141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[14:38]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsögu hans með því nefndaráliti sem hér liggur fyrir. Þar er drepið á ýmsum þáttum í þessu stóra og viðamikla máli sem hefur verið allnokkurn tíma í vinnslu. Maður hefði haldið að sumt af þeim athugasemdum sem hv. þingmaður, sem fulltrúi 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar, dregur fram í nefndaráliti sínu — að það hefði átt að gefast tími til að eyða þeim misskilningi sem þar er uppi eða skýra betur þær skilgreiningar sem hv. þingmaður gerir athugasemdir við.

Einn þáttur þessa máls hefur verið mér nokkuð hugleikinn frá því ég átti þess kost að sitja í umhverfisnefnd hér forðum tíð og það er hinn stjórnsýslulegi þáttur. Ég tek eftir því að í nefndaráliti hv. þingmanns er drepið á þátt náttúrustofa í þessu verki öllu og ég vildi gjarnan inna hann eftir því hvernig sú umræða hefði verið í nefndinni, þ.e. um þá þætti stjórnsýslunnar sem snerta náttúrustofurnar.

Ef ég fer aðeins lengra og inn í yfirstjórnina, sem lýtur að Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun, rek ég einnig augun í það í umsögninni að þar hafa menn áhyggjur af því að verkefnin eigi enn eftir að skarast meira en var á þeim tíma þegar ég var að sýsla við þessi efni í umhverfisnefnd fyrir ekki lengri tíma en tveimur árum.

Mér þætti vænt um að fá nánari skýringar frá hv. þingmanni á þessum þætti athugasemdanna varðandi náttúrufræðistofurnar og stjórnsýslulega umsýslu í þessum efnum.