðu til að ræða það ítarlega og fá tækifæri til, a.m.k. í framsögum sínum eða nefndarálitum, að taka sér góðan tíma til þess. Ég hef, eins og hv. þingmenn hafa tekið eftir, nýtt mér það ágætlega vel í ræðu minni en læt nú máli mínu lokið með því að hvetja þingheim eindregið til að kynna sér málið vel, fara vel yfir það og taka að því loknu upplýsta ákvörðun um að færa þjóðinni ný náttúruverndarlög.