141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[12:13]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Aðeins varðandi kostnaðarþáttinn, ég held að það sé nauðsynlegt að menn átti sig betur á þeim þætti máls. Þessi kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofunnar er dálítið sundurlaus og ég held að það fari eftir samhenginu hvort maður metur 100 milljónir úr ríkissjóði mikil eða lítil útgjöld. Ég tel það gríðarlegar fjárhæðir, en ég held að nauðsynlegt sé að kalla eftir því að það verði farið í gegnum þennan þátt málsins. Ég saknaði þess í máli hv. framsögumanns þannig að ég hvet hann til þess að fara í örstuttu máli yfir það síðar í ræðu, þótt ekki sé annað.

Jafnframt óska ég eftir því við hann að hann taki saman í slíkri ræðu það sem stendur út af í þeim gagnrýnisatriðum sem fram hafa komið á frumvarpið og nefndin hefur ekki treyst sér til að mæta í meðferð sinni um það frumvarp sem hún fékk til umfjöllunar. Ég held að það væri gagnlegt fyrir okkur líka að fá yfirlit yfir það (Forseti hringir.) hvaða þættir það eru sem standa út af (Forseti hringir.) í vinnu nefndarinnar.