141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[12:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er alveg rétt að þessi skilgreining kemur fram annars staðar. En ég held að það væri mikilvægt strax við orðaskilgreiningarnar að taka þetta inn í umræðuna um ræktað land eða þá að breyta skilgreiningunni í að verið væri að tala um nytjaland eða land sem væri nytjað og víkka þannig út skilgreininguna.

Aðeins að öðru sem hefur talsvert verið komið inn á. Sú gagnrýni hefur meðal annars komið fram á þetta frumvarp að verið sé að færa Náttúrufræðistofnun aukin völd og aukin verkefni. Það sjónarmið hefur heyrst að einhver verkefnin ættu að vera hjá Umhverfisstofnun sem eru færð yfir til Náttúrufræðistofnunar. Þau sjónarmið hafa líka heyrst hjá náttúrustofum að verið sé að skrifa þær út úr frumvarpinu. Meiri hlutinn tekur tillit til þess og vitnar til minnisblaðs frá Náttúrufræðistofnun þar að lútandi. Mig langaði bara að ítreka og spyrja hv. þingmann hvort hann telji að engin þessara gagnrýnisradda eigi við rök að styðjast, þ.e. að við séum að flytja fleiri verkefni (Forseti hringir.) yfir til Náttúrufræðistofnunar en hún í raun ætti að sinna samkvæmt skilgreiningu laga hvað varðar Náttúrufræðistofnun og almenn stjórnsýslulög.