141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[13:30]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um náttúruvernd við 2. umr. Í fyrstu held ég að rétt sé að segja að þetta er gríðarlega stórt mál og tekur til margra ólíkra þátta. Eru mjög ólík sjónarmið uppi um einstaka þætti frumvarpsins. Ég held að það sé ágætt að segja strax í upphafi að formaðurinn, hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson, hefur haldið vel um starfið í nefndinni og þrátt fyrir skiptar skoðanir um einstaka þætti hefur formaðurinn tryggt að mikill fjöldi gesta hefur komið fyrir nefndina og hefur alla jafna orðið við þeim beiðnum sem meðal annars sá sem hér stendur hefur lagt fram um gesti. Með smávægilegum undantekningum held ég að hægt sé að segja að undir formennsku hv. þingmanns hafi starfið í nefndinni verið ágætt.

Ég held að líka sé ágætt að fara yfir það í upphafi að náttúruvernd er okkur öllum gríðarlega mikilvæg. Sá sem hér stendur er mikill áhugamaður um útivist og er mikill náttúruunnandi. Ég er mikið úti í náttúrunni. Þetta er mál sem snertir okkur öll, hvernig því er háttað almennt og hvernig haldið er á þessum málum til framtíðar. Það er gríðarlega mikilvægt að við Íslendingar sem erum auðlindarík þjóð, fámenn þjóð í stóru landi, hugum að því hvernig við höldum á landgæðum okkar og auðlindum. Frumvarp eins og þetta er gríðarlega mikilvægt í því efni og einnig gildandi náttúruverndarlög. Markmiðið með lögum um náttúruvernd sem þegar eru í gildi er það að reyna að taka tillit til ólíkra sjónarmiða, mynda um þau sátt og tryggja að þróun náttúrunnar sé sjálfbær, að við göngum ekki á auðlindir og að við getum umgengist náttúruna, allir hafi að henni aðgang o.s.frv.

Fram hefur komið gagnrýni, gerði það strax við vinnslu málsins í nefndinni, bæði á það hvernig þetta frumvarp var unnið og eins málið sjálft, að ekki hafi verið kallað eftir ólíkum sjónarmiðum í þessu efni. Frumvarpið var unnið í of þröngum hópi og margir umsagnaraðilar sem komu fyrir nefndina gagnrýndu það og sögðu að koma hefði mátt í veg fyrir ákveðna þætti bæði varðandi almennan misskilning og eins hefði verið hægt að mynda breiðari sátt um aðra þætti ef fleiri hefðu verið kallaðir að borðinu. Þetta kom fram hjá umsagnaraðilum á borð við útivistarfélög, 4x4, hagsmunasamtök o.fl. Það kemur fram í þessu frumvarpi að það byggi á svokallaðri hvítbók sem skilað var hér á sínum tíma og þá kom einmitt fram sambærileg gagnrýni hjá mörgum umsagnaraðilum á aðdraganda og vinnslu þeirrar hvítbókar. Ég held að það sé rétt að það komi fram við umræðu um málið að þessi gagnrýni kom svo sannarlega fram hjá mörgum umsagnaraðilum og gestum nefndarinnar.

Raunar kom líka fram hjá sumum gesta nefndarinnar að oft og tíðum hefðu þeir haft á tilfinningunni að það hefði verið boðað einhvers konar samráð eða umsagnir eða annað því um líkt en það væri ekki raunverulegur vilji til þess að beita samráði eða leita eftir því að ná víðtækri sátt, þetta hefði verið einhvers konar sýndarsamráð í aðdraganda þessa máls eins og sumir gestir orðuðu það. Ég hef það bara eftir þeim hér. Vissulega kann það í einhverjum tilvikum að vera vegna þess að til athugasemda einstakra aðila hafi ekki verið hægt að taka tillit. En vegna þess hversu margir gestir nefndarinnar komu inn á þetta held ég að full ástæða sé til þess að velta því upp hvort það eigi ekki að einhverju leyti við rök að styðjast. Í rauninni kom það fram í máli margra gesta að þeir teldu eðlilegt að málið yrði unnið aftur og fleiri aðilar kallaðir að borðinu vegna þess að það væru svo fjölmörg atriði í þessu máli sem þyrfti að taka til skoðunar.

Helstu ágreiningsatriði sem komu fram við vinnslu málsins hafa snúið að ákvæðum um almannarétt og akstri utan vega. Einnig hefur verið gagnrýni á frumvarpið um ákvæði sem snerta framandi tegundir og eins það samráðsleysi sem ég kom inn á áðan. Í nefndaráliti 1. minni hluta kemur fram að það sé mikilvægt að leggja ríka áherslu á náttúruvernd. Við getum tekið undir markmið laganna, bæði stóran hluta af markmiðsgreinum frumvarpsins eins og þær liggja hér fyrir og síðan markmiðsgrein gildandi laga um náttúruvernd.

Við ítrekum í nefndaráliti okkar að það er mikilvægt að sem flestir komi að breytingum á náttúruverndarlögum, að þau séu skýr og taki til ólíkra sjónarmiða. Ég held að það sé líka rétt í upphafi áður en ég fer ítarlegar í nefndarálitið að segja að fjárlagaskrifstofa fjármála- og efnahagsráðuneytisins bendir á að kostnaður við frumvarpið geti verið allmikill. Það er líka rétt að benda á að stofnun eins og Náttúrufræðistofnun Íslands taldi í minnisblöðum og við vinnslu málsins í nefndinni að hún þyrfti meira fjármagn en gert er ráð fyrir í umsögn fjármálaráðuneytisins.

Fyrsti minni hluti leggur til, og ég mun rökstyðja það betur á eftir, að þetta mál verði ekki samþykkt á yfirstandandi þingi, að málið verði unnið betur og tekið mið af þeim fjölmörgu athugasemdum sem borist hafa. Það hefur verið tekið mið af mörgum athugasemdum, eins og hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson kom inn á áðan, en engu að síður eru stór og veigamikil atriði sem 1. minni hluti telur mikilvægt að tekið sé tillit til.

Ég ætla að byrja á því að fara aðeins yfir ýmsar orðaskilgreiningar sem koma fram í frumvarpinu og gegna mikilvægu hlutverki í málinu sjálfu vegna þess að þær hafa áhrif á það hvaða ákvarðanir eru teknar. Ég bendi líka á að það er gríðarlega mikilvægt að lagasetningin sé skýr og skili tilsettum árangri, sérstaklega og ekki hvað síst lög um náttúruvernd. Við bendum líka á að almennt við lagasetningu er mikilvægt að draga úr óskýrleika vegna þess að slíkt leiði ávallt til ágreinings og færi dómstólum þar af leiðandi aukin völd.

Ég ætla að byrja á því sem hefur verið töluvert til umræðu og kom líka fram hjá hv. þingmanni áðan, formanni nefndarinnar, umræðunni um ræktað land. Í frumvarpinu eins og það kom fram í upphafi fól skilgreiningin á ræktuðu landi það í sér að eldri tún voru í raun óræktað land og stór hluti af túnum bænda var í raun ekki skilgreindur sem ræktað land. Það er kannski hægt að bæta við í tengslum við þetta að meðal annars forsvarsmenn bænda komu fyrir nefndina og sögðu að fyrir svona lagað hefði verið hægt að girða ef eitthvert samráð hefði verið við vinnslu málsins. Þeir bentu á að það gæti tæplega hafa verið markmið framkvæmdarvaldsins og ríkisstjórnarinnar að leggja fram frumvarp sem gerði það að verkum að stór hluti af túnum bænda væri orðinn skilgreindur sem óræktað land. Meiri hluti nefndarinnar hefur gert tilraun til þess að skilgreina hugtakið ræktað land en þessi skilgreining er að mati 1. minni hluta á engan hátt fullnægjandi.

Vissulega eru til landsvæði, tún, engjar, mýrar og önnur svæði sem ekki hafa verið ræktuð en samkvæmt skilgreiningunni í breytingartillögu meiri hlutans er óræktað land það sem aldrei hefur verið sléttað, þurrkað, fengið áburðargjöf, jarðvinnslu eða sáningu. Þrátt fyrir að þetta land flokkist ekki undir þetta, hafi ekki fengið áburðargjöf eða véltæka meðferð, verið sléttað eða þurrkað, getur það verið nýtt mjög þétt til beitar fyrir búfénað, t.d. hross eða nautgripi. Ég nefni nautgripa- eða hrossagirðingar. Það ætti að mati 1. minni hluta að flokkast sem ræktað land eða land í notkun. Í frumvarpinu er til dæmis heimiluð tjöldun almennings til skamms tíma á slíkum landsvæðum sem flokkast sem ræktað land.

Við horfum upp á vaxandi túrisma á landinu og gestir nefndarinnar tjáðu okkur meðal annars áhyggjur af því að ferðamenn eru farnir að ganga inn í stóðhestagirðingar sem flokkast þá óræktað land samkvæmt lögunum og geta jafnvel dvalið þar. Það getur einfaldlega verið stórhættulegt. Það er gríðarlega mikilvægt að þessar skilgreiningar séu nákvæmar vegna þess að síðan er verið að nota þetta alls staðar í lagafrumvarpinu.

Það væri margfalt skynsamlegra að tala um nytjaland eða land sem ekki er nytjað því að land sem er nytjað getur verið í fullri notkun með þéttri búfjárbeit þrátt fyrir að það sé ekki slegið eða borið á það eða búið að slétta það eða ræsa það fram með vélum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að skoða þetta frekar.

Síðan eru fleiri skilgreiningaratriði í frumvarpinu og raunar í gildandi náttúruverndarlögum sem maður hefði talið skynsamlegt að skoða samhliða þessu. Það er til dæmis orðið steind. Í frumvarpinu og í gildandi náttúruverndarlögum er orðið skilgreint sem fast efni með ákveðna samsetningu sem finnst sjálfstætt í náttúrunni og hefur ekki orðið til af mannavöldum. Þessi skilgreining er einfaldlega út frá öllum skilgreiningum í náttúrufræði röng því að steind er alltaf steind, alveg sama hvernig hún hefur orðið til. Það er óeðlilegt að mati 1. minni hluta að setja skilgreiningu inn í lagatexta um annað.

Til eru iðnaðardemantar, gler, ýmsir kristallar og margt fleira sem vissulega telst til steinda þótt þær hafi verið gerðar af mannavöldum. Ef slíkt eru ekki steindir hlýtur maður að spyrja hvað það sé þá. Þær eru ekki gerðar af mannavöldum en þær eru engu að síður steindir. Borðsalt getur til að mynda ýmist verið náttúrulegt eða gert af mannavöldum. Er það þá steind eða ekki? Það er mikilvægt í lagatexta eins og þessum að þessi atriði séu skýr vegna þess að síðan er vitnað til þessara þátta annars staðar í frumvarpinu. Ég tek fram með til að mynda þetta orð, steind, að það er túlkað í lögum um náttúruvernd eins og þau eru í dag. Því er haldið óbreyttu.

Samkvæmt skilgreiningu, bæði í frumvarpinu og gildandi lögum, nr. 44/1999, er „steingervingur“ skilgreindur sem leifar eða steingerðar leifar lífveru eða för eftir hana sem finnast í jarðlögum. Ef við skoðum þetta betur er skeljasandur skilgreindur sem steingervingur samkvæmt frumvarpinu og í 62. gr. frumvarpsins og í 40. gr. gildandi náttúruverndarlaga er lagt bann við því að fjarlægja steingervinga úr jarðlögum, hvort sem er á landi eða í sjó, nema slíkt sé gert í þágu jarðfræðirannsókna. Það er mikilvægt að þessu ákvæði sé breytt og það yfirfarið, hvort sem það er í gildandi náttúruverndarlögum eða frumvarpinu. Ég bendi til að mynda á að það er algengt í landbúnaði að menn sæki skeljasand og beri hann á tún til þess að lækka sýrustig í þeim. Með þessu frumvarpi erum við að skilgreina skeljasand sem steingervinga sem gerir það að verkum að það má ekki fjarlægja þá úr fjörum nema í rannsóknartilgangi.

Síðan er „tegund“ skilgreind í frumvarpinu sem ákveðinn hópur lífvera sem afmarkaður er samkvæmt líffræðilegum viðmiðum. Í raun á orðið tegund ekki eingöngu við um lífverur, sérstaklega ekki í lögum um náttúruvernd því að þau lög snúast ekki eingöngu um lífverur, þau snúast líka um jarðfræði, jarðlög og annað því um líkt. Til dæmis eru til margar bergtegundir og margar tegundir steinda til viðbótar við steingervinga og leifar lífvera sem skiptast í tegundir þótt þær séu ekki afmarkaðar samkvæmt líffræðilegum viðmiðum eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Steindir og bergtegundir eru aldrei afmarkaðar samkvæmt líffræðilegum viðmiðum, heldur til dæmis eftir því hvar þær finnast, aldri, útliti o.s.frv. Þeim er síðan skipt niður í tegundir.

Í athugasemdum með frumvarpinu er þetta ekkert skýrt frekar og tengist síðan inn í aðrar skilgreiningar í frumvarpinu, eins og búsvæði þar sem vitnað er til tegunda.

Síðan hefur annað verið talsvert í umræðunni, bæði í nefndinni og úti í samfélaginu, og hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson kom jafnframt inn á það, þ.e. framandi lífverur. Hv. þingmaður vitnaði til þess að meiri hlutinn hefði gert breytingartillögur við þetta, upphaflega hafi verið miðað við lífverur sem fluttar hafa verið til landsins eftir árið 1750 en því síðan breytt í miðja 18. öld til að hafa það opnara. Í sjálfu sér er sú breyting af hinu góða en bent hefur verið á, bæði í nefndinni og eins í áliti meiri hlutans, að hreindýr voru flutt til landsins 1777 og þau sem nú lifa fyrir austan voru upphaflega flutt til landsins 1787. Það er spurning með þessar skilgreiningar og það vaknar líka frekari spurning um hvort ekki þurfi að skilgreina þetta betur þegar það er sett fram sem skilgreining á framandi tegund að hún hafi flust til landsins af völdum manna.

Við getum tekið dæmi af fugli sem flýgur til landsins eftir 1750, þá er hann samkvæmt ákvæðinu ekki framandi tegund en ef sami fugl kæmi með skipi er hann orðinn það. Þetta er óheppilegt og kallar á að þarna sé kallað eftir fleiri aðilum að borðinu til að vinna þessar skilgreiningar. Í mörgum umsögnum eru þessar grunnskilgreiningar frumvarpsins gagnrýndar mjög.

Varðandi hugtakið „óbyggðir“ vantar sárlega inn stærðarmörk og nánari skýringar. Samkvæmt þessu orði, í það minnsta eins og sá sem hér stendur skilur það, væri Vatnsmýrin óbyggt svæði vegna þess að mannvirki eru þar lítt áberandi. Hið sama mætti segja um Elliðaárdal, Heiðmörk, Geldinganes og fleiri svæði sem engum dettur í hug að kalla óbyggðir. Óbyggðir eru í almennum skilningi stór landsvæði fjarri byggðu bóli og þrátt fyrir breytingartillögu sem meiri hlutinn leggur fram við málið þar sem „ósnortnu víðerni“ í gildandi náttúruverndarlögum er breytt í „óbyggð víðerni“ breytir það ekki neinu um mikilvægi þess að skilgreina „óbyggðir“ betur. Það breytir engu um það sem var tekið fram hér áðan. Þetta er mikilvægt og ég ítreka það aftur vegna þess að í frumvarpinu sjálfu er alls staðar fjallað um hin og þessi mál sem tengjast ákveðnum heimildum og flokkunum og hinu og þessu gagnvart svæðum sem flokkast undir óbyggðir.

Annað hugtak sem er í frumvarpinu og ekki í gildandi lögum er ný skilgreining á „náttúruminjum“. Skilgreiningin á þeim samkvæmt frumvarpinu er náttúrufyrirbæri sem ákveðið hefur verið að vernda með friðlýsingu, friðun eða með öðrum hætti eða sem tekin hefur verið afstaða til að rétt sé að vernda.

Ef við tökum orðið náttúruminjar fellur sú skilgreining, a.m.k. að mati þess sem hér stendur, ekki að almennum skilningi á orðinu í íslensku máli. Orðið er notað yfir almenn náttúrufyrirbrigði, hvort sem þau eru vernduð eða ekki. Ef við sjáum í öðru lagi hvar þessu orði bregður fyrir og er notað í tengslum við til að mynda aðrar stofnanir og lagatexta er til dæmis í „náttúruminjasafni“ allt annar skilningur lagður í orðið náttúruminjar en gert er í þessu frumvarpi til laga um náttúruvernd. Þá er átt við gripi sem eru fengnir úr náttúrunni eða sem tengjast henni á einn eða annan hátt. Það getur ekki talist eðlilegt að sama orð hafi mismunandi merkingar eftir mismunandi lagabálkum.

Ef sú skilgreining yrði lögfest að náttúruminjar fælu þetta í sér mætti skilja orðið náttúruminjasafn sem stofnun sem hafi það hlutverk að safna og varðveita náttúrufyrirbrigði sem ákveðið hefur verið að vernda með friðlýsingu. Þessar skilgreiningar skipta gríðarlega miklu máli og þetta er ný skilgreining sem er núna inni í þessu frumvarpi en ekki í gildandi lögum um náttúruvernd.

Skilgreiningin á „þéttbýli“ hefur verið gagnrýnd aðeins af umsagnaraðilum sem hafa sent inn umsagnir um þetta mál. Í frumvarpinu er það skilgreint sem svæði sem er afmarkað með sérstökum merkjum sem tákna þéttbýli og/eða svæði sem fellur undir skilgreiningu skipulagslaga á hugtakinu. Það væri mjög heppilegt ef notuð væri skilgreining skipulagslaga á hugtakinu á orðinu þéttbýli og margir aðilar bentu á það í umsögnum sínum, m.a. Vegagerðin, að það væri skynsamlegt að notast við þá skilgreiningu. Það getur varla talist nóg að setja upp skilti til að afmarka þéttbýli.

Síðan eru nokkur orð í frumvarpinu sem væri mikilvægt að setja inn skilgreiningar á en sem eru hvorki skilgreind í frumvarpinu né í gildandi náttúruverndarlögum, t.d. „vötn“. Það orð kemur fram í frumvarpinu og það vantar algjörlega skilgreiningu á því. Í almennu máli geta vötn bæði átt við straumvötn og stöðuvötn en líka við lindir og volgrur og annað því um líkt. Þá hlýtur að þurfa að skilgreina það ítarlegar.

Síðan er það „vöktun“ sem er notað mjög víða í frumvarpinu, m.a. í 74. gr. Það þarf að vera skýrt nákvæmlega að mati 1. minni hluta hvað felst í orðinu vöktun vegna þess að það er meðal annars verið að fela ákveðnum stofnunum að vakta land.

Það eru gerðar breytingar á þeim kafla sem snýr að „skipgengu vatni“ í breytingartillögum meiri hlutans en engu að síður er óljóst hvað skipgengt vatn þýðir. Það er full ástæða til að skilgreina það í lögum. Hvernig skip er átt við og hvaða stærð? Er átt við að skip þurfi að geta siglt upp í vatnið eða er nóg að skip geti siglt á vatninu sé það flutt á staðinn?

Það er mikilvægt í þessu máli að þessar skilgreiningar liggi nákvæmlega fyrir til að forðast mistúlkun.

Svo er annað, ég kom í upphafi inn á skilgreininguna á ræktuðu landi. Ég held að það sé ekki síður mikilvægt að skilgreina „óræktað land“. Að mati 1. minni hluta er ekki nóg að segja að allt land sem er ekki ræktað sé óræktað. Það má líka velta fyrir sér og tengja, sem ég kom inn á áðan, hvort þá væri kannski skynsamlegra að nota hugtökin „nytjaland“ og „land sem er ekki nytjað“ en „ræktað“ og „óræktað“. Þetta held ég að sé nokkuð sem við eigum að skoða og það er mikilvægt að í frumvarpinu sé skilgreining á þessu vegna þess að við getum ekki sagt að samkvæmt skilgreiningunni á ræktuðu landi sem er gríðarlega þröng eins og ég kom inn á áðan sé hægt að segja að allt land sem ekki er ræktað sé þá bara óræktað. Þetta er mikilvægt, m.a. vegna þess að í öðrum ákvæðum frumvarpsins er síðan fjallað um ýmsar heimildir sem þetta snerta, umferð um þessi svæði, heimildir til að dvelja á þessum svæðum, til að fara um þau á vélknúnum ökutækjum o.s.frv. Þessar grundvallarskilgreiningar eru mjög mikilvægar. Í ljósi þess að þetta er frumvarp sem byggir á gömlu lögunum eru mjög mörg ný skilgreiningarhugtök í því sem er full ástæða til að fara betur yfir að mati 1. minni hluta.

Þá ætla ég að fara aðeins yfir það sem snýr að akstri utan vega. Í upphafi vil ég segja að 1. minni hluti er fylgjandi því að í gildi séu skýrar reglur um akstur utan vega og hefur bæði á þessu þingi og því síðasta lýst fullum vilja til samstarfs í þá veru að tryggja að svo megi verða. Hann hefur einnig gert það við vinnslu þessa máls. Við höfum hins vegar lagt áherslu á að slíkt sé vel útfært, gangi upp bæði lagalega og í framkvæmd.

Við höfum líka lagt áherslu á það að allar undanþágur fyrir akstri utan vega vegna atvinnustarfsemi, björgunarstarfa og fleiri þátta séu skýrar. Við höfum viljað sjá það í lagatexta en að það sé ekki í reglugerðarheimildarformi eins og er í gildandi náttúruverndarlögum. Margir umsagnaraðilar og gestir sem hafa komið fyrir nefndina hafa gagnrýnt það að í lagatexta séu ekki skýr ákvæði um undanþágur vegna aksturs utan vega. Fjölmargir aðilar þurfa starfs síns vegna að aka utan vega og yfirleitt er um að ræða akstur á léttum fjórhjólum sem skemma ekki land sé þeim ekið af skynsemi og yfirvegun. Allt snýr þetta að því hvernig þeir sem stýra þessum tækjum fara um. Það er mikilvægt að þessar undanþágur séu skýrar og samdar í samráði við þá aðila sem málið varðar. Það er viðurkennt bæði í frumvarpinu og gildandi náttúruverndarlögum af meiri og minni hluta nefndarinnar. Sú hefur því miður ekki verið raunin og 1. minni hluti telur að það þurfi að gera breytingar á þessu. Þessi þáttur, akstur utan vega, var til umræðu á síðasta löggjafarþingi og nefndin var þá komin langleiðina með að setja þessar undanþágur inn í lagatextann en ekki í reglugerðarform. Þess vegna er svolítið sérstakt að í frumvarpi til laga um náttúruvernd sem tekur til miklu fleiri og stærri þátta sé ekki tekið tillit til þessara þátta sem þingið var búið að vinna í á síðasta löggjafarþingi. Þegar maður skoðar síðan tillögur meiri hluta nefndarinnar er ýmislegt við þær að athuga sem kallar á það að allir aðilar séu kallaðir að borðinu ef það á að nást um frumvarpið víðtæk sátt.

Samkvæmt tillögum meiri hlutans fá björgunarsveitir einungis heimild til aksturs utan vega við björgunarstörf en að öðru leyti eiga æfingar að fara fram á sérstökum æfingasvæðum. 1. minni hluti telur að æfingar björgunarsveita við raunverulegar aðstæður eigi að vera heimilaðar og það er mikilvægt að slíkar æfingar geti farið fram við raunverulegar aðstæður vegna þess að reynsluleysi manna þegar kemur að því að stýra vélknúnum ökutækjum við raunverulegar aðstæður getur reynst mjög dýrkeypt þegar grípa þarf til þess. 1. minni hluti treystir forustumönnum í björgunarsveitum mjög vel til þess að ganga af skynsemi um landið en það er mikilvægt að það sé ekki lokað á það í lögum að þeir sem við treystum á þegar eitthvað kemur fyrir geti stundað æfingar við raunverulegar aðstæður en ekki eingöngu á ákveðnum afmörkuðum æfingasvæðum. Þarna er verið að þrengja þetta og ég held að björgunarsveitir þurfi mun rýmri heimild til æfinga utan vega.

Í tillögum meiri hlutans er einnig lagt til að þeir sem þurfi að aka utan vega vegna starfa sinna skuli halda sérstaka skrá um þann akstur og að Umhverfisstofnun eigi að hafa aðgang að þessum upplýsingum þegar þess er óskað. Að vísu er sett inn undanþága fyrir landbúnaðarstörf og 1. minni hluti telur að það ákvæði muni ekki skipta miklu þegar kemur að því að hindra utanvegaakstur og spjöll á landi og bendir á að þeir sem á annað borð ætli sér að skemma land með utanvegaakstri muni aldrei skrá í sérstakar bækur að þeir hafi verið að keyra á ákveðnum svæðum og aksturinn hafi stuðlað að skemmd á landi. Ég held að við séum farin að þrengja þetta of mikið, að þetta ákvæði þjóni ekki tilgangi sínum og stuðli ekki að minni skemmdum á landi vegna utanvegaaksturs.

Meiri hlutinn leggur til að teknar verði inn undanþágur úr reglugerð. Reyndar er vitnað til rangrar reglugerðar því að það er vitnað til reglugerðar nr. 508/2005 sem snýr að gildistöku tiltekinnar gerðar Evrópusambandsins um aðskotaefni í matvælum. Þarna hlýtur að vera átt við reglugerð nr. 528/2005 en sú reglugerð fjallar um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands. (Gripið fram í.) Þegar þessar tillögur eru skoðaðar og settar í samhengi við fyrirliggjandi frumvarp koma fram, vil ég segja og með fullri virðingu, öfgafull sjónarmið, skilningsleysi á aðstæðum eða einfaldlega mistök.

Ef við skoðum nefndarálitið og breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar kemur þar fram vilji til þess að setja inn heimildir til að aka utan vega. En þá ætla ég að fara aðeins yfir hvaða skorður eru settar þessum heimildum.

Í nefndarálitinu er ítrekað að þessi undanþága eigi einungis við um bændur en ekki hjálparmenn sem þýðir að bændur sem hugsanlega smala á fjórhjólum geti þá ekki fengið aðstoð frá fólki við smalamennsku og önnur bústörf. Skilgreind undanþága felur ekki í sér neina nema bændur, ekki hjálparmenn þeirra.

Í breytingartillögu meiri hlutans er einnig tekið fram, hvort sem það er vegna mistaka eða annarra þátta, að aksturinn megi einungis vera á ræktuðu landi. Þetta er tekið upp úr reglugerð nr. 528/2005 en þegar það er síðan skoðað í samhengi við skýringuna sem ég las upp áðan á ræktuðu landi, sem kemur ný inn í þetta frumvarp, er það eingöngu land sem nýtt er til framleiðslu nytjajurta með sléttun, þurrkun, áburðargjöf, jarðvinnslu, sáningu eða öðrum ræktunaraðgerðum. Með því að takmarka þetta við ræktað land og setja svo inn þessa nýju skilgreiningu sem er ekki í neinu samræmi við textann sem er notaður í frumvarpinu er í raun verið að banna bændum allan akstur utan vega nema á ræktuðu landi. Það eru þá samkvæmt skilgreiningunni tún sem alla jafna er keyrt á dráttarvélum á.

Í breytingartillögunni kemur fram að heimildin nái einungis til landsvæða utan miðhálendisins. Þetta er líka tekið úr reglugerð nr. 528/2005 en með því orðalagi sem breytingartillagan felur í sér er í raun verið að undanskilja mjög stóran hluta af fjalllendi og afréttum landsins þar sem menn hafa smalað á vélknúnum farartækjum í bland við gangandi og á hrossum.

Í breytingartillögu er tekið fram að með undanþágu frá þessu hvað varðar akstur á afréttum og miðhálendi sé mögulegt að fara í eftirleitir og sækja fé inn á miðhálendið ef sýnt er að ekki sé hægt að ná gripunum með öðru móti og að farið sé á farartækjum sem einungis séu á sex hjólum. Í fyrsta lagi liggur ekki fyrir hvaða vísindalegu rök búa að baki því að þarna eigi að takmarka það við einungis sex hjól sem megi fara inn á landið til eftirleita. Í öðru lagi er með orðalaginu gert ráð fyrir því að ekki megi einu sinni fara á sex hjólum nema sýnt sé að ekki sé með nokkrum öðrum hætti hægt að nálgast viðkomandi skepnur.

Þegar maður dregur saman þessar athugasemdir og hvernig þetta er sett upp er sú alvarlegasta skilgreiningin á ræktaða landinu. Í rauninni er verið að banna allan akstur utan vega á fjórhjólum til landbúnaðarstarfa nema á ræktuðu landi og þegar það er sett í samhengi við skilgreininguna á ræktuðu landi í frumvarpinu er meiri hlutinn að leggja til að bændum sé heimilaður akstur utan vega vegna landbúnaðarstarfa, en þegar takmarkanirnar eru skoðaðar og settar í samhengi við lagatextann kemur fram að í raun er með öllu verið að banna akstur utan vega vegna landbúnaðarstarfa (Gripið fram í: Nema í hlaðinu.) nema í hlaðinu heima.

Þess vegna sagði ég að það er einmitt svo mikilvægt við vinnslu mála eins og þessara að líta ekki á þá sem nýta sér þessar undanþágur sem óvini sína þegar verið er að semja svona frumvörp. Það liggur algjörlega ljóst fyrir að það hefði verið hægt að vinna þessar undanþágur af meiri skynsemi. Ég ætla þeim ekki sem hafa sett þetta fram að það hafi verið beinn ásetningur að gera þetta svona. Ég trúi ekki öðru en að einfaldlega sé um mistök að ræða. En þetta kallar þá á að fleiri séu kallaðir að borðinu og að menn séu opnir fyrir því að líta á það sem jákvætt að kalla eftir sjónarmiðum úr fleiri áttum.

Þá ætla ég að koma að því sem snýr að kortagrunni vegna aksturs utan vega. Í frumvarpinu er lagt til að komið verði upp gagnagrunni um vegi og slóða. 1. minni hluti er fylgjandi því að unnið verði að kortlagningu vegslóða en hins vegar er mikilvægt að benda á þann kostnað sem fylgir. Miðað við umsagnir þeirra gesta sem komu fyrir nefndina er full ástæða til að ætla að kostnaðurinn vegna áætlana Landmælinga og miðað við umfang þess verkefnis að kortleggja alla þessa slóða um allt land, ekki bara innan miðhálendislínunnar eins og gert er ráð fyrir í breytingartillögu vegna síðasta frumvarps, verði mun meiri en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þess vegna er mikilvægt að ræða það í samhengi við forgangsröðun í ríkisfjármálum hverju sinni.

Slíkur kortagrunnur yrði óneitanlega styrk stoð og hvatning til minni utanvegaaksturs vegna þess að oft og tíðum verður utanvegaakstur vegna misskilnings og ónógrar þekkingar þeirra sem ferðast um. Samhæfður kortagrunnur mundi óneitanlega stuðla að því að á einum stað væri hægt að nálgast allar þessar upplýsingar.

Fyrsti minni hluti er mjög fylgjandi því að haldið verði áfram vinnu við gerð slíks kortagrunns og hann er mjög mikilvægur líka í ljósi þess að við sjáum vaxandi ferðamannastraum. Ferðamönnum fjölgar og þeir fara um sveitir, inn á hálendi og annað og það er mikilvægt að það liggi fyrir hvað séu skráðir vegir og hvað ekki.

Við höfum hins vegar efasemdir um þá uppbyggingu í frumvarpinu sem kemur inn á að það verði með öllu ólöglegt og í raun refsivert að aka utan þeirra slóða sem eru í þessum kortagrunni. Það hefur komið fram að fjölmargir aðilar hafa gert athugasemdir við þessa grundvallarbreytingu og það er alvarlegt mál ef ferðamaður er jafnólöglegur á vegi eða slóða sem ekinn hefur verið áratugum saman og í ósnortinni og gróinni náttúru af þeirri ástæðu einni að slóðinn er ekki í kortagrunni. Svo er hætta á að slóðar gleymist eða hljóti ekki faglega meðferð, t.d. vegna þekkingarskorts eða mistaka þeirra sem skrá kortagrunninn, og þar af leiðandi lendi sumir vegslóðar ekki í kortagrunninum. Keyri menn síðan þessa slóða og eru teknir við það er það orðið refsivert athæfi. Við teljum ekki sjálfgefið að þessi ákvæði leiði til minni utanvegaaksturs og því er mikilvægt að huga að því með hvaða hætti það sé gert. Það er ekki sjálfgefið að þessi hugmyndafræði muni stuðla að minni utanvegaakstri.

Um leið og 1. minni hluti lýsir yfir stuðningi við að komið verði upp sérstökum kortagrunni er lýst efasemdum um að þær fjárveitingar sem ætlaðar eru til verksins séu nægilegar. Því er mikilvægt að ræða almennt um forgangsröðun fjármagns áður en ákvörðun um auknar fjárveitingar er tekin. 1. minni hluti telur að sú hugmyndafræði sé ekki sú eina rétta að kortagrunnurinn verði nýttur í þeim tilgangi sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, þ.e. að akstur á öllum vegslóðum sem ekki eru tilgreindir í kortagrunni sé refsiverður. 1. minni hluti telur að mögulegt sé að ná víðtækri sátt um þetta mál en til þess þarf að kalla alla aðila að borðinu og vinna að málinu með samráði. 1. minni hluti lýsir sig fullkomlega tilbúinn að taka þátt í slíkri vinnu. Þá snýr það að því að setja þannig ákvæði í lögin að þau séu skýrt orðuð, heimildirnar séu örugglega þess eðlis að hægt sé að stunda atvinnustarfsemi, landbúnað, björgunaraðgerðir o.fl. á landinu og jafnframt erum við fylgjandi því að þessum kortagrunni verði komið upp en viljum skoða aðrar leiðir varðandi það setja inn refsiákvæði gagnvart þessu. Við bendum á það í álitinu að ekki sé sjálfgefið að þetta muni leiða til minni utanvegaaksturs. Á það hafa bent meðal annars umsagnaraðilar sem komu fyrir nefndina.

Að öðru máli sem tengist óneitanlega mjög mikið lögum um náttúruvernd, þ.e. fræðslu og kynningu á íslenskri náttúru. Það er kannski ágætt, sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem varð hér í morgun milli hæstv. fjármálaráðherra og hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að uppbyggingu Náttúruminjasafns og þeirri fjárveitingu sem áætluð er í það í tengslum við forgangsröðun í ríkisfjármálum, að hafa í huga að öflugt náttúruminjasafn er ein meginforsenda þess að fræðsla um náttúruna verði aðgengileg almenningi. Í öllum vestrænum löndum og víðar skipta slík söfn miklu máli í náttúruvernd og fræðslu um náttúruna. Ríkisstjórnin hefur eins og kunnugt er ákveðið að veita hundruð milljóna króna til uppbyggingar náttúruminjasýningar í Perlunni. Það er þess vegna sérstakt að hvergi í frumvarpinu skuli nefnt Náttúruminjasafn Íslands, þessi stoð, fræðslan um náttúruna sem óneitanlega er gríðarlega mikilvæg í náttúruvernd almennt. Stofnuninni Náttúruminjasafni Íslands er ekki ætlað neitt hlutverk og hún hvergi nefnd í frumvarpinu. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir fræðsluhlutverki um náttúruna, og það kemur fram í 13. gr. frumvarpsins, og það er á vegum Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Náttúruminjasafn Íslands er samkvæmt lögum sett á stofn sérstaklega til að sinna fræðsluhlutverki og óþarft að svo margar ríkisstofnanir sinni sama hlutverki. Í gömlu lögunum um náttúruvernd — þá var ekki Náttúruminjasafn Íslands orðið til — er ekki tekið á þessu. Það er fullkomlega eðlilegt að allt það sem snýr að fræðslustarfi um náttúru Íslands verði flutt til Náttúruminjasafns Íslands og að sú stofnun stuðli síðan í samvinnu við hinar stofnanirnar að þessari fræðslu og öðru því sem náttúruminjasöfn alls staðar í kringum okkur stuðla að. Þetta er svolítið rauði þráðurinn í þessu frumvarpi, en það má gagnrýna að inn í þessa vinnu er ekki tekin sú breyting sem hefur orðið með stofnun Náttúruminjasafns Íslands sem reyndar hefur verið sinnt mjög lítið af sitjandi ríkisstjórn á þessu kjörtímabili. Við munum öll að meðal annars í lögum um Náttúruminjasafn Íslands er gert ráð fyrir því að hún yfirtaki náttúrumuni, m.a. frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Og það er sérstakt í ljósi þess að ríkisstjórnin lagði áherslu á það við síðustu fjárlagagerð að veita fjármuni til Náttúruminjasafns Íslands vegna uppbyggingar á Náttúruminjasafni að þá sé þessari ríkisstofnun ekki ætlað neitt einasta hlutverk. Hún þjónar þeim mikilvæga tilgangi í náttúruvernd að byggja upp almenna vitund um náttúruvernd, skilning á náttúrunni og mikilvægi þess að við búum í og með náttúrunni og að við Íslendingar lifum á náttúrunni. Við erum auðlindarík þjóð. Á sama tíma á að setja hundruð milljóna í uppbyggingu á náttúruminjasýningu í Perlunni. Ég kalla það grundvallarhugmyndafræðileg mistök með þessu frumvarpi að Náttúruminjasafni Íslands sé ekki ætlað þarna víðtækara hlutverk.

Annað atriði sem hefur verið gagnrýnt við vinnslu þessa máls, bæði með innsendum umsögnum og gestakomum, er náttúrustofur og hlutverk þeirra. 1. minni hluti tekur undir gagnrýni Samtaka náttúrustofa á frumvarpið en samtökin telja að frumvarpið gangi gegn anda laga nr. 60/1992 með því að gera ekki ráð fyrir meiri aðkomu náttúrustofa að stjórn náttúruverndarmála og vöktun. 1. minni hluti telur að náttúrustofur gegni mikilvægu hlutverki í náttúruvernd og auki tengsl náttúruverndar og nýtingar náttúruauðlinda. Mikilvægur hluti af náttúruvernd er að koma samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun við náttúrustofur í formlegra ferli og að verkefnum þessara ríkisstofnana verði beint til náttúrustofa í meira mæli en nú er.

Til að bæta við þetta má nefna að það hefur sýnt sig að náttúrustofurnar og hugmyndafræði þeirra var að fleiri verkefni færu til þessara náttúrustofa, að verkefni þeirra á nærsvæði sínu yrðu aukin í þeim tilgangi að tryggja aukinn skilning þeirra sem rannsaka og vakta náttúru Íslands. Samskipti þeirra sem búa í náttúrunni, nytja hana og skapa okkur gjaldeyristekjur dag hvern, matvæli o.fl., tengsl og annað ætti að aukast. Það er gagnrýnivert að ekki skuli hafa verið tekið tillit til þessa þáttar.

Í minnisblaði Samtaka náttúrustofa sem nefndinni var sent eftir fund þeirra með nefndinni óskaði sá sem hér stendur eftir ítarlegra minnisblaði um hvernig samstarfi náttúrustofanna og Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar hefði verið háttað á undanförnum árum og hvort þær teldu að þar með næðust þau markmið sem gert væri ráð fyrir í lögunum. Þá kom fram að samstarfið hefði verið lítið og að í flestum tilfellum hefðu ekki verið í gangi nein formleg samstarfsverkefni á árinu 2012 á milli náttúrustofanna, Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar, þó með einstaka undantekningum.

Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar kom fram hjá forsvarsmönnum Samtaka náttúrustofa að náttúrustofurnar væru í raun skrifaðar út úr lögunum og bentu samtökin á ýmsar breytingartillögur sem meiri hlutinn hefur ákveðið að taka ekki inn í frumvarpið. Örlítið um þetta hefur verið tekið inn og í nefndaráliti meiri hlutans er mikilvægi náttúrustofa viðurkennt en ekki gengið í þá átt að raunverulega efla starfsemi náttúrustofanna. Það hefði þurft að ganga miklu lengra í þessa átt vegna þess að með því, eins og ég sagði, værum við að efla almenna vitund, tengja náttúruvernd og hugmyndafræðina um náttúruvernd við nærsvæðin, við þá sem búa á svæðunum. Það er mjög gagnrýnivert að ekki hafi verið tekið tillit til þessa þáttar í nægilega miklum mæli þegar þetta var skrifað.

Maður skynjaði það, bara svo það sé sagt, að það virðist vera mjög mikil togstreita á milli Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofanna, rétt eins og maður skynjar togstreitu á milli Náttúrufræðistofnunar og Náttúruminjasafns Íslands. Það virðist sem Náttúrufræðistofnun vilji einhverra hluta vegna ekki láta verkefnin frá sér til náttúrustofanna. Þess vegna er mikilvægt að þegar við skrifum lög um náttúruvernd og horfum til laga nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, tökum við inn í þau og það sé skýrt afmarkað með miklu víðtækara hætti að frumvarpið sé skrifað með það fyrir augum að starfsemi náttúrustofa eigi að eflast. Það er ekki gert í dag rétt eins og það er ekki skrifað í dag í grunninn miðað við það að miðlun upplýsinga, sýningar á náttúrunni og annað því um líkt sé á hendi Náttúruminjasafns Íslands. Hvorugur þessara þátta er þannig, frumvarpið er ekki skrifað með það fyrir augum að uppbyggingin verði svona til framtíðar. Grundvallarhugsunin á bak við þetta og grundvallarhugsun mín í þessum málum snýr að því að efla vitund nærsamfélaganna og starfsemina úti í náttúrunni og sem næst náttúrunni en ef við náum ekki þeim markmiðum og til lengri tíma er það neikvætt.

Það hefur líka verið gagnrýnt í frumvarpinu að stjórnsýsluhlutverk sem ætti að vera hjá Umhverfisstofnun er oft flutt til Náttúrufræðistofnunar. Þrátt fyrir minnisblað frá Náttúrufræðistofnun Íslands þar sem þetta var í raun réttlætt, og meiri hlutinn kemur inn á það í sínu nefndaráliti, eru úreltir stjórnunarhættir að sama stofnun rannsaki, úrskurði og eigi hlutdeild í að veita leyfi. Leyfisveitingar eiga að vera hjá Umhverfisstofnun sem fær umsagnir hjá þeim aðilum sem hæfastir eru. Það er ekki alltaf Náttúrufræðistofnun, það geta verið fleiri stofnanir, fleiri aðilar. Fjölmargir umsagnaraðilar gagnrýna þetta í frumvarpinu og þá grundvallarhugsun að Náttúrufræðistofnun sé fært vald sem ætti að vera hjá Umhverfisstofnun. Það er mjög gagnrýnivert.

Fyrsti minni hluti gerir sérstaka athugasemd við þau mörgu hlutverk sem Náttúrufræðistofnun eru falin með lögunum, þ.e. að rannsaka, vakta, halda skrár og gefa umsagnir auk þess að sjá um C-hluta náttúruminjaskrár og taka þátt í leyfisveitingum. Náttúrufræðistofnun er rannsóknastofnun og á nóg með að bæta vöktunarhlutverki við það hlutverk. Stjórnsýsluhlutverk er betur komið hjá Umhverfisstofnun sem og umsjón með náttúruminjaskrám. Sá sem hér stendur er þeirrar skoðunar að vöktunarhluverkið sem er verið að færa yfir til Náttúrufræðistofnunar ætti að færa í auknum máli yfir til náttúrustofanna. Í grunninn ætti hugsunin og hugmyndafræðin þegar þetta er skrifað að vera öll út frá því að sú vöktun ætti að færast út til náttúrustofanna.

Þessi hugmyndafræði var gagnrýnd mjög mikið. Það hvernig þetta er gert í frumvarpinu var mjög gagnrýnt af mörgum sem komu fyrir nefndina og 1. minni hluti tekur undir þá gagnrýni.

Til að fara beint úr umræðunni um stjórnsýsluhlutverk og óskýr skil um það hvort þessir þættir eiga að vera hjá Náttúrufræðistofnun eða öðrum stofnunum kemur fram í frumvarpinu og fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að Náttúrufræðistofnun Íslands telji sig þurfa 9 millj. kr. árlega til að sinna þeim verkefnum sem stofnuninni er ætlað með frumvarpinu. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að Náttúrufræðistofnun Íslands telji sig þurfa meiri fjármuni en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Gerir stofnunin ráð fyrir því að þurfa 30 millj. kr. árlega auk 5–6 millj. kr. eingreiðslu við samþykkt frumvarpsins.

Þetta er mjög athyglisvert og sýnir okkur að þarna er gert ráð fyrir að þessi vöktunarhluti fari inn til Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þetta er athyglisvert líka í samanburði við þróun fjárveitinga til stofnunarinnar á undanförnum fjórum árum þar sem fram kemur að fjárveitingar hafa aukist mjög mikið til Náttúrufræðistofnunar Íslands líkt og sjá má á mynd sem ég er með í nefndarálitinu. Þar kemur fram að Náttúrufræðistofnun Íslands var árið 2007 með 275 milljónir á fjárlögum en er árið 2013 komið í 593 milljónir. Fjárveitingin er sem sagt tvöfölduð, hún hefur tvöfaldast eftir hrun.

Þegar til stendur að setja enn fleiri verkefni inn til Náttúrufræðistofnunar er umhugsunarefni sú þróun sem orðið hefur og hvort við eigum ekki að skoða þá gagnrýni sem kemur fram í frumvarpinu og kemur fram í athugasemdum hvaða rök búi almennt að baki því að verið er að flytja stjórnsýsluverkefni sem ættu heima hjá Umhverfisstofnun, verkefni sem ættu heima hjá náttúrustofum yfir til Náttúrufræðistofnunar Íslands, verkefni sem ættu heima hjá Náttúruminjasafni Íslands yfir til Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þetta er mikið umhugsunarefni og væri fullkomlega eðlilegt að skoða frekar.

Annað mál sem hefur mikið komið inn og hefur verið gagnrýnt töluvert í tengslum við þetta mál snýr að almannarétti til að fara um land, dvelja á landi og annað því um líkt. Þetta er í 18.–30. gr. frumvarpsins. Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson kom ágætlega inn á það áðan og skýrði út þær breytingartillögur sem meiri hluti nefndarinnar leggur til, en ég held að það sé umhugsunarefni og við eigum að skoða þessi ákvæði enn frekar. Við þurfum líka að skoða þau í ljósi þeirrar þróunar sem er að verða. Það er minnst á það í nefndaráliti meiri hlutans og það kom fram við vinnslu í nefndinni að ástæða þess að verið væri að lögsetja til dæmis heimildir til að dvelja á landi væri meðal annars vegna þess að sú breyting væri að verða í hinum dreifðu byggðum landsins að sú menning sem tíðkast hefði, að mönnum væri heimilt að ganga um óræktuð lönd og annað því um líkt, væri að breytast með því að það væru hugsanlega erlendir aðilar eða fólk úr höfuðborginni sem keypti jarðir, skellti öllu í lás og heimilaði engum að ganga um lönd sín.

Ég get vel tekið undir þessi sjónarmið. Ég kem sjálfur úr sveit og get sagt að það hefur aldrei verið neitt vandamál að fá heimildir ef menn ætla að fá sér göngutúr, fara um á hestum eða hvernig sem það er. Vissulega er þessi hætta til staðar en engu að síður þurfum við að setja þetta í samhengi við það sem er að gerast í dag. Við erum að horfa upp á það að ferðamönnum er almennt að fjölga gríðarlega mikið. Það kom meðal annars fram hjá gestum sem komu fyrir nefndina að á ákveðnum svæðum sé nánast orðið óbúandi yfir sumartímann vegna þess að umferðin sé svo mikil, fólk kíkir á glugga, stoppar við húsgafla, losar sig við úrgang, tjaldar á hlaðinu eða í jaðrinum og gengur inn í graðhestagirðingar sem er stórhættulegt. Meðal annars kom það fram hjá einum gesti sem er búsettur þar sem er töluverð ferðamannatraffík að í fyrrasumar hafi viðkomandi einstaklingi orðið nóg um þegar kom heill bíll af útlendingum sem gengu beint inn í graðhestagirðingu, sem er óræktað land samkvæmt þessum lögum og ekkert hægt að gera í því. Það í rauninni veruleg hætta á því að viðkomandi gæti slasað sig í girðingunni — og hver bæri þá ábyrgð á því?

Þetta eru gagnrýnisraddirnar sem hafa komið fram. Í rauninni held ég að það sé full ástæða til að hafa áhyggjur. Nokkrir umsagnaraðilar telja að lögin feli í sér stórfellda skerðingu á eignayfirráðum í landi og að hún fari í bága við stjórnarskrá þar sem mælt er fyrir um friðhelgi eignarréttar. 1. minni hluti hefur efasemdir um að þessi sjónarmið standist en tekur fram að það er mikilvægt hjá nefndinni að skoða þetta. Það hefði þurft að skoða þennan þátt betur við vinnslu málsins.

Nú er, frú forseti, tími minn að verða búinn og ég er ekki búinn að gera almennilega grein fyrir nefndarálitinu. 1. minni hluti leggur til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar sem taki mið af þeim athugasemdum sem fram hafa komið áður en málið verður aftur lagt fram á Alþingi. (Forseti hringir.)

Ég held að ég verði að biðja aftur um orðið til að geta í það minnsta klárað að fara yfir nefndarálitið.