141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[12:15]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er tvennt sem mig langar að spyrja hv. þingmann um og biðja hann að bregðast við. Hann gat þess í ræðu sinni að mikill undirbúningur hefði verið og víðtækt samráð og mig langar að leita viðbragða hjá hv. þingmanni um til að mynda það sem kemur fram í umsögn frá Landssambandi veiðifélaga. Þar eru gerðar alvarlegar athugasemdir við það samráðsleysi sem var haft við hagsmunaaðila við smíði frumvarpsins.

Síðan kemur líka fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem er hitt stjórnsýslustigið, að það hafi komið á framfæri þeirri gagnrýni og athugasemd að við skipun svokallaðrar endurskoðunarnefndar sem hv. þingmaður nefndi hafi það ekki átt sæti í þeirri undirbúningsnefnd.