141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[14:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Mig langar að spyrja hann út í útgjaldalið frumvarpsins sem mér finnst allt of oft lítil virðing borin fyrir. Í frumvarpinu og í áliti meiri hlutans kemur fram að gert hafi verið ráð fyrir að kostnaðarauki Umhverfisstofnunar yrði 32 millj. kr. Í meðförum nefndarinnar eru þær 32 millj. kr. orðnar 110 millj. kr., upphæðin hefur þrefaldast þegar nefndin er búin að skoða grunninn að frumvarpinu.

Í umsögn í frumvarpinu kemur fram að samkvæmt mati umhverfis- og auðlindaráðuneytisins ríki óvissa um kostnaðaráhrif frumvarpsins á sveitarfélögin. Því langar mig að spyrja hv. þingmann, þar sem þetta kemur ekki fram í álitinu, hvort það hafi komið fram í nefndinni hver kostnaðarauki frumvarpsins væri. Ég spyr ekki síst í ljósi þess að búið er að samþykkja lög frá Alþingi sem kveða á um að óheimilt sé að leggja fram lagafrumvörp án þess að kostnaðargreina þau gagnvart sveitarfélögum. Komu þessar upplýsingar fram á fundi nefndarinnar?